14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

4. mál, áfengislög

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Hv. 10. landskjörinn var að beina nokkrum orðum til mín. því miður get ég ekki munað allt mál hv. þm. þar sem hv. 7. þm. Reykv. var öðru hvoru að trufla mig á meðan á ræðu hans stóð. — En það heyrði ég þó, að hv. 10. landsk. var að segja, að tilgangurinn með frv. þessu mundi vera sá að loka öllum áfengisútsölum á landinu. Út af þessum ummælum vil ég taka það fram, sem ég reyndar hélt að öllum væri ljóst orðið, að í fyrsta lagi er tilgangurinn með þessu frv. sá, að gefa þegnunum í landinu rétt til þess að ráða því, hvort þeir vilji hafa vínútsölu á sínum stað í landinu eða ekki. Um þennan tilgang frv. geta bæði bannmenn og andbanningar verið sammála, sem hreinir lýðræðissinnar og ennfremur passa að leiðrétta að sums staðar ráða menn þessu en sums staðar ekki. — Nú er þá verið að trufla hv. 10. landsk. eins og mig áðan. — En er þessum fyrri tilgangi hefur verið náð, þá kemur baráttan milli bannmanna og andbanninga. Bannmenn stefna að því að framkvæmd verði þessi lokun sem viðast, en andbanningar aftur á móti vilja hafa útsölurnar sem víðast opnar.

Nú var ég spurður að því, hv ort hin síðari villa yrði ekki verri en hin fyrri, ef það skyldi af leiða að nýjar útsölur mundu opnast við samþ. þessa frv. Þá vil ég svara því, að ég er svo mikill lýðræðissinni, að ég vil að þegnarnir fái að ráða þessu, hvort heldur sem af því leiddi, að ný vínútsala opnaðist eða gömul lokaðist. Ég vil, að þeir fái að velja um þetta, og vona ég, að andbanningar mæti mér hér.

Þá var hv. 10. landsk. að tala um það, að eftir væri nú að stöðva lekann á Hótel Borg, þó að það kynni að heppnast að stöðva stóra flóðið. Ég er ekki reiðubúinn til að gefa skýr svör um, hvernig hann megi stöðva, en vil í því sambandi vísa til þess, sem hv. þm. Borgf. sagði um það atriði, ef tækist að stöðva stóra flóðið þá ætla ég, að einhver ráð finnist til þess að stöðva lekann á Hótel Borg. Ég býst við því, að löggjafinn hafi á undanförnum árum sigrazt á stærra vandamáli en því, er hv. þm. er að gefa í skyn, að verði erfitt að leysa.

Þá var hv. 10. landsk. að minnast h ástandið í þessu efni hjá okkur. Hann telur það gott, en ég tel það illt. Um það ætla ég ekki að fara að deila við hv. þm., en ég vil að nefnu tilefni láta í ljós þá einlægu hjartans ósk mína, að þessi lm. þm. eigi ekki eftir að spilla sínu góða mannorði á því, er hér um ræðir.

Hv. utanrmrh. var að tala um það — hann er nú farinn burt úr d. sé ég er —, að í hættu væri saltfisksalan til Spánar á fiski, sem annars myndi kannske óseljanlegur. Ég vil nú leyfa mér að spyrja. Er það ekki rétt, að í fiskisölusamningi, sem gerður var við Bretland, hafi nokkuð af fiski verið undanskilið til þess að viðhalda gömlum samningi við Spán — en Bretar voru annars fúsir á að kaupa af okkur allan okkar fisk? Ég hygg einnig þá vera ástæðuna til þess, að nokkuð hefur verið selt til Spánar af fiski.

Ég má annars vel við þessar umr. una, þar sem enginn hefur andmælt því, sem er eitt meginatriði þessa máls, að með þessu frv., ef að l. verður, sé ekki verið að brjóta í bága við Spánarsamninginn, að lagastafurinn sé hlutlaus gagnvart samningnum, og það komi fyrst til álita við framkvæmd hans, hvort það komi til með að draga úr gildi hans eða ekki. — Annars vil ég benda á það, sem ég og hv. þm. Borgf. hefur enn betur sýnt fram á, að samningurinn við Spán hefur verið margbrotinn, að hér er verið að vekja upp draug eins og hann sagði. Og hvort sem menn eftir sem áður álíta, að samningurinn sé í gildi eða ekki, þarf það ekki að hafa nein áhrif á samþ. þessa frv., því að það brýtur ekki í bág við samninginn, þótt í gildi væri.

Mun ég því greiða frv. mitt atkv.