23.02.1943
Efri deild: 61. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Sjútvn. hefur haft til athugunar þá breyt., sem gerð var á frv. í hv. Nd., og hefur ekki getað fallizt á, að hún yrði samþ. hér í hv. d. N. hefur haldið um þetta tvo langa fundi síðan það kom frá hv. Nd., og hún hefur reynt að sameina í þessum síðustu till. sínum vilja allra þeirra manna, sem standa að flutningi frv. í Nd. og breyt. á því þar, og jafnframt vilja þeirra manna, sem komið hafa fram með brtt. við frv. hér í hv. d. Og nú hefur sjútvn. lagt fram brtt. sínar á þskj. 447, sem hún hefur fulla ástæðu til að halda, að þingheimur svo að segja allur geti fallizt á. Ég vonast því til þess, að málið geti orðið leyst á þann hátt, sem hér er lagt til í brtt., og því verði ekki stefnt í frekari hættu á þessu þingi.

Ég lýsti yfir því í þessari hv. d. áður, að í raun og veru væri ég mótfallinn frv., eins og það fór úr þessari hv. d., en greiddi þó atkv. með því, vegna þess að ég vildi ekki, að stofnað væri í hættu þeim miklu kjarabótum, sem frv. hafði í för með sér, eins og það var afgr. héðan úr hv. d., þó að það væri ekki að öllu leyti eftir mínum óskum. Nú hygg ég, að búið sé að sníða mestu agnúana af frv., sem þá voru á því, og voru þess valdandi, að menn gátu ekki sameinazt um það í báðum d. Því að í stórum dráttum verður frv. samkv. brtt. breytt þannig, að 1/3 hluti af útflutningsgjaldinu, eins og það verður á hverjum tíma, fer í þá deild, sem ætlazt er til, að stofnuð verði við fiskveiðasjóð sem sérstök lánadeild til þess að lána út á 2. og 3. veðrétt í framtíðinni. Með þessari breyt. er því borgið, að þessu fé verði ekki kastað út í framtíðina um aldur og ævi með styrkjum. Við vonumst eftir því — a.m.k. væri það allt of mikil myrksýni, ef við hefðum ekki leyfi til að vona það, — að sjávarútvegur Íslands komist úr þeim erfiðleikum, sem hann nú á í um nýbyggingar skipa, og að það verði ekki eins knýjandi þörf á styrkjum til bátabygginga í framtíðinni eins og nú, og þess vegna sé viturlegast að láta þetta fé renna í lánadeild fremur en að það verði veitt sem styrkir. Hins vegar höfum við beygt okkur fyrir þeirri staðreynd, að menn hafa sett fé sitt í bátabyggingar, sem hafa orðið dýrari en gert hafði verið ráð fyrir í fyrstu, og þess vegna mundi vera óhjákvæmileg þörf að styrkja þessa menn. Við litum svo á, að það yrði kannske ekki svo mikill munur á því í ýmsum tilfellum annars vegar að lána þessum mönnum og hins vegar, að þeim yrði veittur styrkur, vegna þess að það fé, sem nú væri lánað í þessu skyni út á 2. og 3. veðrétt, mundi kannske ekki koma aftur, því að menn mundu ekki geta staðið undir þeim kostnaði, sem endanlega væri við bátabyggingarnar. Hins vegar voru það einnig nokkur rök í þessu máli, ef menn fengju lán í þessum tilfellum, en ekki styrk, þá væri ómögulegt að tryggja bátana fyrir þá upphæð, sem lánuð væri, en ekki væri kannske alveg óframkvæmanlegt að tryggja þá fyrir kostnaðarverði, ef atyrkur væri veittur. Og ég tel vanhugsað að veita ekki styrk í slíkum tilfellum, því að ef skip ferst, sem byggt er annaðhvort fyrir styrk eða lán úr þessari stofnun, þá er féð, sem til þess var veitt, glatað, ef skipið er ekki tryggt, hvort sem það er styrkur eða lán til viðkomanda.

Aðalbreyt. í till. sjútvn. er í því fólgin, að 6. gr., eins og hún er í frv. á þskj. 417, falli burt, en í staðinn komi nýjar greinar, 3., 9. og 10. gr.

8. gr., sem á að verða, mælir svo fyrir, að 1/3 hluti útflutningsgjaldsins fari í þessa lánadeild, sem gert er ráð fyrir að stofna við fiskveiðasjóð, og að sú deild megi lána til byggingar fiskibáta innan 1550 smál. með 2. og 3. veðrétti.

gr., sem á að verða 9. gr. l., ákveður, að þessi styrkur, 2 millj. kr., skuli vera veittur, eftir því sem ákveðið var áður í frv., af sjóðsstjórninni að fengnum till. Fiskifélags Íslands og fiskimálanefndar.

Töldum við, að allir aðilar gætu orðið sammála nm þessi mál.

Með brtt. sjútvn. er líka hámark lána, sem sé 75 þús. kr. til hvers skips, tekið burt, og tel ég það til hagnaðar fyrir útvegsmenn. Þannig getur eftir brtt. t.d. maður, sem byggir skip, sem kostar 600 þús. kr., fengið allt að 150 þús. kr. lán, sem annars hefði ekki getað fengið nema helmingi minna lán eftir frv. óbreyttu. En hámark styrkja má eftir brtt. vera allt að 25%, þó ekki yfir 75 þús. kr. á hvert skip.

Undir b-lið stendur „Lán samkv. S. gr., en það er prentvilla, og á þar að standa: Lán samkv. 5. og 8. gr. Hv. þm. athugi það.

Það er búið að ræða þetta mál mjög mikið á nefndafundum, og ég vænti, að hv. d. geti orðið sammála um, að nú beri að afgr. þetta mál eins og sjútvn. hefur gengið frá því, og höfum við nokkurn veginn fulla vissu fyrir því, að sé hv. d. nokkurn veginn samhuga um þetta, þá muni málið ná samþykki sameinaðs þings og verða til hagsbóta fyrir þá menn, sem treysta mjög mikið á, að það verði samþ. nú, til þess að þeir geti komizt úr þeim erfiðleikum. sem þeir hafa komizt í út af þessum málum.