19.12.1942
Neðri deild: 22. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Ólafur Thors:

Ég tel, að ákvæði þessa frv. eins og það liggur fyrir geti ekki talizt stórvægilegt spor í þá átt, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj., að stöðva dýrtíðina. Ég hygg einnig, að á því séu vissir annmarkar, sem ég fyrir mitt leyti á erfitt með að sætta mig við. Hæstv. ríkisstj. telur sjálf, að þetta sé aðeins fyrsta sporið á þeirri braut, sem hún vill leggja út á og við sjálfstæðismenn höfum að vísu sterka tilhneigingu til að fylgja henni á. Ég vildi aðeins bera fram þá ósk, að frv. yrði vísað til fjhn., til þess að þau atriði, sem hér koma fram, geti fengið nánari rannsókn, án þess þó að þurfa að tefja það, að frv. fái afgreiðslu á þingi í dag. Hæstv. fjmrh. hefur tekið fram, að því sé ætlað að gilda aðeins til febrúarloka. Í sjálfu frv. segir þó aðeins, að það gildi „þar til nánar verður ákveðið“. Mér skilst, að í þeirri tilk., sem ríkisstj. hefur íhuga að gefa út, muni þetta verða tekið fram. Ég býst við, að þetta frv. komi til með að sæta andmælum frá víssum þjóðfélagsstefnum, sem álita, að gengið sé á hluta þeirra. Ég vil mælast til þess, ef það er ætlun hv. ríkisstj., að frv. gildi aðeins til febrúarloka, að þá sé það tekið skýrt fram, til þess að draga úr óánægju þeirra, sem sérstaklega munu telja sig hafa óhagnað af því.

Ég vil enn fremur beina þeirri fyrirspurn til hv. fjmrh., hvort hann hafi hugsað sér að sjá við vandkvæðum, sem gætu hlotizt af því, ef iðnrekstur, t.d. viðgerð skipa verður að hækka laun samkvæmt vísitölunni, en fær ekki að hækka vinnukostnaðinn. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta á þessu stigi málsins, en vil aðeins benda á, að það hefur verið venja, að þau frv., sem ríkisstj. hefur óskað að gengi hratt, hafa gengið til nefndar. Það þarf ekki að tefja fyrir málinu, enda er það ekki ósk okkar sjálfstæðismanna, heldur hitt, að það geti fengið sem skjótasta afgreiðslu, helzt í dag, laugardag, þannig, að þegar verzlanir opna á mánudaginn, geti reglugerðin legið fyrir.