18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

Rannsókn kjörbréfa

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. í framhaldi af því, sem ég sagði við umræðurnar í gær út af þeim sakargiftum, sem fram eru bornar í bréfi því, sem hv. þm. V-Húnv. las hér upp, vildi ég tilkynna hv. Alþingi, að ég hef ritað dómsmálaráðherra svo hljóðandi bréf, dags. 17. nóv. 1942.

„Reykjavík, 17. nóv. 1942.

Á fundi sameinaðs Alþingis í dag las Skúli Guðmundsson alþm. upp yfirlýsingu, sem er undirrituð af Kristjáni Jenssyni, sem mun telja sig til heimilis í Ólafsvík.

Í yfirlýsingu þessari eru, auk brigzlyrða í garð annarra manna, þær sakir bornar á mig, að ég hafi mútað tilteknum manni til þess að greiða mér atkvæði við alþingiskosningar. Áburður þessi er uppspuni frá rótum, og tel ég hann svo freklega meiðandi fyrir mannorð mitt, að ekki megi kyrrt liggja.

Bréf Kristjáns er refsivert samkv. XXV. kafla alm. hegningarlaga, um ærumeiðingar, sbr. 235., 236., 242. gr. 2b. og varðar auk þess við XV. kafla þeirra um rangan framburð og rangar sakargiftir, sbr. einkum 147. gr.

Þar sem tilræði þetta, auk þess að vera árás á mannorð mitt, á flokk þann, er ég fylgi, og á kjósendur Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, er til þess ætlað að blekkja Alþingi Íslendinga og fá það til að ógilda kosningu mína sem alþingismanns Snæfellinga og þar með svipta Snæfellinga þingfulltrúa um ófyrirsjáanlegan tíma, þá sé ég mér ekki annað fært en að kæra til yðar, hæstvirti dómsmálaráðherra, og krefjast þess, að þér látið þegar í stað hefja sakamálsrannsókn út af bréfi þessu og að henni lokinni draga höfundinn til ábyrgðar lögum samkvæmt.

Virðingarfyllst,

Gunnar Thoroddsen.

Til dómsmálaráðherra.“

Ég skal ekki fara mörgum fleiri orðum um þetta. Eins og ég tók fram í ræðu minni í gær, er ég eindregið fylgjandi till. minni hl. kjördeildar, sem hv. 3. landsk. (HG) hefur lýst, að þessu bréfi verði vísað til kjörbréfan. til rannsóknar. En ég tel ekki, að við það eitt megi sitja, heldur tel ég að þetta bréf sé með þeim hætti til orðið, og þær sakargiftir, sem bornar eru fram, svo ósannar og þungar, að ekki verði hjá því komizt að krefjast þess af hæstv. dómsmrh., að hann láti málsrannsókn fara fram á hendur þessum manni.

Ekki skal ég fara mörgum orðum um þetta „vottorð“ Kristjáns Jenssonar, en aðeins minnast hér á tvö atriði eða þrjú. Ein af þeim sakargiftum, sem hann ber fram, er að tiltekinn maður hafi mútað tiltekinni konu, Kristínu Oliversdóttur, til þess að kjósa Gunnar Thoroddsen. Mér hefur nú borizt skeyti úr Ólafsvík, sem ég vil lesa hér upp með leyfi hæstv. forseta: [Vantar í hndr. innanþingsskrifara.] Undirskrift er staðfest á venjulegan hátt. Þetta er eitt lítið dæmi um, hvert sannleiksgildi muni vera í þessum kæruatriðum mannsins.

Ég skal nefna annað til gamans, um það, hversu sennilega er logið í nefndu bréfi, nefnilega að ég hafi mútað manni í votta viðurvist. Ég verð að segja, að ef sæmilega viti borinn maður ætlaði að múta manni, held ég að hann mundi tæplega gera það í margra votta viðurvist!

Mér er um geð að vera að bera hingað slúður og slefsögur, eins og hv. þm. V.-Húnv. byrjaði á hér í gær. En þess má geta, að í Ólafsvík liggur vottorð, undirritað og staðfest, sem ég hirði ekki um að fá símsent hingað, — vottorð, þar sem það er borið, að þessi Kristján Jensson hafi boðið tilteknum manni brennivín og fé til þess að kjósa Bjarna Bjarnason. Í þessu sama vottorði er það fullyrt, að einn af útsendurum Framsfl. í Snæfellsnessýslu við síðustu kosningar, fyrrv. sýslumaður Jón Hallvarðsson, hafi gert, slíkt hið sama við annan mann. Sá maður var einn af fulltrúum Framsfl. Og það sýnir sómatilfinningu þess flokks að senda þann mann í sínum erindum, sem framið hefur slík afbrot sem hann og hraktizt svo frá embætti við lítinn orðstír. Þennan mann telur Framsfl. hæfilegan fulltrúa fyrir sig, til að beita sínum aðferðum í Ólafsvík á kjördegi.

