04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Jón Pálmason:

Ég lít svo á, að ef löggjöf á að setja á annað borð um þetta atriði í viðskiptalífi þjóðarinnar, þá sé það frv., sem hér liggur fyrir, svo vægt, að óþarft sé að fleyga það og draga úr því með brtt. þeirri, sem flutt hefur verið við frv.

Hv. 1. þm. Árn. var að segja, að sjálfsagt væri að leyfa félagsmönnunum sjálfum að ákveða, hvernig greiðslu afurða skyldi hagað. Það er nú svo og svo með það. Eru það ekki fulltrúar félagsins, sem þar ráða, hvaða tilhögun sem einstakir bændur kynnu að óska sér á þessu? Mér er og kunnugt um það, að við fjöldann allan af' kaupfélögum úti um land allt verzla utanfélagsmenn meira og minna, koma bæði með innlegg og taka út vörur. — Ekki mundu þeir mikið hafa að segja um úrskurð þann, sem kaupfélagið mundi gera í þessu efni. — Það mundu ekki verðu þeir, sem réðu, hvað ofan á yrði, og mundu líka varla vera taldir hafa rétt til þess.

Þá var hv. þm. V.-Húnv. að segja, að komið gæti fyrir, að verzlunarfyrirtæki og félög mundu ekki taka á móti afurðunum til kaups og sölu. Ég tel varla ástæðu til þess að taka þessa aths. alvarlega, því að naumast er hægt að ætla, að bændur færu sjálfir að leggja á móti því, að kaupfélög tækju við þeim afurðum, sem framleiddar yrðu á félagssvæðinu. Við þekkjum og það, að oftast er kapp um það hjá verzlunum að ná í þessar afurðavörur, svo að við getum látið þessa aths. hv. þm. V.-Húnv. alveg hjá líða í þessu tilfelli.

En þar sem hv. þm. V.-Húnv. minntist á það fyrirtæki, er hann veitir forstöðu, þá er mér ánægja að segja frá því af nokkrum kunnugleika, að því fyrirtæki er stjórnað af miklum myndugleika, og það er alveg rétt hjá honum og vert að ljá því athygli í þessu sambandi, að hjá honum hefur verið tekin upp fyrir nokkru hrein peningaverzlun, og er það til fyrirmyndar. Enda er það alveg víst, að það verzlunarfyrirkomulag, hefur þar gefizt vel og verzlunin þar verið mjög hagstæð.

Ég kalla það vöruskiptaverzlun, þegar lagðar eru afurðir inn í verzlun og teknar út á þær vörur aðrar vörur allt árið um kring og reikningur ekki gerður upp fyrr en í árslok. Ég kalla það vöruskiptaverzlun, sem er óhagkvæm, og að réttara sé að hafa þá aðferð, sem höfð er við hans kaupfélag.

Þá sagði hv. þm., að munur væri á vöruskiptaverzlun og lánsverzlun. Það var óþarft fyrir hann að vera að fræða okkur á því, vegna þess að allir vita, að það er tvennt ólíkt. Lánsverzlun er enn, því miður, töluverð, en hún virðist óðum vera að hverfa. En þessar tvær tegundir verzlunar þurfa báðar algerlega að þoka fyrir þeirri einu og réttu aðferð í viðskiptunum að hafa hreina peningaverzlun. Þess vegna vil ég ekki leggja til, að brtt. verði samþ., en að frv. verði samþ. eins og það nú er.