05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

80. mál, brúargerð

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Ég get verið stuttorður um þetta mál. Á síðasta þingi flutti ég þáltill. um b-lið þessa frv., en hún náði ekki fram að ganga, því að hún sofnaði í fjvn. eins og svo margt annað. Um eina af þeim brúm, Haukabergsá, vil ég taka fram, að hún er milli byggðar og heiðar, þar sem fjölfarið er yfir og m.a. þarf læknir oft að fara það frá Patreksfirði, og að. Það hefur margsinnis komið fyrir, að menn voru komnir yfir hinn langa fjallveg og urðu að snúa aftur nokkra metra frá bænum Haukabergi vegna þessa farartálma eða liggja ella úti, og er hvorugt fýsilegt, þegar allra veðra er von. Það er þess vegna aðkallandi að fá brúna, ekki aðeins fyrir byggðirnar næstu, heldur allan fjarðakjálkann yfirleitt. Vegamálastjóri hefur lagt til að verja á fjárl. ríflegri upphæð til að koma Vesturlandsvegi sem lengst, og óhjákvæmilegt er, að árnar séu samtímis brúaðar, sem á leiðinni eru. Og Móru og Arnarbýlu má ekki draga lengi að brúa.

Ég óska þess, að málinu verði að lokinni umr. vísað til samgmn.