23.02.1943
Efri deild: 61. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Brynjólfur Bjarnason:

Mér þykir nokkurri furðu sæta, að slík till. eins og hér er á þskj. 447 skuli hafa komið fram frá sjútvn. einróma, þegar maður víssi ekki betur en að meiri hl. n. væri andvigur því, að farið yrði inn á þá braut að veita óendurkræfa styrki til bátabygginga. En það hefur nú samt skipazt svo, að öll sjútvn. hefur fallizt á að fara þessa leið.

Það er út í bláinn sagt hjá hv. formælanda n., að þessi leið, sem kemur fram till. um frá hv. sjútvn., hafi einróma fylgi alls þingheims. Ég er jafnandvígur því eins og áður, að þessi leið verði farin. Og ég tel ekki nein ný rök fram komin í málinu. Ýmsir þessir menn hafa byggt skip fyrir meira fé en gert var ráð fyrir í upphafi, en það eru ekki nýjar upplýsingar. Og að því er snertir tryggingar bátanna, þá er ég á sama máli og hv. frsm. n., að það sé varhugavert, að skipin séu ekki tryggð fyrir allri upphæðinni, sem þau eru byggð fyrir. Og sízt ætti af hendi löggjafans að vera ýtt undir það, að skipin væru ekki tryggð fyrir allri upphæðinni.

Um þessa styrki hef ég það sama að segja og áður. Ég tel það alveg fullkomna vandræðalausn að fara inn á þá braut, að mönnum, sem leggja í að byggja skip á þessum dýru tímum — sem yfirleitt eru efnaðir menn, aðrir leggja ekki í það, — séu veittar slíkar stórar fjárfúlgur sem styrkir, sem fátækir menn hafa borgað í ríkissjóðinn með sköttum sínum, auk þess sem ganga verður út frá því, að meira eða minna handahóf verði á úthlutun þessara styrkja. Það er að vísu ofurlítil bragarbót hér frá hinum upprunalegu till. um úthlutun styrkja þessara, að gert var ráð fyrir, að Útvegsbankinn réði einn þessari úthlutun, þar sem eftir brtt. eiga að koma til ráðgjafar um úthlutunina Fiskifélag Íslands og fiskimálan. En samt sem áður er það Útvegsbankinn, sem hefur þessa úthlutun með höndum. Nú munu hv. nm. segja, að hér hafi verið gerðar allmiklar breyt. á og leiðréttingar, sem geri þetta aðgengilegra en hinar upprunalegu till. voru. En ég álit, að þetta sé verra, þó að brtt.samþ., og miklu verra heldur en frv. var í því formi, sem það kom frá hv. Nd. Í fyrsta lagi eru ákvæðin um úthlutun styrkjanna hér miklu lakari en þau voru í frv. eins og það kom frá hv. Nd., þar sem hér er aftur farið inn á þá braut, að stj. Fiskveiðasjóðs Íslands úthluti styrkjunum. Og í öðru lagi er gert ráð fyrir, að ákveðinni upphæð, 2 millj. kr., skuli verða varið til þessara styrkja árið 1943. Og hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að næstum því öll þessi upphæð fer til báta, sem eru fullsmíðaðir eða um það bil fullsmíðaðir, og þeir eru næstum því allir hér við Faxaflóa og í Vestmannaeyjum. Um þetta liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar. Hvað þýðir það? Það þýðir, að það verður óánægja á öðrum stöðum á landinu út af þessari úthlutun, þar sem þörf er fyrir bátabyggingar og þessi styrkur gæti komið til greina. Annaðhvort er því að halda áfram á þessari styrkveitingabraut eða það verður litið á þetta sem hróplegt ranglæti. Ég mun þess vegna greiða atkvæði á móti þessari brtt. frá sjútvn. Hins vegar álit ég, að með stofnun lánadeildarinnar við fiskveiðasjóðinn og þeim hlunnindum, sem hún nýtur samkv. frv., þá sé um að ræða svo mikla og nauðsynlega réttarbót fyrir smáútveginn, að ekki verði hjá því komizt, þrátt fyrir ákvæðið um styrkina, að greiða atkv. með frv., þó að brtt. verði samþ. Og þó að hv. n. stofni frv. í nokkra hættu með brtt., þá getur hún samt verið róleg vegna þess út af fyrir sig, að ég mun ekki greiða atkv. á móti frv., heldur með því, þó að brtt. verði samþ., með því að ég tel stofnun lánadeildarinnar svo mikils virði, að maður verði nauðugur viljugur að láta hitt fljóta með, fyrst ekki er annars kostur.