10.02.1943
Efri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

65. mál, sláturfjárafurðir

Páll Hermannsson:

Herra forseti. — Það stendur nú svo á, að hv. frsm. landbn. í þessu máli er fjarstaddur og í önnum, og því hef ég tekið að mér að fara um það nokkrum orðum fyrir hönd n. Málið hefur legið nokkuð lengi hjá hv. Nd., enda er það allumfangsmikið og hefur auk þess alltaf verið nokkurt togstreitumál. Hér er sem sé um að ræða breyt. á l. nr. 2 frá 9. jan. 1935 eða svokölluðum kjötsölulögum. Frv. felur í sér allmiklar breyt. og sumar mikilvægar. Í fyrsta lagi er í l. gr. frv. gert ráð fyrir breyttri skipun kjötverðlagsn. Þá er í öðru lagi starfssvið n. fært mjög út, þannig að henni er ekki aðeins ætlað að ákveða útsöluverðið innan lands, heldur og verðið til framleiðenda. Enn fremur er gert ráð fyrir, að verðjöfnunargjaldið sé stundum notað í öðrum tilgangi en verið hefur. Til þessa hefur það farið til að jafna verð á útfluttu kjöti til samræmis við verðlag innan lands, en í frv, er gert ráð fyrir, að því verði að nokkru leyti varið til að jafna aðstöðumun framleiðenda um það að koma kjöti í verð á innlendum markaði. Þá er gert ráð fyrir, að fleiri aðilum en áður verði veitt leyfi til að slátra sauðfé til sölu. Fleiri breyt. mætti nefna, og yfirleitt eru með frv. gerðar ærið mikilvægar breyt. á kjötsölulögunum, ef það nær fram að ganga.

Strax eftir að n. hafði fengið málið til meðferðar, eða 7. janúar, sendi hún það til kjötverðlagsn. til athugunar, og 22. janúar barst svar n., þar sem segir:

„Í heiðruðu bréfi yðar, dags. 7. jan., óskið þér eftir umsögn kjötverðlagsnefndar um frv. á þskj. 89, um breyt. á l. nr. 2 9. jan. 1935, sem hv. alþm. Gísli Jónsson flytur.

Á fundi nefndarinnar í dag var eftirfarandi ályktun gerð: N. vill láta í ljós þó skoðun, að ekki muni vera tími nú til þess að endurskoða lögin, enda ekki brýn nauðsyn, þar sem lögin hafa yfirleitt reynzt vel og aldrei valdið teljandi erfiðleikum að framkvæma þau. Hins vegar telur nefndin vel munu koma til mála, að lögin verði endurskoðuð að stríðinu loknu í samræmi við þær aðstæður í viðskiptum utan lands og innan, sem þá verða.

Virðingarfyllst,

Kjötverðlagsnefndin.

Ingólfur Jónsson.“

Málið hefur einnig verið sent SÍS og Verzlunarráðinu, og hef ég heyrt, að Verzlunarráðið sé því meðmælt, en SÍS á móti. Í hv. landbn. voru nokkuð skiptar skoðanir um málið. Flestir nm. töldu þó, að eina breyt. þyrfti að gera á l., en töldu jafnframt vafasamt, að sú breyt. væri svo aðkallandi, að ástæða væri til að hrófla við l. nú þegar. Þó hallaðist n. að því, að rétt væri að gera þá breytingu, en hún er í sambandi við það, að undanfarið hefur það verið látið óátalið, að farið væri kringum l. á þann hátt, að fleiri önnuðust slátrun en þeir, sem heimild höfðu til þess. Þetta er eina breytingin, sem gerð verður á frv., ef það verður samþ. eins og landbn. vill, að það sé. N. vill sem sé fella niður allar gr. frv. nema 3. gr., en sú gr. er raunar ekkert annað en 3. gr. kjötsölul. með öðru orðalagi. Segja má líka, að vilji láta taka upp í frv. 3. gr. kjötsölul. með nokkurri viðbót, sem er í því fólgin, að nokkrum aðilum, sem ekki máttu slátra samkvæmt l., t.d. kaupmönnum, er nú heimilað að gera þetta. N. lætur það óátalið, að þessir menn fáist við slátrun, eins og þeir hafa orðið að gera á sumum stöðum þrátt fyrir ákvæði l., af því að ekki var hægt að fá löglega aðila til þess. N. vill, að þeir geri þetta á löglegan hátt, en ekki ólöglegan, og tel ég þetta til bóta. Læt ég svo útrætt um frv. að sinni.