19.01.1943
Neðri deild: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er aðeins stutt skýring á þessum brtt. mínum. Það kom hér fram við 2. umr. málsins, að ýmsir voru óánægðir með þá ráðstöfun, að þeim styrkjum, sem gert er ráð fyrir, að úthlutað verði til sjómanna og útgerðarmanna, sem standa í smíði báta, sé úthlutað af bankastjórn stofnunar, sem annast margvísleg viðskipti við þessa menn. Ég hafði minnzt á það í sjútvn., að ég væri ekki hrifinn af þessu og vildi gjarnan breyta því. Ég gerði það þó ekki að ágreiningsefni í n., en áskildi mér rétt til þess að bera fram brtt. Og þar sem ég heyrði við umr. málsins, að ýmsir voru á þessari skoðun, styrkti það mig í að bera þessa brtt. fram.

Samkv. minni till. er gert ráð fyrir, að í staðinn fyrir, að stj. sjóðsins sé skipuð stjórn hlutaðeigandi lánsstofnunar, sé hún skipuð 3 mönnum tilnefndum af Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Fiskifélagi Íslands. Ástæður fyrir því, að ég hef tiltekið þessar þrjár stofnanir, eru aðallega þessar: Ég tilnefni Alþýðusambandið vegna þess, að það er fulltrúi sjómanna í landinu, en einmitt sjómenn munu samkv. þessum lögum koma til með að fá styrk úr þessum sjóði, og Farmanna- og fiskimannasambandið, sem er félagsskapur yfirmanna, skipstjóra og stýrimanna, sem koma til með að njóta þessara styrkja, og í þriðja lagi Fiskifélagið, sem er skipað útgerðarmönnum, sem hér eiga einnig hlut að máli, svo að það er ekkert óeðlilegt, að þessar 3 stofnanir velji menn til þess að gera till. um þetta. Ég skal þó játa, að fleiri stofnanir koma til greina.

Hin till. er bara orðalagsbreyt. Það stendur nú í frv., að við úthlutun skuli taka tillit til þess, hvort umsækjandi hafi áður stundað sjómennsku eða útgerð sem aðalstarf, en það var áreiðanlega meining n. og er réttara, að það sé orðað: „stundar“. Ég hygg, að um þetta geti ekki orðið ágreiningur, en um hina till. geti frekar verið skiptar skoðanir, en ég geri þetta að till. minni.