15.01.1943
Neðri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. — Það var sérstaklega út af aths. hv. 2. þm. S.-M., sem ég kvaddi mér hljóðs. En hann taldi, að það væri mjög fjarri allri skynsemi að atla stjórn fiskveiðasjóðs að úthluta, svo sem nú er gert, styrkjum til nýbyggingar fiskibáta samkvæmt 6. gr. þessa frv., og færði hann þau rök fyrir því, sem náttúrlega eru að mörgu leyti rétt, að fiskveiðasjóði er stjórnað af stjórn Útvegsbankans. Og það er vitanlega mjög erfitt fyrir stjórn þeirrar stofnunar að loka alveg augunum fyrir hag bankans, hvað svo sem þeir gera, þvíað hagur bankans er þeim auðvitað ríkt í huga. En hv. þm. sagði þó, og ég er honum sammála um það, að það er engin ástæða til að væna þessa menn um það, að þeir mundu misnota vísvitandi aðstöðu sína í þessu efni. Það getur verið, að þeir yrðu blekktir, af því að þeir eru að sjálfsögðu ekki óvilhallir fremur en aðrir. En þessi ágreiningur um það, hver eða hverjir eigi að úthluta styrkjunum, er í raun og veru aðeins um það, hvort fiskveiðasjóður eigi að vera undir stjórn bankastjórnar Útvegsbankans. En það er ekki hægt að miða allt í meðferð þessa máls og þetta fyrirkomulag við það, sem kannske er og sennilega er til bráðabirgða, að stjórn Útvegsbankans stjórni fiskveiðasjóði. Það er alls ekki nýtt, að fiskveiðasjóður sé skoðaður sem eins konar aðstoð við Útvegsbankann. Þegar samþ. var hér fyrir eitthvað 12 árum á Alþingi, að fiskveiðasjóður skyldi taka 1 millj. kr. lán, þá var það hugsað a.m.k. óbeint, ef ekki beinlínis, sem stuðningur við Útvegsbankann, að hann yrði þar með leystur frá að sinna stofnlánaþörf, sem hann var ekki heppilegur til og hafði ekki fjárráð til að gera að neinu leyti. Og fyrst framan af notaði Útvegsbankinn sér þetta mjög, þannig að hann hafði þessa 1 millj. kr. í eigin notkun í útlánum fyrir 7–8% vexti og galt af því fé bara venjulega vexti, sem greiddir voru á þeim tíma af innlánsfé, auk þess sem bankinn losaði sig þá við ýmis skip, sem hann hafði stofnlán í, og yfirfærði þau á fiskveiðasjóð, sem mátti segja að ekki væri óeðlilegt, en var bankanum til hagsbóta. Þannig hefur það verið í 12 ár, að fiskveiðasjóður hefur, með vitund og vilja Alþingis, verið að verulegu leyti notaður til hagsbóta Útvegsbankanum. En það var a.m.k. ætlað, að þetta væri án tjóns fyrir fiskveiðasjóðinn sjálfan.

