05.02.1943
Efri deild: 48. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Sjútvn. hefur haft málið til meðferðar og ekki einasta kynnt sér umsagnir þeirra aðila, sem frv. var sérstaklega sent til umsagnar, Fiskifélags Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Fiskveiðasjóðs Íslands, heldur einnig átt samtöl við flm. þess og þá menn ýmsa, er að frv. standa í Nd., og það einkum vegna þess, að raunverulega óskaði meir í hl. n. eftir, að hægt yrði að ná samkomulagi um nokkrar breyt. á frv. Samkomulag náðist ekki við fylgismenn frv. í Nd., — ef við breyttum, yrði því áreiðanlega breytt aftur í Nd., sögðu þeir. Þarna var um þá ákvörðun að ræða, hvort þær 2 millj., er um getur í 6. gr. a., skuli lagðar í sérstakan sjóð, er renni sem óendurkræfur byggingarstyrkur til báta, svo sem frv. ákveður, eða sjóðnum skyldi varið til að lána heldur út á 2. og 3. veðrétt bátanna eða skipanna. Persónulega verð ég að lýsa yfir því, að ég hefði miklu heldur kosið hið síðara, þótt ég fylgi málinu úr deildinni án þess. Ég teldi það miklu meiri hjálp fyrir útveginn að sjá honum þannig fyrir lánsfé til frambúðar heldur en styrk í eitt skipti, sem fer í eyðslueyri. En ég vil ekki stofna frv. í hættu vegna mismunandi skoðana um þetta.

Það kom til mála í n., að fella þyrfti úr 3. gr., sem bannar að lána nema gegn 1. veðrétti. En n. sér ekki ástæðu til þess, úr því að ekki fékkst breyt. á 6. gr., enda má sjóðurinn ekki lána út á meira en 50% eða 60% af bátsverðinu, svo að ástæðulaust er að binda þar nema 1. veðrétt, ef annars staðar væri hægt að nota 2. og 3. veðrétt til lántöku.

Þá var mikið um það rætt, hvort rétt mundi að breyta 5. gr., sem ákveður, að í stað 41/2 % vaxta komi 3%, eins og samþ. var í Nd. Séu 3% vextirnir lögbundnir, hlýtur það að framkalla endurskoðun á vaxtagreiðslum annarra manna í landinu, sem greiða hærra, t.d. bænda.

Niðurstaða sjútvn. við athugun þessa máls hefur orðið sú, að öll n. hefur orðið sammála um þá breyt., að í stað þess, sem segir í 6. gr., að úthlutun styrkjanna sé falin þriggja manna n. eftir tilnefningu Fiskifélags Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands, komi, að úthlutunin sé falin stj. Fiskveiðasjóðs Íslands.

Þetta er sú eina breyt., er sjútvn. hefur orðið sammála um að gera á frv., og ég get sagt fyrir mig, að samþykkt þessarar brtt. er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir því, að ég geti greitt frv. atkv. Ef breyt. þessi yrði felld, þá fylgi ég frv. ekki úr deildinni.

Það væri hrein fjarstæða að ætla, að 6. gr. frv., eins og hún er nú eftir 3. umr. í Nd., verði til annars en skapa togstreitu um þær tvær millj. kr., sem úthluta á úr sjóðnum. Það er ekki heldur von til þess, að Alþýðusambandið, sem er landssamband vélstjóra, iðnaðarmanna og annarra stétta, hafi aðstöðu til að meta réttilega styrkjaumsóknir og annað varðandi úthlutun styrkjanna. Og um Farmanna- og fiskimannasamband Íslands er það að segja, að þar er mest miðað við farmennsku, en ekki fiskveiðar. því ættu þeir ekki að hafa nein áhrif á úthlutun þess fjár, er fara á til eflingar fiskveiðanna. Það mun sjálfsagt nóg verða karpað um þá úthlutun, þó að ekki sé verið að blanda þar inn í óskyldum aðilum.

Ég vil svo óska, að hv. d. hraði afgreiðslu þessa frv., því að ef breyt. þessi verður samþ., þarf frv. aftur að fara til hv. Nd. Ég vil og leyfa mér að benda á, að allt bendir til þess, að l. um þetta efni komi aftur undir nákvæma rannsókn, og að þeim verði þá breytt á ýmsan hátt, svo að allir aðilar geti fellt sig við þau. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið til athugunar undanfarin þing, og væri það æskilegt, að það fengi nú fram að ganga. En mál þetta hefur undanfarið verið ýmsum breyt. háð og ekki fengið að festast þannig, að hægt væri algerlega að ganga úr skugga um hvaða dóm reynslan leggur á það. En hér er vissulega um þýðingarmikið og brýnt mál að ræða, þar sem er aðalstoð smábátaútvegsins í landinu.