02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

80. mál, brúargerð

Frsm. (lngvar Pálmason):

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög. Það hefur ekki mikla þýðingu. Ég vildi þó leiðrétta ýmsan misskilning. sem komið hefur fram hjá hv. 1. þm. Eyf. Hann vildi taka orð mín þannig, er ég skaut fram í fyrir honum, að ekki lægju fyrir neinar umsagnir vegamálastjóra um þessar brýr, sem hann flytur nú brtt. um. Hann vildi taka þau orð mín á þann veg, að ég væri að rengja orð hans, en svo er ekki. En hann sagði, að vegamálastjóri hefði ekki séð neitt sérstakt á móti þessum brúm. (BSt: Og ekki meira en ýmsum, sem eru í frv.). Ja, það dreg ég mjög í efa, sem ég kem svo að síðar. Þá gekk ræða hv. 1. þm. Eyf. út á að sýna fram á, að samgmn. tæki sér allmikinn rétt og sérstaklega fann hann að því vegna þess, að hann áleit, að hún hefði verið mjög hlutdræg. Benti hann þar á m.a., að einn nm. úr samvn. samgm., sem á sæti í þessari hv. d., hefði verið fyrsti flm.brtt. á brúal., og auðvitað hefði hann fengið fram sínar till. (BSt: Þetta nefndi ég ekki). Það er ekki ástæða til að gera hv. þm. Barð. tortryggilegan, vegna þess að það hefur verið fellt niður úr till. hans. Og hvers vegna? Það var ekki gert af meðnm. hans með neinni misklíð milli hans og annarra nm., heldur vegna þess, að vegamálastjóri sýndi honum fram á, að það væri ekki hin rétta aðferð að taka þessar brýr upp í brúal. Og hv. þm. Barð. sannfærðist um þetta, og sumar af þeim brúm, sem hann var með, voru ekki teknar inn í brúal.

Þá sagði hv. 1. þm. Eyf., að samgmn. hefði átt að fara eins að og hv. fjvn., að koma með óskalista til hv. þm. En samgmn. tók til athugunar. allar brtt. við brúal. og bar svo undir vegamálastjóra, hvað af þeim ætti að taka með í breyt. á brúal. Svo bætti vegamálastjóri við, ekki aðeins eins miklu af brúm og n. gerði till. um, heldur miklu meiru. Flestar breyt., sem frv. felur í sér á brúal., eru eftir till. frá vegamálastjóra. Og það er einmitt á þessu, sem n. byggir, af því að hún veit, að engum manni á landinu er kunnugra um það en vegamálastjóra, hvar þörfin er mest fyrir nýjar brýr. En annað mál er það, að hver veit bezt um það, sem hjá honum gerist. Það þekkir enginn hér betur þörfina á brúm yfir Eyjafjarðará og Öxnadalsá heldur en hv. 1. þm. Eyf. En það er bara ekki nægilegt. Það þarf líka að hafa þekkingu á því, hvernig hagar til á öðrum stöðum á landinu.

Þá taldi hv. 1. þm. Eyf., að nokkuð hefði verið mismunað héruðum í þessu frv. Það er ekki hægt að neita því, að það koma fleiri brýr þar til greina í sumum kjördæmum heldur en í kjördæmi hans, það er alveg rétt. En það er einungis vegna þess, að þörfin er þar brýnni. Og þetta, að svona er mismunað að þessu leyti um brýr í héruðunum, er ekki vegna þess, að samgmn. hafi haldið fram því fyrirkomulagi, heldur af því, að vegamálastjóri hefur talið þess fulla þörf.

Þá vil ég mótmæla því, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Eyf., að það væri sjónarmið vegamálastjóra að taka ekki. á brúal. eða vegal. brýr eða vegi annað en það, sem snertir hinar almennu samgöngur í landinu. Þetta er alrangt, eins og sést bezt á þeim mörgu brúm, sem vegamálastjóri hefur lagt til, að teknar verði upp í brúal. (BSt: Úr því, sem komið er, já.) Hitt er allt annað mál, að fyrir 10–20 árum síðan var það stefna vegamálastjóra, að fyrst yrðu teknar aðalbrautirnar um landið. En nú er komið svo langt, að hægt er að sinna hinum verkefnunum líka, eins og kemur fram í umsögn hans um vegal. og brúal. (BSt: Það er ekki sjónarmið hans nú, það bera umsagnir hans greinilega vott um.) Ég er búinn að viðurkenna, að það má vel vera, að það sé álitamál, hverjar brýr eigi að taka inn í brúal. og hverjar ekki. En leiðarsteinn samgmn. hafa verið till. vegamálastjóra. Og ég held, að það megi færa þess dæmi, að það eru brýr á brúal., sem ýmsir telja, og þar á meðal hv. 1. þm. Eyf., alls ekki þarfari heldur en þær, sem hann flytur nú brtt. um. Og hann gerði um þetta nokkurn samanburð. Og sumar af þessum brúm, sem hann taldi, hafa verið á brúal. síðan 1932; og hvernig í ósköpunum á Alþingi að leggja til, að þær verði teknar nú út úr brúal.? Það getur vel verið, að samanburður hv. þm. sé réttur, en það, sem sá samanburður kann að leiða í ljós þessu máli til sönnunar, að í brúal. séu brýr, sem ekki séu þarfari en þær brýr, sem hv. 1. þm. Eyf. gerir brtt. um, það sannar ekki heimsku samgmn. eða hlutdrægni, heldur það sleifarlag, sem á því hefur áður verið, hverjar brýr hafa verið teknar í brúal. og hverjar ekki. Og ýmsar þær brýr, sem komizt hafa inn í brúal. 1932, má færa sönnur á, að séu sízt þarfari en þær, sem þar eru ekki enn komnar inn. En að taka till. vegamálastjóra til greina í þessu efni, er sú stefna, sem verður að fara eftir, ef festa á að komast á í þessum málum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara nánar út í ræðu hv. 1. þm. Eyf. Þó er eitt atriði enn, sem ég tel rétt, að leiðrétt sé. Hann vitnaði þar í einhverja ræðu, sem hv. 6. þm. Reykv. hefði flutt hér í hv. d. fyrir skömmu um það, að embættismenn væru þannig gerðir, að þeir vildu sem minnstu breyta, og sagði, að ekki væri von, að vegamálastjóri hefði verið að troða brúm upp á samgmn. Vegamálastjóri gerði till., og n. sannfærðist um það með samanburði á korti, að till. hans væru á rökum byggðar. Hann þurfti ekki að troða upp á samgmn. neinum af sínum till., en hann á samt uppástunguna að flestum þeim brúm, sem nú er stefnt að að taka upp í brúal. Viðhorf vegamálastjóra er það, að það eigi að halda áfram með samgöngubætur bæði með vegalagningum og brúagerðum, eftir því sem geta ríkissjóðs leyfir. Og ég held, að það sé alrangt, að samgmn. álíti, að hún ein sé bær um af öllum hv. þm. að dæma um þessi mál. Það er síður en svo. En hún hefur fengið þá aðstöðu, að henni bar skylda til að fá þær beztu og sönnustu upplýsingar í málinu, sem hún átti kost á, og fylgja þeim fram og láta þar við sitja og láta málið komast fram og eiga svo ekki undir skafti og blaði, hvað það væri, sem kæmist fram, og hvað ekki.