Nú er ég sammála hv. 2. þm. S.-M. um það, að langeðlilegast er, að fiskveiðasjóður hafi sérstaka stjórn, og um þetta var rætt í n., — og um þetta hefur oft verið rætt. Um það hafa komið fram till. í álitsskjölum, sem ég vitnaði í og hv. þm. Ísaf. Sérstaklega minnir mig, að það sé í álitsgerð Fiskifélagsins, eða það hefur komið fram frá formanni Fisksölusambandsins, — ég man það ekki vel nú, hvort heldur var —, að nauðsynlegt sé, að fiskveiðasjóður fái sérstaka stjórn. Þetta um úthlutun styrkjanna er vitanlega alls ekki einskorðað miðað við það núverandi sérstaka ástand, að bankastjórar Útvegsbankans eru jafnframt í stjórn fiskveiðasjóðs, heldur er það miðað við það, að til þess eru sterkar líkur, ef ekki full vissa fyrir því, að stjórn fiskveiðasjóðs muni þannig afla sér langmestra upplýsinga um lántakendur eða um þ á, sem byggja skipin, og mundi þess vegna hafa mesta kunnugleika á þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir styrkjunum. Og þetta en ekkert annað vakti fyrir hv. flm?. frv. Og þetta hygg ég, að mér sé óhætt að segja, að hafi vakað fyrir meiri hl. sjútvn., þegar hún lét þetta atriði standa óbreytt. En ég get alls ekki fallizt á það með hv. 2. þm. S.–M., að það sé óhæft, að stofnun, sem fæst við útlán, hafi einnig með höndum úthlutun þessara styrkja. Ef það er t.d. lánastofnun, sem lánar nákvæmlega til sömu skipa og styrkina fá, þá er þetta ekki óeðlilegt, Og svona er þetta um sum lán til landbúnaðarins, eins og t.d. til nýbýla, að þetta er í raun og veru afgert af sömu mönnum með styrkina og lánveitingarnar. Og það er a.m.k. sjálfsagt, að það sé samstarf og kunnugleikar á milli þeirra, sem lána og veita styrkina í þessum tilfellum, og þarf engin hlutdrægni þar að að koma. Það má líka segja um fiskimálan., sem ég ætla ekki, að sett væri út á, sem úthlutaði styrkjum áður, að þessi n. réð einnig fyrir lánsfé, og ég tel engar líkur til, að það hafi komið í bága við annað.

Nú er það svo, að fiskveiðasjóður hefur í fyrsta lagi framkvæmdastjórn, sem að sjálfsögðu ræður mestu um þetta, og safnar öllum gögnum um það. Og í öðru lagi eru í frv. markaðar línur um þessar styrkveitingar og þar að auki ákveðið, að ríkisstj. skuli gefa út reglugerð, þar sem reglur fyrir styrkveitingum eru nánar tilgreindar. Og ég geri þess vegna fastlega ráð fyrir, að sá, sem úthlutar styrkjunum að formi til, verði bundina ákaflega glöggum takmörkunum um skömmtun styrkjanna, svo að þetta eigi ekki að koma að neinu tjóni. En því fer fjarri, að það sé kappsmál frá minni hendi né heldur, að ég hygg, meðnefndarmanna minna, hver úthlutar styrkjunum. Við vildum bara, að ráðstafanir væru gerðar til þess, að sá, sem þetta gerir, hafi aðstæður til þess að þekkja alveg ástæður styrkþeganna, svo að skortur á kunnugleika í þeim efnum geti ekki orðið til neinna misfellna í þeim greinum.

Það hafa orðið nokkrar deilur út af þessu máli. En þó að ég sé flm. frv., hef ég ekki viljað fara út í þá sálma. Mér þykir mjög gott, að nú er orðið mjög gott samkomulag allra um það, að sjávarútvegurinn eigi að fá allt útflutningsgjaldið af sjávarafurðum, sem ríkissjóður hefur innheimt, sem fé til byggingar skipanna. Um það hefur verið mjög mikill ágreiningur á mörgum undanförnum þingum, og það svo mikill, að nálega hefur ekki verið við það komandi, að fiskveiðasjóður fengi neitt af því. Lengst komst það 1941, að hann fengi 1/4 hluta af því. En nú er enginn ágreiningur um þetta, og þar sem ég er fyrir það mjög þakklátur, tel ég því síður ástæðu fyrir mig að vekja eða taka undir það, sem getur orðið til ósætta í þessu máli. Ég vil heldur láta það kyrrt liggja, þó að ég hafi ýmislegt við ræðu hv. þm. N.-Þ. að athuga. Ég bara vænti þess, að það sé orðinn svo almennur vilji fyrir því hér í hv. d. að samþykkja þessar umbætur á l. fiskveiðasjóðs, sem hér liggja fyrir, að það sé engin hætta á öðru en að frv. nái fram að ganga, og það er höfuðatriðið.