24.02.1943
Efri deild: 62. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

4. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Ég varð töluvert undrandi, þegar ég heyrði hv. 1. þm. S.- M. lýsa við 1. umr., að hann mundi greiða atkv. á móti þessu frv., því að ég veit nú ekki betur en að þessu frv. sé einmitt ungað út í þeim herbúðum, sem hann er a.m.k. mjög kunnugur í, ef hann þá ekki beinlínis á þar heima enn. Ég varð enn meira undrandi á þessu vegna þess, að ég hafði komizt að alveg sömu niður stöðu um það að greiða atkv. á móti þessu frv. Við höfum nú setið saman á þingi í 20 ár sessunautur minn, hv. fyrri þm. S.-Múl. (IP) og ég. Við höfum alltaf verið flokksbræður og því oft sammála um mál, en ég minnist þess ekki, að við höfum nokkurn tíma verið sammála um mál, sem snerta áfengislöggjöfina, bann og þess konar, og ég skal játa það, að þegar ég heyrði, að sessunautur minn lýsti yfir því, að hann ætlaði að greiða atkv. á móti þessu frv., varð það til þess, að ég fór dálítið að endurskoða mína afstöðu til málsins, en ég verð að segja eins og er, að mín afstaða er nú alveg sú sama eins og ég hafði staðráðið, að hún yrði, áður en ég heyrði þessa yfirlýsingu hans, og ég þykist vera búinn að finna skýringu á því, hvernig á því undarlega fyrirbrigði stendur, að við, sessunautur minn og ég, erum loksins sammála um svona mál. Það er sem sé kunnugt öllum þingheimi, að hann er einn af allra ákveðnustu bindindis- og bannmönnum á Alþingi. Ég býst við, að það sé einnig kunnugt þingheimi, að ég er nú svona frekar andbanningur, þó að ég sé sennilega ekki eins ákveðinn í því eins og hann í sinni bannstefnu. Hann trúir á það, að það sé bæði gerlegt að útiloka áfengi úr landinu með bönnum, og eins álitur hann það æskilegt. Ég trúi ekki, að það sé gerlegt og viðurkenni ekki heldur, að það sé æskilegt, og ég ætla, að skýringin liggi í því, þó að við, sessunautur minn og ég, séum í grundvallaratriðum á ólíkum skoðunum í þessu máli, meinum við báðir það, sem við höldum fram: það er einlægni fyrir okkur báðum. Það hygg ég, að sé skýringin á því undarlega fyrirbrigði, að við erum loks sammála um niðurstöðu í þess konar máli, því að þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 244 og á að greiða atkv. um, er þannig úr garði gert, að ég tel mjög mikinn vafa á, að það hafi verið borið fram eða afgreitt frá hv. Nd. í fullri alvöru. Ég álít, að það hafi verið afgreitt frá hv. Nd. með þeim huga að vera eins konar snuðtútta handa templurum og öðrum bannmönnum til þess að vita, hvort það yrði ekki friður fyrir þeim einhvern tíma, ef þeir fengju þetta. Það kannast allir við það, að þessum snuðtúttum er stungið upp í börn, svo þau hætti að öskra, en þau fá enga næringu af þeim og hafa yfirleitt ekkert gagn af þessum snuðtúttum, og þó við, sessunautur minn og ég, séum andstæðingar í þessum málum yfirleitt, get ég ekki annað en metið það við hann, að hann getur ekki látið sér nægja slíka snuðtúttu sem þetta er. Samkvæmt 2. gr. frv. er svo meistaralega um búið, að það er nokkurn veginn víst, að þetta frv. kemur ekki til framkvæmda, þó að það yrði samþykkt — a.m.k. ekki meðan stríðið stendur — og sennilega aldrei. En það er náttúrlega pent fyrir suma menn að segja: Við gerðum það, sem við gátum. Þarna eru l. um, að það me,;i taka upp þessi svokölluðu héraðabönn, þegar ástæður gera það mögulegt. Enn meiri hégómi finnst mér þó þetta eftir þær upplýsingar, sem komu fram hér við fyrri hl. þessarar umr., að ég ætla út af fyrirspurn frá hv. þm. Barð. Það var ekki beinlínis frá hv. ríkisstj., sem þær upplýsingar komu, sem þó hefði átt að vera, en frá lögfræðingi í allshn., sem sé um það, að þó þetta frv. yrði samþykkt, breytti það engu um rétt áfengisverzlunarinnar til þess að verzla með áfengi í heildsölu á svipaðan hátt og nú er. En ég skal játa það, að þótt þetta frv. hefði ekki verið annar eins hégómi og það er, hefði ég samt greitt atkv. á máti því.

