12.02.1943
Efri deild: 56. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

4. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Minni hl., hv. þm. Seyðf. og ég, hefur skilað sérstöku nál., þar sem við færum veigamiklar ástæður á móti frv., sem gera það að verkum, að að okkar áliti er sjálfsagt að fella það. Í fyrsta lagi lítum við svo á, að reynslan sé þegar margfaldlega búin að sýna það bæði hér og annars staðar, að bann gegn áfengi sé ekki sú heppilegasta eða hagkvæmasta leið til að sporna við ofdrykkju. Þvert á móti eru til örugg dæmi þess, að áfengisbann hefur haft í för með sér meiri spillingu en nokkur önnur tilraun, sem gerð hefur verið á móti ofnautn áfengis. Slíkt bann hefur verið reynt víðsvegar og hvarvetna gefizt illa. Íslendingar þurfa ekki að hafa spurnir af öðrum þjóðum til að vita þetta, en við mættum þó muna, að bæði okkar nánasta frændþjóð, Norðmenn, og stórveldi Bandaríkjanna, afnámu bannið hjá sér, þegar úr var orðið það allsherjarhneyksli, sem öllum heiminum er kunnugt. Bannið hjá okkur var um nokkurra ára bil að lognast út af, en loks var það afnumið, þegar fengin var slík reynsla, að mig furðar á, að nokkur maður og sérlega þeir, sem af alvöru vilja vinna gegn ofnautn áfengis, skuli trúa á gagnsemi bannsins.

Þetta er nú orðið svo margþætt mál, enda ljóst, að bannmenn hafa gefizt upp við að ganga beint framan að þjóðinni um að heimta bann. Nú ætla þeir með dulbúinni árás að smeygja þessu inn hægt og hægt. Þó að það — eins og ég sagði áðan — sé merkilegt, að þeir, sem í alvöru vilja vinna gegn ofnautn áfengis, skuli enn hafa trú á bannleiðinni, hefur það undur skeð, að slíkir menn eru til. Ég hef fyrir framan mig grein eftir einn af þeim mönnum, í blaðinu „Eining“, sem hefur verið dreift á meðal þm. Hún heitir „hin frjálsa leið eða bann“, og þar sem dæmi, sem þar er tekið, er lærdómsríkt í þessu sambandi, vil ég með leyfi hæstv. forseta vitna í greinina. Þar segir svo:

Loks kom þar, að fyrrv. forsrh. og form. Sjálfstfl. tilkynnti þjóðinni, að flokkur hans hefði neyðzt til að hverfa frá hinni „frjálsu leið“ og styðja þvingunarlöggjöf. — Þá fæddust gerðardómslögin, sem sami ræðumaður kallar „þjóðnytja löggjöf“ (Morgunblaðið, 19. desember 1942). Þarna er gripið til banns, þegar hin frjálsa leið misheppnast. Þetta er engin pólitík hjá mér. Ég vil aðeins benda þeim blessuðum þrákálfum, sem alltaf ráðast gegn áfengisbanni, en segja okkur að fara hina „frjálsu leið“, á, að þetta höfum við gert um áratugi og jafnvel aldir, en sú leið hefur enn misheppnazt, og þess vegna neyðast menn til að semja bannlög. Við viðurkennum, að þetta er neyðarúrræði. En vanþroskuðum mönnum og þjóðum hæfir slík löggjöf. Börn og flón þurfa að vera boðum og bönnum háð.

Það er ágætt að taka málið til umr. á grundvelli þessa dæmis. Það er að vísu rétt, að menn hurfu að því neyðarúrræði að setja eins konar bannlög gegn verðbólgunni, en hvernig reyndust þau? Urðu þau ekki til þess, að verðbólgan óx og braut af sér allar stíflur. Ég held, að ekki verði um það deilt, að árangurinn varð þveröfugur við tilganginn, — af því að bann var ekki rétta ráðið. Það er ekki hægt að koma því á, sem allur almenningur stendur eindregið á móti og telur, að sé gegn sínum hagsmunum eða almennri siðgæðisvitund. Þetta gat verið skynsamleg löggjöf út af fyrir sig, bæði hvað snertir verðbólguna og áfengið, en þó að tilgangurinn sé góður, hefur reynslan svo ótvírætt leitt í ljós, að slík bannlöggjöf er ekki hagkvæm.

Ég hef tekið þetta dæmi, af því að það er valið af bannmönnum sjálfum til að sýna réttmæti þeirra málstaðar, en það sannar bara það gagnstæða.

Það fyrirkomulag, sem stungið er upp á í frv. því, sem fyrir liggur, mundi auk þess hafa í för með sér eilífan áróður og enginn friður skapazt um málið. Hitt væri annað mál, að reyna að finna heilbrigða lausn á einhverju atriði í eitt skipti fyrir öll.

Það er eftir þessum l. hægt að koma upp áfengissölu í kaupstöðum, sem mundi gera hann — segjum hér í Rvík — að hégóma og tómum lagabókstaf. Ef á að vera bann, þá þarf það að vera á öllu landinu, en ekki eins og hér er ráðgert. Þessir gallar á meginstefnu frv. og efni þess, að ég mundi vera á móti því, sem víxlspori í því mikla vandamáli. En þar að auki er það upplýst af utanrn., að það stríðir á móti skuldbindingum ríkisins. Það hefur með samningunum við Spán skuldbundið sig til að setja ekki löggjöf slíka sem þessa. Hv. Nd. áttaði sig nokkuð á þessu og setti inn í frv. ákvæði, sem eru nokkuð óljós og ófullnægjandi. Ef Alþ. í raun og veru vill að bann sé hér lögleitt á ný, þá á það að hafa kjark til að segja upp milliríkjasamningum, sem valda því, að því er ekki frjálst að setja bann við sölu áfengis, jafnvel þó það með því móti eigi á hættu að missa aðalsaltfiskmarkað okkar. En Alþ. á ekki að velta þessari ábyrgð á herðar hæstv. ríkisstj. og með óljósum ákvæðum ætla henni að samrýma milliríkjasamninga þessari löggjöf.

Ég hef grun um, að margir hv. þm., sem greiða atkv. með frv., ætlist til, að ríkisstj. geri ekkert og láti löggjöfina standa. En ef þeir ætlast til, að milliríkjasamningunum sé sagt upp, þá eiga þeir að hafa manndóm í sér til þess að ráða því, að þeim sé sagt upp, en ekki fela sig á bak við pils ríkisstj. Það er hugleysi, sem verður þeim aðeins til skammar.

Það er því skoðun mín, að öll rök mæli móti þessari lagasetningu, og ég vona, að hv. deild felli frv. og felli það sem fyrst.