02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

80. mál, brúargerð

Páll Hermannsson:

Ég vil taka fram, að ég tel þetta frv. vel úr garði gert frá hendi hv. samgmn. og til mikilla bóta á brúal. Þó er vitað, að þörf er fleiri nýrra brúa. Vel veit ég, að hægt er að byggja fleiri brýr en brúal. ákveða og kannske með sæmilegum kjörum. En ég verð að telja, að brúin á Jökulsá á Dal, sem brtt. mín fjallar um, sé þess eðlis, að hún eigi að vera á brúal. Öllum er kunnugt, að Jökulsá er eitt hið versta vatnsfall á Íslandi. Hún er aldrei reið, mjög óvíða ferjandi. Hin úreltu samgöngutæki, sem kláfar kallast eða drættir, eru enn hafðir á Jökulsá, þótt annars staðar séu horfnir, og hafa margir farizt úr þeim undanfarið, stundum maður á hverju ári, og ætti að vera nóg komið. Nú hefur vegur verið lagður bak við byggðina upp að Jökulsá á þessum stað, og var ástæðan sú, að vegur upp með bæjum hefði orðið margfalt dýrari, en frá brúarstæðinu liggur vegurinn að Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Í þeim dal eru að vísu aðeins tvær jarðir, mannmargar, en um þessa leið fer eða mundi fara mikil umferð, sem nú verður að fara aðrar örðugri leiðir. Lagt hefur verið til að taka upp í þjóðvegatölu veginn upp frá Skjöldólfsstöðum og yfir Jökulsá hjá Brú, en þar sem ég veit ekki enn, hvernig þeirri till. reiðir af, vildi ég ekki láta hjá líða að hreyfa brúarmálinu í sambandi við þessa frv.

Brúarstæðið er gott eftir því sem orðið getur á stórvatni, mjög lík brúarlengd og hjá Fossvöllum, enda fellur áin viðast í gljúfrum og góð brúarstæði hvarvetna. Vegamálastjóri mun hafa hugsað sér að láta gera þarna bráðabirgðahengibrú, og víst væri það bót, en ekki mun gert ráð fyrir, að hún yrði fær hestum, og yrði að bera allan flutning yfir, svo að ónóg úrlausn væri það. Ég vonast til, að hv. d. sjái, að ekki er minni þörfin þarna en annars staðar, sem lagt er til að brúa vatnsföll.