Það eru ýmis atriði í ræðu hv. þm. S.–Þ., sem ástæða væri til að svara, en ég fer fljótt yfir sögu. Hann sagði, að Kristján Jensson væri svo mikill sjálfstæðismaður, að hann hefði fengið bíl hjá Jakob Möller. Ég vil benda á, að Bjarni Bjarnason skólastjóri fékk líka bíl í vor eða sumar hjá Jakob Möller, og ekki vil ég halda, að hv. þm. S.-Þ. beri það á Bjarna, að hann sé orðinn sjálfstæðismaður,

Annars rakti hv. þm. S.-Þ. sögu tveggja alþingiskosninga á Snæfellsnesi, í vor og haust. Er sú sögurannsókn með sama svip og annað af því tagi, sem frá honum kemur. Og niður staðan var sú, að í raun réttri væri Bjarni rétt kjörinn þm. og ætti miklu meira fylgi og Snæfellingar vildu alls ekki Gunnar Thoroddsen. Um þessa „sögurannsókn“ og „söguvísindi“ mannsins, sem er kjörinn til þess af sjálfum sér að rita sögu Jóns Sigurðssonar, skal ekki farið fleiri orðum. En ég vil aðeins spyrja þennan háttv. þm. að því, þegar hann talar um, að ég sé hér þm. Reykv., vegna þess að heildsalarnir í Rvík hafi stutt mig dyggilega. Eru þá allir heildsalar komnir á kjörskrá vestur frá, og kjósa þeir þar? Síðan fór hv. þm. að rekja ástæðurnar, hvers vegna svo hörmulega hefði farið, að Bjarni féll. Hann sagði, að það hefði verið óhemjulegur áróður af hendi sjálfstæðismanna. Ég hélt, að þessi hv. þm. mundi ekki hneykslast mikið á „óhemju áróðri“, því að hann er talinn ötull áróðursmaður, jafnvel nokkuð óhemjulegur áróðursmaður á köflum. En ef hann langar til að vita orsök úrslitanna, þá er hægt að skýra frá mörgum þeirra og rekja þær nokkuð ofan í kjölinn. Bjarni kom óþekktur í vor á Snæfellsnes, og í leiftursókn sinni tókst honum að vinna kjördæmið. Síðan kynntist hann þar í nokkra mánuði — með þeim árangri, að hann féll við næstu kosningar. Það er og annað, sem hefur ráðið nokkru um úrslitin. Það var gefið fullmikið af kosningaloforðum af hendi Framsfl. í vor. Þeim loforðum hefði kannske verið hægt að snúa sér út úr á ýmsan hátt á venjulegu fjögurra ára kjörtímabili, en hundadagarnir reyndust of skammur tími til að eina þau. Þess vegna kann það að hafa verið, að suma bændur færi að lengja eftir kaupamönnunum, sem þeir áttu að fá, og sumar húsmæðurnar fór víst að lengja eftir saumavélunum og önnur heimili eftir strokkunum, sem búið var að lofa.

Af því að ég vil gjarnan halda svolitla kennslustund yfir hv. þm. S.–Þ. um úrslitin, vil ég í þriðja lagi segja það, að framkoma Framsfl. á undanförnum árum í garð Snæfellsnessýslu hefur átt sinn mikla þátt í úrslitunum. Í heilan áratug — og jafnvel lengur — hefur Framsfl. gengið fram fyrir skjöldu að drepa svo að segja hvert einasta hagsmuma- og velferðarmál, sem borið hefur verið fram þeirra vegna. Framsfl. hefur framið slíka hefndarpólítík, af því að hann hafði ekki kjördæmið í sínum höndum. Þetta hafa kannske Snæfellingar munað við kjörborðið í haust. Ég ætla ekki að rekja fleiri orsakir. Þær eru margar fleiri, og velkomið að rekja þær síðar fyrir hv. þm. S.-Þ., þó að ég vilji ekki tefja tíma þingsins. Enn má þó nefna eina ástæðu fyrir ósigri Framsfl. í Snæfellsnessýslu, sem ekki er til að dreifa nú, en var 1933, þegar Thor Thors var fyrst kjörinn. Þá var það talið ein hans mesta heppni, að þessi sami hv. þm. S.-Þ. kom í kjördæmið og á hvern einasta fund, til þess að tala á móti Thor. Þetta olli kannske miklu um hinn glæsilega sigur Thors þá.

