02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

80. mál, brúargerð

Eiríkur Einarsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls um þetta frv., en það liggja samt atvik til þess, að ég tel rétt að segja um það nokkur orð. Það er þá einkanlega tvennt, sem ég vildi leiða athygli að. Í fyrsta lagi, hvernig þetta frv. yfirleitt er komið, að teknar eru hér til heildarflokkunar hinar fyrirætluðu brýr, bæði á þjóðvegum og annars staðar og til tekið, hvernig þær skuli standa á brúarl. Og sú flokkun er svo stórvægileg og þýðingarmikil, að það er ekki furða, þó að hv. þm. telji réttmætt að gefa því máli mjög góðan gaum.

Ég heyrði á orðum hv. 1. þm. Eyf. (BSt) og hv. þm. Dal. (ÞÞ), að eitthvað er það nú reikandi, hvernig flokkun þessi er til orðin. Hv. 1. þm. Eyf. sagðist hafa borið undir vegamálastjóra þá aukningu við brúarl., sem hann er með brtt. um, og vegamálastjóri hafi ekki talið það fjær lagi heldur en annað, sem komið er í frv. Jafnframt sagði hv. þm. Dal., ef ætti að fara að gera breyt. á þessu með nýjum till., þá sé brúa þörf í hans kjördæmi, sem ætti kannske samræmilegan rétt á sér við sitt hvað annað, og svona gengur það koll af kolli. Ég hygg, að sannleikurinn sé sá, að það fari nokkuð eftir aðstöðu, lagni og harðfylgi hv. þm., hverjar brýr komist inn á brúarl. Það er t.d. vitað mál, að sá fjöldi af brúm sem er ákvarðaður til framkvæmda, eftir því sem verða má um þær framkvæmdir, á fjárl. nú fyrir 1943 ég geri ráð fyrir, að það séu ekki hvatarorð frá vegamálastjóra, að það skuli þannig stíla fjárveitingu til hinna einstöku brúa þar. Hitt er annað mál, þegar út í það var komið og sótt fast af einstökum hv. þm. að tilgreina brýr, sem koma ættu á fjári., þá hafi það verið í samráði við vegamálastjóra, hverjar brýr þar væru nefndar. Mér skilst líka á hv. 1. þm. Eyf., að það sé sem sagt á hinni líðandi stund ekki síður ýtni einstakra hv. þm. heldur en beinar till. vegamálastjóra, sem um er að ræða og kemur til greina um það, hvaða brýr eru teknar upp á brúarl., og það er alveg víst.

Nú segi ég: Úr því að málið á hér að fara þennan krabbagang — ég vil leyfa mér að kalla það krabbagang — og úr því að málum er þannig komið, að nýjar og nýjar brtt. koma fram og nú ein frá hv. 1. þm. Eyf., sem ég hef út af fyrir sig ekkert að athuga við, — ég get hugsað mér, að þessar tvær brýr séu nauðsynlegar —, en úr því að málið einu sinni er komið út á þennan rekspöl, þá verður manni að detta í hug þörf fyrir vissar brúargerðir í samræmi við annað, sem komið hefur fram hér í hv. þd.

Í samræmi við það, sem sagt hefur verið, vil ég leyfa mér að bera fram og kynna skriflega brtt. við A, H, 15, nýjan tölul., brú á Tungufljót hjá Króki í Árnessýslu. Þannig er ástatt, að flutningar að og frá Bræðratunguhverfinu, a.m.k. átta bæjum, fara þar fram á ferju, þ. á m. daglegir mjólkurflutningar, og er sú ferja erfið og stundum ófær lengi, t.d. þegar skríður illa í ánni, og verða oft vandræði á veturna. Ferjunin yfir þetta sundvatn helzt við af því, hve þörfin er brýn, en ekki af því, að hún sé neinn leikur. Tungufljót er ekki mjög breitt þarna bakka milli og sýnilegt, að þar má gera brú, enda er verkið fyrirhugað, og vegamálastjóra hefur verið falið að gera nauðsynlegar áætlanir um brúna, en játað er af honum sem öðrum, að hennar sé þörf. Hér er ekki farið fram á neitt annað en það, sem þörfin krefur, ekki aðeins bæjanna, sem ég nefndi, heldur mikils hluta allrar Eystri-Tungu og stærra landsvæðis raunar, – síðar meir. Að vísu er önnur brú á vatnsfallinu ofar, en úr vegi fyrir suðurhluta Eystri-Tungu.

Þó að hv. þm. séu nú allalmennt komnir á þann rekspöl að telja sjálfsagt, að hver fái í sínu kjördæmi eitthvað af brúm eða öðrum jafngildum fríðindum, — þm. kaupstaða geta ekki vænst brúargerða eins og þm. héraða —, þá er skiljanlegt, þrátt fyrir að samgmn. hefur, að því er virðist, látið undan þessum hugsunarhætti, að brúaþörfin fer ekki eftir gildleik neins þm., heldur náttúrufari héraðanna, og við það eitt og almannaþörf verða brúalög að miðast. Skaftafellssýsla er t.d. sérlega frek á brýr, og rétt er það, að Dalasýsla á nokkuð margar ár óbrúaðar. Með því að nú er á annað borð tekið að hreyfa brtt., sem ég skal láta hlutlausar að svo komnu máli, þá leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt.