20.01.1943
Neðri deild: 38. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

4. mál, áfengislög

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég kvaddi mér hljóðs aðeins út af brtt. á þskj. 209. — Ég skal játa. að brtt. er mjög svipuð því ákv. í frv., er henni er ætlað að breyta, en þó get ég ekki betur séð en að brtt. sé miður heppileg en 2. gr. frv.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa þetta hvort tveggja upp, brtt. og 2. gr. frv. 2. gr. frá. hljóðar svo:

Ríkisstj. skal, er l. þessi hafa verið samþ., gera ráðstafanir til þess að fá breytt milliríkjasamningum þeim, sem l. þessi kunna að brjóta í bág við, og öðlast l. gildi, er þeim samningum hefur verið breytt og ríkisstj. birt um það tilkynningu. En brtt. hljóðar svo:

Nú telur ríkisstj., að l. þessi kunni að brjóta í bág við milliríkjasamninga, og skal hún þá gera þær ráðstafanir, er hún álítur nauðsynlegar til þess að samrýma þá samninga ákv. l. Að því loknu öðlast l. gildi, enda birtir ríkisstj. um það tilkynningu.

Munurinn er sá, að í frvgr. segir ákvæðið, að ríkisstj. skuli gera ráðstafanir til að fá breytt, en í brtt.: Nú telur ríkisstj. o.s.frv. En nú telur ríkisstj. sig kannske ekki eiga að gera neinar ráðstafanir, þó að það jafnvel þurfi einhverra ráðstafana við.

Ennfremur segir í brtt.: Gera þær ráðstafanir, er hún álítur nauðsynlegar. Það er sem sagt lagt í vald stj., hvað hún gerir eða hvort hún telur nauðsynlegt að gera nokkuð, þó að kannske hinn aðili samningsins telji hið gagnstæða.

Ég fæ því ekki betur séð en hv. flm. brtt. hafi hér með brtt. verið að slá vindhögg. Ég vil taka það fram, að ég álít breytingar á samningnum vera barnaskap. Það eina, sem við gætum haft upp úr því, er það, að samningunum yrði sagt upp.

Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég hef áður sagt um þetta efni, en vil aðeins benda á, að hér er um að ræða sölu á aðalframleiðsluvöru okkar Íslendinga. Hér er um mikilsverðan útflutning að ræða, þar sem saltfiskurinn er. Og vegna þess, hve mikið er í húfi, ef illa tekst, þá álit ég alveg óviðeigandi að deila um svona mál. Það lýsir móðursýki og andlegri fötlun að koma fram með þetta mál, þegar litið er á þá staðreynd, að með því er sölu helztu útflutningsvöru okkar stefnt í hættu.