Því er haldið fram, að þessar atkvgr., sem ráðgerðar eru samkvæmt 1. gr., séu til þess að fullnægja lýðræðinu. Ég verð algerlega að neita því, að í þessu sé nokkurt lýðræði fólgið. Ég skal taka dæmi. Á Seyðisfirði er áfengisútsala. Þar eru fáir íbúar, eitthvað um 900 manns. Í nærliggjandi sveitum, sem geta sótt verzlun til Seyðisfjarðar, bæði af Héraði og eins af fjörðunum — ég er nú ekki sérlega vel að mér í landafræði Austfjarða, en þó veit ég að ýmsar aðrar sveitir sækja þangað verzlun — og í þessum sveitum, sem eiga hægt með að sækja verzlun til Seyðisfjarðar, eru miklu fleiri íbúar en á Seyðisfirði, og ég get ekki annað séð en að þessa menn, sem annaðhvort verzla á Seyðisfirði að staðaldri eða geta verzlað þar, varði það eins miklu og Seyðfirðinga sjálfa, hvort áfengisútsala er þar eða ekki. Ég get þess vegna ekki séð, að þótt 2. gr. frv. verði látin niður falla, að nokkur meining verði í 1. gr. þess. Bannl. voru á sínum tíma sett eftir að þjóðaratkvgr. hafði farið fram um málið, og þau voru aftur afnumin, eftir að almenn þjóðaratkvgr. hafði farið fram um það. Ég lít svo á, að í þessu máli, sem tekur svo mikið til hvers einstaklings, eigi löggjafinn á hverjum tíma að byggjast á slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu, en ekki atkvæðagreiðslu á einstökum stöðum. Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta, því það liggur ekki hér fyrir.

Ég hefði nú haft gaman af að bera fram eina fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðh., ef hann væri viðstaddur, en hann er hér ekki og það er sjaldan, sem við hér í d. fáum þá æru að stj. sé viðstödd. Ég hafði hugsað mér að gera sömu fyrirspurn og hv. þm. Barð. (GJ) gerði, og aðra til viðbótar. Ég veit ekki, hvort n. hefur athugað það og hvort ég get fengið nokkurt svar um það, en það sem ég vildi gera fyrirspurn um er hvort það fyrirkomulag, sem nú er haft um úthlutun áfengis, hefur nokkra stoð í l. Ég þykist muna það — en ég hef ekki áfengisl. fyrir framan mig — að það sé heimilað lögreglustjóra að loka áfengisbúðum um stundarsakir, þegar sérstaklega standi á. Þá verður því ekki neitað, að sérstaklega stendur á í landinu, en bæði er það að lokun áfengisbúðanna er alls ekki um stundarsakir, heldur er hún búin að standa langan tíma, og svo hygg ég, að viðkomandi lögreglustjórar hafi ekki fyrirskipað þá lokun, heldur hefur stj. gert það, en ég verð að sleppa því að fara nánar út í þetta, þar sem dómsmrh. er ekki viðstaddur, en það verð ég að segja að lokum, að mér virðist það fyrirkomulag, sem nú er tekið upp í þessu máli og þetta frv. gerir enga breyt. á, eftir því sem upplýst er, ekki vera til mikillar fyrirmyndar og nær hefði þá verið að gera einhverjar ályktanir um það, svo að löglegt yrði, hvernig að skyldi fara, meðan þetta ástand helzt í landinu, heldur en að samþykkja slíkan hégóma, sem hér er á ferðinni.