10.02.1943
Efri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

65. mál, sláturfjárafurðir

Gísli Jónsson:

Að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. N.-M. vil ég lýsa því yfir, að það er alger misskilningur, að ég hafi gengið á snið við kjötverðlagsn. Þær fréttir hafa verið bornar ranglega þangað. Fyrrv. form. kjötverðlagsn. hafði ekki heimild til að veita þm. Barð. (sem að vísu var þá ekki þm. Barð.) slátrunarleyfi, en hann átti þá og á enn sláturhús á þessum stað, en kaupfélagið, sem hafði hentugleika á að fá leyfið, hafði enga aðstöðu til slátrunar. Það var reynt að komast að samkomulagi í 2 ár, en tókst ekki. Árangurinn varð sá, að form. kjötverðlagsn. gekk inn á að láta óátalið, þó að ég slátraði á mínu nafni. Það er ekki að brjóta l. Það stóð þannig á, að ég gat látið bændur fá, 1939 og 1940, 20 aur. meira fyrir hvert kíló en ef kaupfélagið hefði átt að halda sínu leyfi og fá að slátra og þar að auki greiða í vörum, en ekki í peningum. Árið 1941 greiddi ég 50 aur. meira fyrir kílóið en kaupfélagið hefði getað gert og 1942 60 aurum meira.

Ég vil þá biðja hv. n. að taka til athugunar við 3. umr., hvort hún vill bera fram rökst. dagskrá. Afgreiðsla málsins frá n. er engan veginn eðlileg, engan veginn viturleg í garð bænda og hlýtur að skapa það, að málið verði tekið upp í annarri mynd á næsta þingi.