02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

80. mál, brúargerð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vildi leiðrétta misskilning, sem kom fram hjá hv. 1. þm. N-M., að ég haldi fram, að þetta fólk, sem hann gat um, vildi ekkert á sig leggja til þess að fá samgöngubætur hjá sér. Ég benti á það, að á þessum stað eru möguleikar fyrir hendi, ef fólkið vildi ekkert leggja á sig sjálft til þess að fá samgöngubætur hjá sér, þá væri áhugi fyrir því ekki fyrir hendi.

Í sambandi við það, að áhuginn er svona mikill hjá fólki í Jökuldal fyrir því að fá bættar samgöngur hjá sér, vil ég benda á, að þessi sami áhugi var hjá Barðstrendingum. En ríkissjóður hefur ekki það lán hjá Barðstrendingum til þess að bæta þar samgöngurnar.

Ég hef orðið þess vísari, að það er ekki nauðsynin fyrir nýjar brýr, sem liggur á bak við hjá hv. þm., að undanteknum hv. 1. þm. N.-M. Þegar hann hefur fengið þá skýringu, að þetta megi gerast af fjallvegafé, og veit, að þessi brú á Jökulsá er komin inn í brúal., þá hygg ég, að hann muni mega vera ánægður og hann geti tekið sína brtt. hér til baka.

Hinir tveir hv. þm., sem brtt. hafa flutt hér, hafa skýrt tekið fram, að það sé ekki eins nauðsynlegt, sem þeir eru með, og hv. 1. þm. Eyf. lýsti því skýrt yfir, að það hefði ekki átt að opna vegal. En samt sem áður barðist hann fyrir því, að inn í þjóðvegatölu yrði tekinn vegur, sem ekki kom nema fáum að notum. Þessi sterki áhugi þessara manna vaknaði, þegar þeir sáu aðra menn berjast fyrir nauðsynjamálum fyrir héruð sin. En ég er sammála hv. 1. þm. Eyf. um það, að það ætti fyrst að taka vegina á langleiðum, aðalleiðunum, sem allur almenningur hefur gagn af og gera á þeim samgöngubætur með vega- og brúagerðum. En ég held, að hann hafi lagt stein á hina vogarskálina, þegar hann reyndi að þvinga veg inn í þjóðvegatölu, sem ekki er á þeirri leið og hlaut að torvelda það, að halda uppi þessari stefnu að taka fyrst vegina á aðalleiðunum, sem hann taldi sig fylgjandi.

En það þarf að gera meira en að skipta fénu til samgöngubóta á milli héraða jafnt eins og nú er háttað samgöngubótum í hverju héraði fyrir sig. Það þarf líka að skipta því fé með tilliti til þess, hvaða héruð hafa orðið út undan á undanförnum árum, og bæta upp þeim héruðum, sem æ og ávallt hafa orðið út undan í fjárframlögum til samgöngubóta, þ.e. til vega- og brúagerða, hvort sem það stafar af því, að þau hafa haft handónýta þm. fyrir sig eða af því, að skilningur hefur verið svo litill á Alþ., að ekki hefur þótt svo mikils virði að leggja fram fé til lífsbjargar fyrir þau héruð. Það þarf að rannsaka, hvaða héruð þurfa að fá brýr og vegi, og þá verður Eyjafjörður áreiðanlega ekki fremstur á blaði, það er ég viss um.

Það hefur því engin regla verið brotin hér af samgmn., hún fór aðeins eftir því, sem fyrir lá. Mig undrar það, þegar hv. 2. þm. Árn. segir, að hann hafi ekkert vitað um, hvað hér var á ferð, því að hann vissi vel, hvað var hér á ferð. Nú í umr. um fjárl. var deilt hart á hv. fjvn. af allmörgum hv. þm. fyrir það, að hún fékkst ekki til þess að veita þeim áheyrn. Þar á meðal var hv. þm. Vestm., sem þurfti að skrifa n. bréf og líklega fá kvittun fyrir því, til þess að geta sannað, að hann gat ekki fengið áheyrn. Mér finnst þetta sízt til fyrirmyndar.

Hv. 1. þm. Eyf. lýsti yfir því, að hann væri vanur að flytja brtt. við mál, þegar þau væru komin úr n. Mér virðast slíkar aðferðir fremur tefja málin, því að þá þyrfti n. að fá þessar brtt. til athugunar eða d. að dæma um það í umr., hvort nauðsyn væri á þessum brtt. eða eigi, og af því leiðir ávallt tafir á framgangi mála.

Ég er ekki sammála hv. 1. þm. Eyf. um, að eigi hafi verið rétt að opna brúal., því að þau voru opnuð af brýnni nauðsyn fyrir það hérað, sem undanfarin ár hefur verið stjúpbarn Alþ. og lítilla velgerða notið. En af ýmsum ummælum þessa hv. þm. mætti ætla, að brtt. hans væru fremur bornar fram af hégómaskap en nauðsyn, því að hann vill ekki koma aftur heim í kjördæmi sitt, nema því aðeins, að hann hafi eitthvað gert fyrir það.

Ég vil mælast til þess, að þessi hv. þm. breyti um þær aðferðir sínar, að flytja brtt. fyrst, þegar mál eru komin úr n., og enn fremur vona ég, að hann taki aftur þessar brtt. sínar og greiði frv. atkv. eins og það er nú. Að lokum vil ég mælast til þess, að umr. verði ekki haldið uppi miklu lengur, því að þetta virðist nú þegar allmikið rætt.