19.12.1942
Neðri deild: 22. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Einar Olgeirsson:

Það er ekki nema rétt að styðja viðleitni hæstv. ríkisstj. að vinna gegn dýrtíðinni. Við sósíalistar höfum lýst yfir því, að við munum styðja það, sem vel er gert í þessu efni, hvaða ríkisstj. sem fyrir því gengst. En mig langar til að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. fjmrh. Það gladdi mig að heyra yfirlýsingu hans um það, að hann mundi ekki grípa til þess ráðs að greiða fé úr ríkissjóði til að bæta upp halla, er kaupsýslumenn eða aðrir kynnu að verða fyrir af l. þessum. En hvernig á hins vegar að koma í veg fyrir, að þeir þrjózkist við að láta af hendi vörur, ef þeir telja gengið á hlut sinn með 1.? Það er ekki víst, að til vandræða komi af þessum sökum, en hins vegar væri gott að fá að vita, hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst að fara að, ef svona færi. Tökum olíuna til dæmis. Vertíð fer nú í hönd, og heyrzt hefur, að í ráði hafi verið að hækka olíuverðið. Hvaða ráð ætlar hæstv. stj. að hafa til að tryggja það, að olía fáist?

Þá er hætta á því, að birgðir minnki í landinu, ef hámarksverð er sett, menn geri ekki ráðstafanir til að kaupa inn í landið vörur, eftir því sem birgðir ganga til þurrðar. Hvað vill hæstv. stj. gera til að sporna við þessari hættu?

Þá getur verið nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að hindra, að vörur verði teknar úr umferð. Eins og menn vita, þá getur það komið fyrir, þegar gripið er inn í viðskiptalífið af því opinbera, að kaupmenn hætti að selja, og geymi vörurnar, eð jafnvel að það skapist svonefndur „svartur markaður“, en það er, að kaupmenn selji óleyfilega utanbúðar við hærra verði en heimilt er, en fólk kaupi heldur vöruna því verði en að fá hana ekki. Það er sjálfsagt að gera sér grein fyrir því, hverjum brögðum kann að þurfa að beita til þess að þessi nýju lög nái þeim árangri, sem ætlazt er til.

Þá vildi ég heyra, hvort ríkisstj. hefur gert sér ljóst, að komið getur til þess, að framleiðsla ýmissa innlendra vörutegunda verði stöðvuð. Við vitum, að atvinnurekendur gætu haldið því fram, að þeir geti ekki haldið atvinnurekstri áfram, nema þeim væri greiddur styr kur. Ef þetta kæmi fyrir núna, finnst mér engin ástæða til að láta undan slíku. Það þyrfti að gera ráðstafanir til þess að sjá um, að slíkur atvinnurekstur gengi samt sem áður. Ég vil aðeins vita, hvort ríkisstj. hefur gert sér grein fyrir því, að hún kann að þurfa að gera ráðstafanir gagnvart þessum og öðrum mögulegum erfiðleikum, sem af verðlækkuninni kynnu að leiða.