27.01.1943
Efri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Þessu frv. var vísað til hv. allshn., og hefur hún nú lokið athugun sinni á málinu og skilað áliti. N. sendi frv. til umsagnar til Sambands íslenzkra samvinnufélaga annars vegar og hins vegar til Verzlunarráðs Íslands, og létu báðir þessir aðilar álit sitt uppi, þannig að S.Í.S. lagði eindregið til, að frv. yrði fellt, og færði á móti því ýmis rök, en Verzlunarráð Íslands mælti með frv. í meginstefnu, en tók ekki afstöðu til einstakra atriða málsins.

Allshn. velti þessu frv. allmikið fyrir sér. Og niðurstaðan varð sú, að a.m.k. fjórir af fimm nm. ákváðu að mæla með frv. með þeim breyt. sem skráðar eru till. um í nál. á þskj. 259. Frv. fer í þá átt að reyna að greiða fyrir því, að íslenzkir framleiðendur — sérstaklega mundi það þá eiga við smærri framleiðendur — fái sem fyrst greiðslu fyrir vörur sínar. Það má auðvitað segja, að það sé kannske hæpið, hverju hægt er að áorka um það efni með löggjöf slíkri sem þessari, og að annaðhvort þurfi beinar breyt. á fjárhagskerfinu, útvegun lánsfjár til þeirra kaupenda eða umboðsmanna, sem hér er um að ræða — annaðhvort þurfi beinar slíkar breyt., eða a.m.k. mundu slíkar breyt. frekar greiða fyrir því, að þessi mikla lánsverzlun yrði afnumin, sem átt hefur sér stað, sem er að ýmsu leyti óheppileg. Slíkar breyt., að breyta þannig fjárhagskerfinu, að nota lánsfé, mundu heldur greiða fyrir því en þó að lagaákvæði séu sett slík sem þessi, þar sem einungis eru teknar fram ákveðnar reglur án þess að það sé í raun og veru ábyrgzt eða tryggt, að eftir þeim sé farið, en það er nú ekki gert í þessu frv. og ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að þannig er litið á, að í greiðslum á þessum íslenzku vörum til smáframleiðendanna hafi verið um að ræða óhæfilegan drátt, miklu meiri en efni hafi staðið til og þurfi að vera, samkv. eðli þeirra viðskipta og atvikum öllum. Og frv. er, sem sagt, flutt til þess að reyna að setja l. til þess að koma í veg fyrir þá vanhirðu, sem í þessum efnum hefur verið, þann algerlega óþarfa greiðsludrátt, sem talið er, að ýmsir af þessum smáframleiðendum hafi þurft viðað búa. Annars er frv. að verulegu leyti sniðið eftir l. um greiðslu verkkaups til verkamanna og ákvæðin um bann við skuldajöfnuði, nema sérstaklega sé um samið fyrirfram, og er ekki kunnugt um annað en að sú löggjöf hafi gefizt ákaflega vel. Er því ekki nema eðlilegt, að eftir henni sé farið um greiðslumáta til þeirra aðila, sem frv. þetta tekur til, og sem má, a.m.k. mörgum, jafna til verkamanna, þannig að aðstaða þeirra og verkamanna er svipuð. Meiri hl. n. telur því, að frv. stefni í rétta átt. Það sé að vísu óvíst, hvílíkri gerbyltingu það komi á, en það stefni sem sagt í rétta átt og með því sé ekki færzt meira í fang heldur en hægt sé að standa við, og samkv. því sé hægt að koma í veg fyrir þann óþarfa drátt, sem talið er, að hafi átt sér stað um greiðslur til þessara smáframleiðenda. Vill meiri hl. n. því eindregið mæla með frv.

Brtt. þær, sem gerðar hafa verið af allshn., fara í þá átt ýmist að gera ákvæði frv. skýrari eða einfaldari. Brtt. við 1. gr. gengur í þá átt að færa hana til samræmis við það, sem ákveðið er í l. um greiðslu verkkaups um bann við skuldajöfnuði, þannig að orðalagið verði hið sama á báðum stöðum, sem sýnist eðlilegt.

Brtt. við 2. gr. er orðabreyt., en hefur enga efnisbreyt. í sér fólgna.

Brtt. við 3. gr. fer í þá átt að gera fyrirmæli einfaldari, en jafnframt, að ætlazt er til þess, að ríkisstj. setji með reglugerð fyrirmæli um það, hvernig gangverð afurða, sem 2. gr. frv. ræðir um, skuli ákveðið. Í frv., eins og það liggur fyrir, eru taldar upp ýmsar stofnanir, sem eigi að kveða á um þetta, og settar reglur um það, hvernig eigi að ná niðurstöðum með atkvgr. eða jöfnuði á till. þeirra. Þetta fyrirkomulag frv. er ekki að öllu leyti heppilegt, vegna þess að sumar þeirra stofnana, sem þarna eru taldar, eru einkastofnanir. Aðrar stofnanir, sem þar eru taldar, eiga aðeins, að ætla má, að starfa til bráðabirgða, en ekki frambúðar, og þess vegna sýnist hæpið að telja þær upp í slíkum ákvæðum. N. taldi það því eðlilegra, að hagstofunni yrði fengið endanlegt úrskurðar vald um það, hvað telja skuli gangverð, en að ríkisstj. setji svo nánari fyrirmæli um það í reglugerð.

4. gr. frv. verður óþörf samkv. þeirri breyt., sem n. leggur til, að gerð verði á 2. gr., og leggur n. til, að sú gr. (4. gr.) falli niður.

Sömuleiðis leggur n. til, að 5. gr. falli niður. 5. gr. frv. er sniðin eftir ákvæðum l. um greiðslu verkkaups, en þess er ekki gætt, að nú er búið að fella niður fyrirmæli um einkalögreglumál, sem þarna eru ráðgerð, svo að það ákvæði á þarna ekki við. Þar, sem talað er um varnarþingsákvæði, þá má segja, að það sé hæpið, að þörf sé á slíku ákvæði í þessu sambandi. En ef talin er þörf á slíku ákvæði, ætti það eftir skipun löggjafarinnar heima í einkamálal., en ekki í slíkum l., sem þessum. Leggur n. því til, að 5. gr. frv. falli niður, og greinatala frv. breytist samkv. því, að þessar 4. og 5. gr. frv. falli niður.

N. ætlast til, að 6. gr. frv. standi óbreytt.

Svo leggur n. til, að l. þessi gangi ekki í gildi fyrr en 1. janúar 1944, sem er í samræmi við það, sem lagt er til að hálfu Verzlunarráðs Íslands, sem lagði með frv. að efni til, en taldi nauðsynlegt, að nokkur frestur yrði á um gildistöku þessara l., ef frv. verður samþ.

Vonast ég til þess, að hv. þd. fallist á brtt. allshn. og samþ. frv. síðan að þeim samþykktum.