19.02.1943
Efri deild: 60. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

4. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Í tilefni af samanburði á l. og þessu frv., sem hér liggur fyrir, langar mig til að gera fyrirspuru til þeirra manna hér, sem mest fylgja þessu frv., hvort beri að skilja það svo, ef þetta verður að l., að öllum áfengis útsölum verði í raun og veru lokað, í þeim kaupstöðum, sem óska eftir, að útsölur séu lagðar niður.

Mér finnst ákvæði l. frá 1935 skýrt um það, að áfengisverzlun ríkisins annist sölu áfengis. En frv. þetta ber með sér, að hér sé aðeins um smásölur að ræða, þannig að ekki sé girt fyrir það, að ríkið geti selt í öðrum stöðum án þess að hafa útsölustaði. Það væri fróðlegt að fá upplýst, hvort það er hugsun þeirra, sem flytja þetta frv., að berjast fyrir því að koma á sameiginlegu banni um allt land eða aðeins sameiginlegu banni við smá útsölum. Því mér finnst, eftir frv., að útsölustaðir, sem þar eru nefndir, séu í raun og veru ekki annað en smá útsölustaðir. En heildsalan gæti haldið áfram í Rvík eins og nú er bak við tjöldin til einstaklinga, sem t.d. giftu sig eða eiga afmæli. (HermJ: Það er alveg tvímælalaust). Þá sé ég ekki annað en hér sé um kák að ræða. Því að þótt þetta væri samþ. um smá útsölurnar, þá er önnur vínsala í landinu opin jafnt eftir sem áður. En ég efa, að það hafi verið meining aðal flutningsmanna þessa frv., heldur hygg ég, að þeir gætu með þessu smátt og smátt unnið að því að þurrka landið og leggja alveg niður vínsöluna í landinu, ef þjóðin óskar þess. Því að annars er engin meining í frv. eins og það er. Þess vegna mun ég að gefnum þessum skýringum greiða atkv. á móti frv., eins og það er.