02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

80. mál, brúargerð

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. - Ég hef leyft mér að bera hér fram brtt. við þetta frv. á þskj. nr. 477 um það að bæta við II. kafla 1. gr. frv., þann kaflann, sem fjallar um nýjar brýr á öðrum vegum heldur en þjóðvegum, tveim brúm í Eyjafjarðarsýslu, annarri á Eyjafjarðará hjá Hólum í Inn-Eyjafirði og hinni á Öxnadalsá hjá Þverá.

Ég veit nú ekki, hvort allir hv. þdm. eru kunnugir í Inn-Eyjafirði. En ástæðan til þess, að ég ber þessa till. fram um brúna á Eyjafjarðará hjá Hólum, er sú, að það eru allmargir bæir austan Eyjafjarðarár í Inn-Eyjafirði, sem eru með öllu samgöngulausir við akvegina nema með því móti, að brú komi þarna. Þessir menn stunda nú mikið mjólkurframleiðslu, eins og flestir gera í Inn-Eyjafirði, og aðferðin er sú við að koma mjólkinni til markaðar, að þeir verða að flytja hana á hestum yfir Eyjafjarðará, sem stundum er lítt fær, t.d. haust og vor, þegar ána er að leggja og eins í leysingum, og náttúrlega, þegar sérstök flóð koma í ána. Þar fyrir utan eru mikil óþægindi við það að taka hesta daglega og bleyta þá í ánni. Og fyrir utan mjólkurflutninga eru svo allir flutningar, sem þessir menn þurfa að hafa, sem stundum er undir hælinn lagt, að framkvæmanlegir séu, vegna þess að þarna vantar brú, en akvegur er enginn ofan sveitina að austanverðu, þ.e.a.s. svo innarlega í sveitinni sem þetta er, og kemur sennilega ekki á næstum vegna staðhátta, sem þar eru. Ég álit þess vegna, að þessi brú sé ákaflega nauðsynleg, og um það þarf reyndar ekki að ræða, því það er svo augljóst mál.

Ég býst við, að hv. þdm. séu kunnugir Öxnadal og hafi séð, að áin, sem rennur um dalinn, er töluvert vatnsfall. Og það stendur svipað á þar, að þar eru margir bæir um miðbik dalsins að vestanverðu vegarsambandslausir, nema þessi brú komi. Og það eru mörg ár síðan farið var að ráðgera það að byggja þarna brú með því framlagi, sem þarf að vera á móti frá sveitinni, ef brúin stendur ekki á vegal. Nú skal ég játa, að þessar brýr, sem ég fer hér fram á, að teknar v erði í vegal., eru ekki á leiðum, sem landsmenn yfirleitt fara um. Þessar brýr báðar hafa einkum þýðingu fyrir þær sveitir, sem þær mundu verða reistar í. En ég get ekki betur séð en að í þessum II. lið í 1. gr. frv. séu ýmsar brýr, sem nákvæmlega stendur eins á um. Og mér er ekki hægt að sjá annað en að þessar brýr, sem ég fer hér fram á, að teknar séu þar upp, séu alveg hliðstæðar þeim. Ég skal nefna hér í II. lið 1. gr. sex liði, sem eru þarna alveg saman, hver á eftir öðrum, 3., 4., 5., 6., 7. og 8. lið, sem eru brýr á Vatnsdalsá í Vatnsdal fremra, Svartá í Tungusveit í Skagafirði, Jökulsá eystri í Skagafirði, Fnjóská í framanverðum Fnjóskadal, Skjálfandafljót hjá Stóru-Völlum og Laxá í Mývatnssveit hjá Arnarvatni. Ég veit ekki til að brýr á þessum ám þarna geti haft neina alþjóðar þýðingu fyrir samgöngurnar í landinu, heldur hljóti þessar brýr að vera teknar upp vegna viðkomandi sveita. Það mætti nú kannske segja, að um einn af þessum liðum standi sérstaklega á, Jökulsá eystri í Skagafirði, því að þar er um svo mikið vatnsfall að ræða, sem er með öllu ófært öðruvísi en á brú eða kláfum eða einhverju þess konar. Mætti því kannske segja, að þessi brú þarna hefði sérstöðu, þó að hún hefði einkum þýðingu fyrir sveitina. En hinir liðirnir sé ég ekki annað en að séu alveg hliðstæðir þeim brúm, sem ég fer fram á, að teknar verði upp.

Ég skal að lokum geta þess, að ég hef átt tal um þetta við vegamálastjóra, og hann hefur tjáð mér það, að hann væri yfirleitt á móti því að fjölga mikið brúm á brúarl., en hann hefði ekkert sérstakt á móti því, að þessar tvær brýr væru teknar upp. Og hann játaði það í viðtali við mig, að þetta, sem ég fer hér fram á, væri alveg hliðstætt sumum liðum, sem nú eru komnir inn á frv.

Ég vona nú, að hv. d. sýni þá sanngirni að samþ. þessa brtt. mína. Ég beini því til hæstv. forseta, að bera hana upp í tvennu lagi, því að skeð gæti, að hv. d. vildi fara bil beggja og samþ. aðra till. og hafna hinni. Og verð ég þá að segja það, þó að það mundi sízt verða sagt um mig, ef ég ætti að gera nokkurn mun hér á, að mér væri annara um Inn-Eyjafjörð en Öxnadal, þá er það svo, að ég tel það meira sanngirnismál, að brúin á Eyjafjarðará verði samþ. heldur en jafnvel brúin á Öxnadalsá. En þakklátastur væri ég fyrir það, ef hv. d. sæi sér fært að samþ. báða liði brtt. minnar.

Hv. samgmn. hefur ekki haft tækifæri til að athuga þessa brtt. mína, því miður. Ég gat ekki mætt hér við 2. umr. málsins, og hana hafði borið nokkuð bráðan að. En ég held, að þetta sé svo augljóst mál, að hver hv. þdm. geti tekið ákvörðun um það án þess, að n. taki það til sérstakrar athugunar. Ég mundi hins vegar ekkert hafa á móti því, ef n. óskar þess, að málinu væri frestað vegna þessarar brtt., en ég sé ekki ástæðu til að bera fram neina ósk um það.