24.02.1943
Efri deild: 62. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

4. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Mér virðist, að umr. um þetta frv. hafi farið fram með nokkuð einkennilegum hætti. Aðaláherzlan hefur verið lögð á það að rökræða, hvort menn væru með banni eða andvígir því. Það hefur verið lögð mikil áherzla á það að draga upp fyrir þm., að tilgangurinn væri sá að draga úr áfengisnautn með þessum héraðabönnum, en það verki alveg þveröfugt og hafi í för með sér hvers konar ófarnað. Á þetta er lögð mikil áherzla og sérstaklega af hv. 6. þm. Reykv. (BBen), en eins og frv. sjálft sýnir ljóslega, er það hrein fjarstæða að ræða um bann eða ekki bann, þegar taka á afstöðu til þess, hvort fylgja skuli frv. eða ekki. Frv. sjálft hefur ekkert með það að gera. Það er ekki bannmál. Þegar hv. 6. þm. Reykv. (BBen) leggur höfuðáherzluna á það, er hann að leiða málið inn á allt aðra braut en frv. gefur nokkurt tilefni til, og fæ ég ekki betur séð en að hans málflutningur miði að því að rugla þeim hugmyndum, sem menn ættu að gera sér um frv. eftir því, sem það liggur fyrir.

Mér þykir rétt út af þessum umr. bæði um bann o.fl. að rifja upp, hvernig þetta frv. en til komið og að hverju það miðar. Það mun hafa verið árið 1909 að bannl. voru samþykkt hér á landi. Þau gengu ekki í gildi fyrr en nokkrum árum síðar, en eftir gildistöku þeirra mun ekki hafa verið um neina áfengissölu að ræða í landinu. Árið 1922 gerði íslenzka ríkisstj. samning um fisksölu og áfengisflutning til Íslands. Þegar samningur þessi gekk í gildi, taldi stj. skylt að setja upp áfengissölur í landinu, og munu hafa verið settir upp 7 útsölustaðir í öllum kaupstöðum landsins. Þessir útsölustaðir voru settir upp án þess að íbúar kaupstaðanna væru spurðir um, hvort þeir vildu það. Árið 1939 er sú breyt. gerð á áfengisl., að stj. er bannað að setja upp áfengisútsölur á stöðum, þar sem þær eru ekki fyrir, nema meiri hl. íbúanna fallist á þá ráðstöfun. Þessi breyt. náði eingöngu til þeirra kaupstaða, sem ekki var áfengisútsala í. Mönnum þótti þá, þegar þessi l. voru sett, ekki gætt fullrar sanngirni, þegar einstökum kaupstöðum var gefinn réttur til að ákveða, hvort þeir vildu fá áfengisútsölur, en öðrum neitað um þann rétt. Þetta frv., sem hér er til umr., miðar eingöngu að því að gefa þessum 7 kaupstöðum sama rétt og aðrir fengu með lagabreyt. 1939 og fer eingöngu fram á það, að íbúarnir fái að skera úr um það, hvort þeir vilji áfengisútsölu eða ekki, að íbúar þessara kaupstaða verði eins settir og íbúar annarra kaupstaða landsins. Það er hreinasta blekking, þegar verið er að læða inn í þetta frv., að það hafi með bann að gera. Frv. er ekki bannmál, heldur algert lýðræðismál, og miðar eingöngu að því að gefa öllum borgurum landsins sama rétt, rétt, sem þeir hafa ekki haft til þessa. Frá sjónarmiði þeirra, sem hafa talað hér gegn frv., get ég skilið málflutning þeirra. Frá sjónarmiði þeirra er það óheppilegt að ganga beint til verks, það mundi áreiðanleg. spilla málstað þeirra. Þess vegna er sú leið valin að hrúga upp ummælum um bann og ekki bann til þess að reyna að rugla málið.

Hv. 1. þm. Eyf. ræddi nokkuð um aðferð þá, sem áfengisverzlunin hér í Rvík hefur haft við sölu áfengis nú um nokkurt skeið, og hv. þm. Barð. kom nokkuð inn á það, að frv., ef að l. yrði, útilokaði það ekki, að ríkið gæti selt áfengi í heildsölu á þeim stöðum, þar sem ekki er leyft að hafa áfengisverzlun. Ég vil í sambandi við þau ummæli endurtaka, að sá einn er tilgangur þessa frv. að gefa öllum íbúum landsins sama rétt. Tilgangur þess er sá einn, að íbúar þeirra kaupstaða, sem fengu áfengisverzlun 1922, skuli hafa sama rétt og aðrir, og þess vegna er það, að frv. fer ekki inn á fleiri atriði í áfengislöggjöfinni. Flm. hafa talið það réttara og heillavænlegra, til þess að þetta nái fram að ganga, að binda sig við þetta eitt út af fyrir sig. Áfengisverzlunin hefur nákvæmlega sömu aðstöðu, ef þetta verður samþykkt, til þess að selja áfengi í þessum 7 kaupstöðum, sem fengu áfengisverzlun 1922, ef áfengisverzlunin legði niður útsölurnar — nákvæmlega sömu aðstöðu til þess að selja þar eins og á öðrum stöðum, þar sem ekki er áfengisverzlun. Annars vil ég taka það fram, að eins og frv. liggur fyrir, og eins og áfengislöggjöfin er útbúin, vil ég draga í efa, að ríkisstj. hafi, ef þetta frv. verður samþ., heimild til að setja upp nokkra áfengissölu á stöðum, þar sem íbúarnir hafa samþykkt, að hún skuli ekki vera, hvorki sem heildsölu eða smásölu. Hins vegar eru ákvæði í l., sem þetta frv. hreyfir ekki við, um það, að stj. geti veitt einum veitingastað á hverjum stað leyfi til áfengissölu. Þetta ákvæði stendur óbreytt, og skal ég játa, að nauðsynlegt er að gera breyt. á því, en út í það hefur ekki verið farið, eingöngu vegna þess, að það, sem fyrir flm. vakir, er að allir borgarar landsins hafi sama rétt. Hér er eingöngu um lýðræðismál að ræða, lýðræðismál og ekkert annað.