11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

93. mál, hafnarlög fyrir Húsavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég var að fletta hér upp í lögum nr. 38 frá 1933 og sé, að þetta er hækkun úr 400 þús. kr. framlagi upp í eina millj. króna og hækkun á ábyrgð úr 600 þús. kr. upp í rúmlega 2 millj. kr. Vegna þess nú, að ég býst við, að þetta mál fari til sjútvn., þar sem ég á sæti, vildi ég spyrja, hvort nokkuð liggi fyrir um fjárhagsafkomu hafnarinnar síðan 1933, þannig að hægt sé að gera sér hugmynd um, hvernig höfnin geti staðið undir þeim skuldbindingum, sem hún tekur á sig, því það er talsvert mikið atriði, hvernig mannvirki ber sig, eftir að búið er að setja í það 3 millj. kr. Þetta eru nauðsynlegar upplýsingar fyrir þá menn, sem eiga að leggja til, hvort þetta skuli gert eða ekki, ef taka á tillit til fjárhagsafkomu fyrirtækisins. Hitt er annað atriði, hvort þetta er svo mikil þjóðarnauðsyn, að ekkert tillit eigi að taka til kostnaðar. Ég man eftir, að þegar rætt var um hafnarmannvirki í sumar, kom það upp, að Sauðárkrókur hefur fengið mikið fé til slíkra hluta og á nú ómögulegt með að rísa undir þessu, nema settur verði upp stórrekstur til þess að standa undir því, og á sama tíma þarf að byggja stóra höfn á Húsavík, til þess að hægt sé að setja þar upp stórt mannvirki.

Ég er ekki á móti þessu, en ég vildi vita, hvernig þetta væri og hvernig hreppurinn hugsaði sér að standa undir sínum hluta af kostnaðinum, þ.e. 3/5 hlutum af upprunalegu upphæðinni.