04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Áki Jakobsson:

Ég vildi gjarnan segja nokkur orð um þetta frv., þar sem ég á sæti í allshn., sem fjallaði um málið.

Að víssu leyti er frv. þetta ekki stórvægilegt, þó að það sé til bóta. Aðaltilgangur þess er að skylda þá, sem taka afurðir framleiðenda til sjávar og sveita til kaups, að borga þessar afurðir strax og seljandi óskar, en ekki að geyma greiðslu á þeim svo og svo lengi framleiðendum í óhag.

Eins og háttað er nú greiðslu þeirra afurða. sem smáútgerðarmenn og bændur framleiða, þá er það ástand ekki viðunandi, vægast sagt. Með því fyrirkomulagi, sem nú er á þessu, eru þessar tvær stéttir allt of háðar verzlunarfyrirtækjunum, eins og t.d. á sér stað við Eyjafjörð. Þar hafa verzlunarfyrirtækin afurðaverð þessara framleiðenda meira og minna sem rekstrarfé, og þar er féð bundið inni um lengri eða skemmri tíma, sem framleiðendurnir nauðsynlega þurfa þó að fá, til þess að þeir geti haldið betur á framleiðslu sinni og haft betra rekstraryfirlit yfir starfsemi sína.

Um ákvæði frv., sem lýtur að Hagstofu Íslands, Ég hef ég alltaf skilið það ákvæði svo, að hagstofan leitaði sér upplýsinga hjá útflytjendasamböndum, Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, stórkaupmönnum og fiskkaupmönnum, áður en hún gæfi út ákvarðanir sínar varðandi afurðaverðið. Og mér kemur ekki til hugar annað en að hagstofan fari varlega í sakirnar, hvað snertir sölu afurða í umboðssölu, þegar óvissa ríkir um, það hvernig þær muni seljast. Það er augljóst, að ekki er hægt í sumum tilfellum að greiða út fyllsta verð, sem hægt er að fá, og láta þannig alla áhættuna falla á kaupfélög eða kaupmenn.

Tilgangurinn með því að láta Hagstofu Íslands hafa þetta í hendi sinni er sá, að hún ákvæði verðið, sem stundum getur orðið mjög vægt, eftir að hún hefur aflað sér þeirra beztu gagna um það, sem hægt er að fá í hverju tilfelli, og við það verði svo kaupmenn og kaupfélög að sætta sig og borga til smáútgerðarmanna og bænda, um leið og afhending afurðanna fer fram, eða þegar seljandi óskar.

Með brtt. hv. 1. þm. Árn. finnst mér, að sé veriðað afnema frv., og væri þá miklu réttara að fella það heldur en að samþ. svo mótsetningafullt. 1. gr. frv. er sem sagt gersamlega strikuð út, ef brtt. er samþ. Það yrði blátt áfram hlægilegt fyrir hv. Alþ. og því ósamboðið með öllu að láta annað eins frá sér fara og frv. þetta með brtt. hv. 1. þm. Árn. Auk þess er í brtt. mótsögn, þar sem í 1. gr. frv. er sagt: „nema að svo hafi áður sérstaklega verið um samið.“

Um það, að kaupfélög og kaupmenn muni halda að sér höndunum og ekki taka afurðirnar til sölu, ef frv. þetta verður að l., það get ég ekki ályktað, eins og málið liggur fyrir. Það stendur alveg sérstaklega á með ullina, og er ekki hægt að taka hana sem dæmi í þessu tilfelli, þar sem stríðsorsakir hafa ráðið því, hvernig söluerfiðleikum hennar er háttað. Þetta er alveg einstætt mál, og ég býst við, að Hagstofa Íslands hefði ekki farið að gera neitt, sem bæði bændur og kaupfélög og kaupmenn hefðu ekki getað fallizt á vegna þessa óvenjulega ástands með sölu ullarinnar.

En aðalatriðið er, að frv. er til bóta og þá fyrst og fremst 1. gr. Með frv., ef að l. verður, er bæði smáútgerðarmönnum og bændum gert hægara með að stunda atvinnurekstur sinn og efla hann. Enn fremur fá þeir með þessu betra tækifæri til þess að hafa heildaryfirlit yfir atvinnureksturinn og afkomu hans. Þess vegna er ég á móti brtt., en vil leggja til, að frv. verði samþ. eins og það nú er orðið.