30.11.1942
Neðri deild: 7. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, vil ég taka það fram, að ég er honum að sjálfsögðu þakklátur fyrir að taka frv. vinsamlega, en hann komst þannig að orði, að tillögur um eflingu fiskveiðasjóðs hefðu komið frá öllum flokkum nema Sjálfstfl., og vill hann gefa í skyn, að með flutningi þessa frv. eigi ég á hættu að verða fyrir óvild ýmissa sjálfstæðismanna. Ég veit ekki, hvenær hann hefur rekið sig á þennan háska. Það er alkunnugt, að sjálfstæðismenn hafa á flestum undanfarandi þingum flutt frv. um eflingu fiskveiðasjóðs, auk þess sem nokkrir þeirra hafa flutt það mál utan þings. Nú er það svo, að sá stuðningur er mest verður, sem kemur fram í verki, en ekki sá, sem kemur fram einungis í blaðagreinum og á fundum og er aðeins borinn fram í þeim tilgangi að veiða kjósendur. Allar slíkar till. eru einskis virði, ef þær koma ekki fram á réttum vettvangi, þannig að þeim verði fullnægt. Það er rétt hjá hv. þm., að þetta frv. er ekki borið fram af Sjálfstfl., en þetta er baráttumál Sjálfstfl., þótt það sé ekki flutt af honum, og af hans hálfu var ekkert haft á móti því, að einstakur maður flytti það.

Ég er hv. þm. Ísaf. þakklátur fyrir það, að hann vildi sýna skilning á þörfinni á eflingu fiskveiðasjóðs, en mér finnst það óþarfi fyrir hann að stofna til þessara orðaskipta hér. Ég hef átt samstarf við hann hér í þinginu um eflingu fiskveiðasjóðs, og frá honum fannst mér vera meiri stuðning að mæta en annars staðar að utan Sjálfstfl. En ef á að vera með brýningar hér, kemur ekki til mála, að ég láti hjá líða að gefa þá áminningu, sem mér þykir við þurfa.

Orðum hv. þm. V.-Húnv. þarf ég engu að svara. Skilyrðið til þess, að vextir af útlánum fiskveiðasjóðs geti verið lágir, er, að sjóðurinn starfi fyrir eigið fé. Ég tel heldur enga þörf á að hafa þessa lántökuheimild, fyrr en sjóðurinn veitir önnur stofnlán en til bátaútvegsins. Ef það kemur fram, að stærstu fiskiskip óska lána úr sjóðnum, mætti hins vegar veita honum heimild til lántöku. Mér virtist sá misskilningur koma fram hjá hv. þm. V.-Húnv. um tekjur sjóðsins, að með því að fella niður lántökuheimildina væri stefnt að því að láta ríkissjóð leggja sjóðnum til féð. Ég veit ekki til þess, að ríkissjóður hafi veitt fiskveiðasjóði annað fé en eina millj. kr., sem ríkisstj. sveikst lengi um að greiða, og það var fyrst núv. fjmrh., sem sá um, að ríkissjóður stæði við skuldbindingar sínar og greiddi féð eftir löng vanskil.

Ein nýbreytni er í frv., sem ég gleymdi að geta um í framsöguræðu, en útgerðarmönnum mun þykja mikilsverð. Hún er sú, að lánin og styrkirnir skuli borguð út í þrennu lagi, eins og tíðkast í lánsstofnunum, sem veita lán til nýbyggingar í þágu landbúnaðarins. Fiskveiðasjóður hefur hins vegar ekki greitt út lánin fyrr en lokið hefur verið smiði skipsins og búið að virða það og vátryggja. Þessi breyting er gerð vegna þess, að oft hefur reynzt erfitt að fá bráðabirgðalán til nauðsynlegra útgjalda, meðan á smíði stendur. Eftir þessa breytingu ætti hins vegar ekki að þurfa neina bráðabirgðalántöku, því að gert er ráð fyrir því, að greiða skuli 1/3 hluta fjárins, þegar kjölur er lagður og meginhluti efnis kominn á staðinn, 1/3 þegar skipið er byrt, þiljur lagðar og vélin komin á staðinn, og loks 1/3, þegar skipið er fullsmíðað og lokið að virða það og vátryggja. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður taki veð í efni skipsins, eftir því sem hann lætur féð af hendi.