12.03.1943
Efri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég get því aðeins samþykkt bráðabirgðaákv. síðast í frv., að undanþágan verði ekki veitt nema sem allra skemmst, helzt ekki lengur en til haustsins, sem kemur, og það mun almennur vilji þm. Vil ég, að það fylgi frv., að þess er vænzt, að ákvæðið verði ekki misnotað. Höfuðkostir þessa frv. eru einmitt 6. og 8. gr., sem eiga að tryggja fullkomna flokkun. Loks vil ég benda á næstsíðustu málsgr. 5. gr. með leyfi hæstv. forseta: „Verðskráning garðávaxta skal aðallega miða við markaðsverð garðávaxta í nálægum löndum að viðbættum flutningskostnaði. Þó skal þess gætt jafnframt, að framleiðendum sé tryggt hæfilegt framleiðsluverð.“ Ég álít, að það geti sýnt sig, að ekki sé ætíð hægt að fullnægja báðum þessum verðlagskröfum í senn. Verð ég þá að skilja frv. svo, að höfuðreglan sé fyrri málsgreinin og á henni verði að byggja. Hin síðari verði aðeins höfð til hliðsjónar, — þann veg komist n. helzt hjá því að brjóta fyrirmælin.