19.02.1943
Neðri deild: 62. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

117. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Að undanförnu hefur nokkur hluti af innflutningsgjaldi, sem tekið hefur verið af benzíni, einn eyrir af hverjum lítra, verið lagt í svokallaðan brúasjóð, og var sá sjóður stofnaður til þess að standa undir kostnaði við byggingu brúa, og þá fyrst og fremst brúa yfir hin stærstu vatnsföll, sem enn eru óbrúuð. Í þessu frv. er lagt til, að framvegis verði lagðir í þennan sjóð tveir aurar af hverjum lítra af því innflutningsgjaldi, sem tekið er af benzíni. Það er ekki til þess ætlazt í þessu frv., að nein breyt. verði á innflutningsgjaldi af benzíni, það telzt jafnhátt og áður, aðeins er lagt til, að meira af því fari í þennan sjóð heldur en áður hefur verið. Fjhn. þessarar d. hefur haft frv. til athugunar, og eru nm. sammála um að leggja til, að það verði samþ., þar sem það virðist þörf á því að leggja meira fé til þessa sjóðs heldur en gert hefur verið nú að undanförnu. Ég vil því óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.