23.02.1943
Efri deild: 61. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Ég er ekki alveg viss nema hv. 5. þm. Reykv. hafi greitt frv. atkv. eins og það fór út úr þessari hv. d. mig minnir, að hann og flokkur hans væri ekki andvigur því. Og tel ég, að frv. hafi verið bætt ákaflega mikið með þessari brtt.

Ég er hv. 5. þm. Reykv. sammála um það, að það er ekki rétt að telja þetta réttlátt, að gefa 2 millj. kr. til ákveðinna fiskiskipa, ef það nær svo ekki lengra, og var þetta atriði mjög rætt í n. En það kom einnig fram í þeim umr., ef það væri réttlátt að halda áfram að styrkja landsmenn og auðvitað alls staðar á landinu undir sömu kringumstæðum, þá bæri ekki að veita þann styrk úr lánadeildinni, sem hér á að stofna, heldur beint úr ríkissjóði. Ég geri líka ráð fyrir, að þegar búið er að úthluta þessum styrkjum, sem ég líka kannske geri ráð fyrir, að verði nokkuð úthlutað eins og hv. 5. þm. Reykv. minntist á, þá komi kröfur frá öðrum landshlutum um, að menn séu einnig styrktir þar, sem byggja skip undir sömu kringumstæðum. En ef þeir byggja skip undir þessum kringumstæðum, þá hafa þeir líka gert það sama fyrir þjóðfélagið eins og þessir menn gera, sem gera má ráð fyrir, að fái þessar 2 millj. kr. í styrki, að byggja fiskiflota fyrir miklu meira fé en hægt er að renta. Og þá eiga þeir sömu menn réttlætiskröfu á að fá samsvarandi styrk, og munu áreiðanlega fá hann gegnum Alþ. Við teljum, að með þessu fyrirkomulagi, sem í brtt. felst, fyrirbyggjum við, að fiskveiðasjóður verði rýrður um of vegna þessara krafna.

Ég er hv. 5. þm. Reykv. sammála um það, að það er mjög vafasamt, hvort ekki er rétt að fyrirskipa, að skip séu vátryggð með kostnaðarverði. Þetta frv. lögbýður ekki, að það skuli gert. Ég minntist aðeins á, að þetta hefði komið fram sem rök í málinu. Því að þó að það sé ekki tjón mannsins eða félagsins, sem skipið missir, að báturinn sé ekki vátryggður fyrir styrkupphæðinni líka, þ.e. öllu kostnaðarverðinu, þá er það þó alltaf þjóðartjón. Og ef eigandi bátsins fær alla trygginguna greidda af vátryggingarfélagi, þá á hann þennan styrk. Það mætti í öðrum l. fyrirskipa, að þetta skuli gert. Hins vegar getur líka. verið, að peningastofnanirnar sjálfar ýti undir það.

Ég hef átt samtöl við menn, sem staðið hafa að byggingu dýrari báta, og þeir telja, að það sé til stórbóta að fá slíka lánadeild sem þessa, úr því að hún takmarki ekki lán sín við 75 þús. kr., svo að þeir yrðu mjög vonsviknir, ef því ákvæði yrði breytt í fyrra horfið.

Ég held, að það sé ekki ofmælt, að þetta frv., eins og það er nú, muni eiga nokkurn veginn einróma fylgi, þó að verið geti, að einhverjir einstakir hv. þm. skeri sig úr. En ég skil, að hv. 5. þm. Reykv. er ekki eins ánægður með þessa brtt. eins og hann var með frv. eins og það kom frá hv. Nd., að því leyti, að eftir brtt. er það ekki sami aðili, sem úthlutar styrknum eins og flokkur hans óskaði eftir í hv. Nd. En ég held, að það sé ekki ástæða til að fylgja ekki frv. fyrir það eitt, þó að þessu sé breytt. Því að ég álit, að sjútvn. hafi farið hyggilega að með því að leggja til, að Fiskifélag Íslands og fiskimálan. eigi að gera till. um úthlutun þessara styrkja. Þessir aðilar eiga að hafa vit á þessum málum og eiga ekki að gæta hagsmuna neinna sérstakra manna fremur en annarra. Og fiskveiðasjóður á að úthluta þessu fé sem styrkjum að fengnum till. þessara aðila og verður að beygja sig undir þær till.