30.11.1942
Neðri deild: 7. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Finnur Jónsson:

Ég vil lýsa ánægju minni yfir þessu frv., en sú mesta efling, sem útvegsmenn gætu fengið, eru hagkvæm lánskjör. Nú er svo komið, að allir flokkar munu styðja eflingu sjóðsins, og mun máli þessu því vel borgir. Byggingarkostnaður skipa er nú orðinn mjög hár, og ekki líklegt, að sú útgerð beri sig, sem endurnýjar skip sín á þessum tímum. Það væri því mjög æskilegt, að þeir, sem geta byggt, gætu fengið til þess styrk og lán með góðum vaxtakjörum.

Í sambandi við fiskimálanefnd var á sínum tíma tekinn upp sá siður að efla skipabyggingar, og hefur það komið að talsverðu gagni. Enda sýndist það ekki óeðlilegt, að sjávarútvegurinn nyti endurbyggingarstyrkja, eins og t.d. landbúnaðurinn jarðræktarstyrks, og komið yrði um leið í veg fyrir, að skip, sem styrkjanna nytu, yrðu spákaupmennskunni að bráð, þannig að verzlað yrði með hinn veitta styrk og tryggt yrði, að ekki væri hægt að braska með styrkinn. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta. Ég fagna því, að þetta frv. er komið fram, og óska þess, að það geti fengið þá afgreiðlsu á þessu þingi, sem að mestu gagni mætti verða.