17.03.1943
Efri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Þetta frv. og þessar brtt., sem hér liggja fyrir, þyrftu nánari athugunar við og þá einkum þau atriði, sem deilt er um. Það er þá fyrst og fremst sú skoðun, sem kemur fram í brtt. hv. 2. þm. Árn., að fyrst og fremst beri að taka tillit til framleiðslukostnaðar við verðskráninguna, en að jafnframt skuli hafa hliðsjón af markaðsverði í nálægum löndum að viðbættum innflutningskostnaði. Þetta minnir á ákvæði, sem haft var í landinu um verðákvörðun á síldarmjöli og var með svipuðum hætti. Svona ákvæði hlýtur alltaf að verða erfitt í framkvæmdinni, þar sem aðallega á að taka tillit til eins atriðis, en svo jafnframt að hafa hliðsjón af öðru óskyldu. Með þessu móti gæti farið svo, að framleiðendur fengju framleiðslukostnað sinn alls ekki greiddan, því að það er ekki eina sjónarmiðið, sem á að taka tillit til, heldur á einnig að hafa hliðsjón af öðru. Viðvíkjandi því, sem ég minntist á síldarmjölið, þá var það alveg óframkvæmanlegt þar að hafa þannig tvö gagnstæð sjónarmið. Segjum, að framleiðslukostnaðarverð hér væri 20 kr. pr. 100 kg, en 15 kr. í nálægum löndum, — á þá að ákveða verðið 18 kr. eða 19 kr.? Það er bersýnilega ekki hægt að ganga frá þessu ákvæði svona.

Þá er það ákvæðið í niðurlagi 5. gr. frv., sem er mjög athugavert. Það gæti t.d. orðið hér uppskerubrestur, þannig að framleiðslukostnaðurinn gæti farið upp í 50 kr. pr. 100 kg í stað 10 –20 kr. Þá gæti það farið svo, að verð á kartöflum yrði 50 kr. pr. kg, og þá má ekki kaupa kartöflur inn í landið nema selja þær sama verði og þær innlendu. Það hafa verið til sams konar ákvæði annars staðar, og þau hafa ekki getað staðizt, og þau munu ekki heldur geta það hér. Hins vegar ættu innfluttir garðávextir að vera seldir hér sama verði og framleiðslukostnaður hér væri miðað við sæmilegt árferði. Það er einmitt þetta, sem þarf að miða við, því að þótt innkaupsverð á innfluttum kartöflum yrði lægra en það verð, sem yrði að setja á þær vegna innlendu framleiðslunnar, þá er það ekki nema eðlilegt, að hagnaðurinn gengi til Grænmetisverzlunar ríkisins, sem einmitt vinnur að því að gera þessar vörur ódýrari og verzlun með þær greiðari. Það kemur líka fram í 2. gr. frv., að Grænmetisverzlun ríkisins hefur allan hagnaðinn af þessari verzlun. Í því sambandi, að mönnum þætti of langt gengið að hafa niðurlagsákvæði 5. gr. eins og það nú er, þá má segja, að það gæti ekki talizt ósanngjarnt að hafa það þannig, að ekki mætti selja innflutta garðávexti lægra verði hér heldur en framleiðslukostnaðarver ð hér væri, miðað við sæmilegt árferði. Þá væri ekki hægt að segja annað en, að þetta ákvæði væri hættulaust. Í því sambandi má benda á það, ef nokkur framleiðsla hér á Íslandi er að komast í það horf að vera rekin með nýtízku sniði, þá er það einmitt garðyrkjan. En það er líka sérstakt við þessa framleiðslu, að það hefur verið settur á stofn sérstakur skóli til þess að kenna mönnum hagnýtar aðferðir við garðyrkju. Það er og vitað mál, að vegna þess hve mjög þessi framleiðsla hefur aukizt á síðustu árum, hafa verið tekin upp við hana alveg nýtízku vinnubrögð. Miðað við það, að verðlag á innlendum markaði sé ákveðið í samræmi við nýtízku þekkingu og vinnuaðferðir, þá mun alveg hættulaust að hafa ákvæði í l., um að ekki megi selja innflutta garðávexti lægra verði en framleiðslukostnaðarverði hérlendis miðað við sæmilegt árferði. En það ákvæði, sem nú er í niðurlagi 5. gr., held ég, að geti tæpast staðizt, því að það gæti komið svo mikill uppskerubrestur, að framleiðslan yrði úr hófi dýr. Það ættum við að þekkja frá gamalli tíð.

Ég álít því, að vegna þeirrar brtt., sem hafa komið fram, ætti landbn. að taka málið til nýrrar athugunar.