Ég skal að lokum segja, að ég hefði haldið, að framkoma Framsfl. í garð Snæfellinga og Snæfellsnessýslu á undanförnum árum hafi verið með þeim hætti, að mælirinn sé nú fullur, — eftir að búið er á annan áratug að drepa vitandi vits með hverju einasta atkvæði, sem Framsfl. átti til á þingi, hvert hagsmunamál Snæfellinga eftir annað til vega, brúa, hafnargerða og annars. Eftir þetta á svo að ráðast með óhróðri á Snæfellinga, brigzla þeim um að þiggja mútur og láta brennivín ráða atkvæði sínu við kjörborðið. Eftir að málgagn Framsfl. hefur ráðizt á þingmann kjördæmisins með hinum mesta óhróðri, þá á að kóróna þetta allt með því að svipta Snæfellinga mínum löglega kosna fulltrúa á þingi. Sá er tilgangurinn með því að fresta að taka kosninguna gilda, að hér verði starfað um langan tíma, og kannske allt þetta þing, og m.a. verði fjárlög afgr. án þess, að þessi sýsla eigi hér nokkurn fulltrúa. Hv. 3. landsk. lýsti í ræðu sinni mjög glögglega, hversu fráleitt væri á grundvelli þessa ómerkilega lygabréfs að fresta að taka kosningu gilda, en sá rétti gangur imilsins væri að senda kæru og hefja rannsókn út af slíkri kæru. Ég vil bæta því við, að yfirkjörstj., þar sem Framsfl. á fulltrúa, skrifaði einróma athugasemdarlaust undir kjörbréfið, undirkjörstj. allar með tölu tóku kosninguna gilda, án þess að nokkur maður hreyfði mótmælum. Allir umboðsmenn Framsfl. í öllu kjördæminu samþ. kosninguna athugasemdalaust. Svo kemur rógsbréf frá óþekktum manni. Og svo lágt leggst Framsfl., að hann ætlar að byggja úrskurð um gildi kosningar á slíku bréfi. Ég efa ekki, að ef framsóknarmenn hefðu talið þess nokkurn kost, þá hefðu þeir reynt að afla sönnunargagna um misfellur. Það hafa þeir ekki gert, og sýnir það með öðru, hvað málstaður þeirra er gersamlega vonlaus. En til hvers er þá leikurinn gerður? Leikurinn er gerður í því skyni einu að koma þessari rógsögu á framfæri. Því að þeir vita það, þessir menn, af langri reynslu, að þegar rógurinn er tugginn upp nógu oft, þó að allt sé rekið ofan í þá aftur, þá kann að vera kannske eitthvað, sem loðir við, kannske einhverjir kjósendur, sem trúa lygasögunum og þvættingnum. Það er í trausti þessa, að þessi leikur er hér leikinn, — og þá jafnframt til þess að svala heift sinni út af vonbrigðunum á Snæfellsnesi. Aðferðin við þetta er náttúrlega fyrir neðan allar hellur. Og ef Alþingi ætlar að fresta að taka gilda kosningu, sem hefur augljós og vafalaus úrslit, fyrir þá sök, að einhver óþekktur maðursendir slíkt bréf til Alþingis, þá er skapað fordæmi, og ekki gott að segja, hvar slíkt endal. Hv. þm. S.-Þ. var í gær að barma sér yfir því, að Morgunblaðið hefði borið það á Framsfl., að hann hefði ekki unnið einar einustu kosningar nema með mútum. Ef nú á að byggja á bréfi eins og Kristjáns Jenssonar, þá er hliðstætt að ógilda kosningu allra framsóknarmanna, vegna þess að í grein í Morgunbl. stóð, að þeir hefðu unnið allar kosningar með mútum. Hér er að vísu ólíku saman að jafna, vegna þess að það var ólíku meiri sannleikur í Morgunbl. heldur en í bréfi Kristjáns.

Ég vænti, að mál þetta sé nægilega skýrt, hversu fráleitur þessi málatilbúnaður er, og hver er tilgangurinn. Ég veit, að það verður Framsfl. og þeim, sem greiða með honum atkv., einungis til háðungar, ef fresta á að taka kosninguna gilda á svo veikum grundvelli sem hér er um að ræða.

Ég veit, að í þingsögunni verður það lengi munað. Það hefur verið sagt, að Framsfl. hafi eignazt sitt þjóðfífl. Ég held það sé óþarfi fyrir framsóknarmenn að gera sig alla að þingfíflum líka.