15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Frsm. (Páll Hermannsson):

Maður getur nú ekki alveg fullkomlega áttað sig á skrifl. brtt., en ég hef það á tilfinningunni, að skrifl. brtt. frá hv. 2. þm. Árn. breyti ákaflega litlu. Mér sýnist hann bara snúa atriðum við þannig, að hann telur annað það atriði fyrr, sem í frv. er síðar talið, en er annars á ferð með bæði atriðin.

Annars geri ég ráð fyrir, að það, sem hlyti að liggja til grundvallar fyrir ákvörðun verðs á kartöflum, verði það, fyrir hvað er hægt að framleiða þær. Því að ég er ekki í vafa um það, að Íslendingar muni vilja vinna að því að framleiða sjálfir handa sér þær kartöflur, sem þeir þurfa að borða yfirleitt. Þess vegna sýnist mér það .muni breyta ákaflega litlu í málinu, hvort þessi till. frá hv. 2. þm. Árn. verður samþ. eða ekki.

Þá kom fram aths. frá hv. þm. Barð. og hæstv. fjmrh., aths. við 2. mgr. 5. gr., þar sem segir, að innflutta garðávexti megi aldrei selja lægra verði en innlenda, miðað við sama tíma og sömu gæði. Ég skil nú þetta þannig, að ekki sé ætlazt til, að innflutt jarðepli keppi við innlenda framleiðslu. Ég skal ekki segja, hvort árekstrar kunna að verða og einhverjum kunni að þykja ódýrara, svona reiknað í krónum, að flytja inn kartöflur. En er það ekki svo um fleiri vörur? Hvernig er það með ameríska smjörið? Hér er sagt, að það sé nokkuð miklu ódýrara en það íslenzka. En ég geri samt ráð fyrir, að við höldum áfram að framleiða mjólk og smjör. Og ég verð að telja, að í framtíðinni verði gáð að því, að innflutningur á kartöflum standi ekki í vegi fyrir því, að Íslendingar framleiði handa sér kartöflur. Því að þótt undanfarið hafi hver hönd haft nóg að gera, þá getur einhvern tíma seinna þótt fyllilega þess vert að framleiða handa sér þann matarrétt, sem sennilega er oftast á hvers manns borði í landinu.

Ég get ákaflega vel fallizt á þá uppástungu frá hv. þm. Barð., að umr. verði frestað og landbn. athugi þessi atriði til morguns. Hins vegar finnst mér ekki, að ég sjái í bili fram á neina hættu af þessum innflutningi, að öðru leyti en því, sem kann að rekast á einhverjar ráðstafanir um verðlagsákvarðanir. En þær ákvarðanir býst ég við, að lagi sig eftir þessu. Og satt að segja man ég aldrei eftir því í seinni tíð, að útlendar kartöflur hafi verið seldar lægra verði en innlendar. Þær eru venjulega fluttar inn síðari hluta sumars, áður en náð er í innlenda framleiðslu.

En ég get fallizt á að athuga málið til morguns.