19.02.1943
Neðri deild: 62. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

51. mál, virkjun Fljótaár

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eins og menn vita um það, að ríkissjóður taki ábyrgð á 6 millj. kr. láni fyrir Siglufjarðarbæ til þess að virkja Skeiðsfoss. Á sumarþinginu lágu fyrir beiðnir um ábyrgðir upp á 27 millj. kr., en fyrir þessu þingi liggja kröfur til sömu hluta upp á 23 millj. kr., og þó má segja, að þetta sé í rauninni aðeins byrjunin, því að um leið og byrjað er á því að veita ábyrgðir til þessara hluta, má gera ráð fyrir því, að mjög margir komi á eftir í því skyni að fá slíkar ábyrgðir, því að þörfin er brýn hvarvetna á landinu. Það má því segja. að hér sé um að ræða, þegar byrjað er að ganga út á þessa braut, eitthvert allra stærsta fjárhagsmál, sem fyrir liggur í væntanlegu framkvæmda- og umhótakerfi okkar þjóðar. Ábyrgðir, sem nú hvíla á ríkissjóði, voru í árslok 1940 um 80 millj. kr., og á tveim s.l. árum hefur verið gengið í ábyrgðir fyrir 1100000 kr. Af þessu eru ábyrgðir vegna rafvirkjana og hitaveitu 211/2 millj. kr. Stundum hafa verið háðar harðar deilur um það, hvort ganga ætti í slíkar ábyrgðir, og jafnvel á einum tíma stofnað til þingrofs út af 6 millj. kr. ábyrgð fyrir Reykjavíkurbæ. En þegar við lítum á það, að með þessu frv. er farið fram á 6 millj. kr. ábyrgð, aðeins fyrir Siglufjarðarbæ, þá svarar það til þess, að það væri gengið í 11 millj. kr. ábyrgð fyrir Akureyri eða 80 millj. kr. ábyrgð fyrir Rvík, miðað við fólksfjölda. Menn sjá því, að hér er um risavaxið mál að ræða, ef haldið yrði áfram á þeirri braut að virkja með svipuðum hætti allar byggðir landsins, sem margir gera ráð fyrir. Það er þess vegna augljóst mál, að áður en farið er út á þessa braut, þá verður að rannsaka það svo rækilega og með svo mikilli nákvæmni sem unnt er, á hvern hátt er hægt að koma því til leiðar, að sem flestir landsmanna verði aðnjótandi þeirra þæginda, sem hér er um að ræða, með sem minnstu fé. Nú er það svo, að minni hl. fjhn. leggur til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, en við, sem skipum meiri hl. n., leggjum til, að það verði afgr. með rökst. dagskrá, og rannsakað betur, á hvern hátt hægt sé að fullnægja raforkuþörf, ekki eingöngu Siglufjarðar, heldur og annarra þeirra byggða, er þar liggja næst. Eins og hv. þdm. hafa veitt eftirtekt, liggur nú fyrir Alþ. frv. um að taka ábyrgð á 2 millj. kr. til virkjunar fyrir Sauðárkrók, þar sem ætlazt er til, að Gönguskarðsá verði virkjuð. Í þriðja lagi liggur hér fyrir till. um að rannsaka, á hvern hátt fullnægja megi raforkuþörf Dalvíkur og annarra byggða vestan Eyjafjarðar. Nú hefur sú mþn., sem starfað hefur að því að athuga raforkumál landsins í heild, byrjað á að fá áætlanir varðandi þessa hluti, og hún hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að það mundi verða hagfelldast, að allir þessir staðir, sem hér um ræðir, Dalvík og aðrar byggðir vestan Eyjafjarðar, Sauðárkrókur og önnur þorp í Skagafirði og Siglufjörður, fái raforku með þeim hætti, að háspennulína verði lögð um þessa staði frá Laxárvirkjuninni, eftir að hún hefur verið stækkuð. Samkvæmt þeirri áætlun, sem gerð hefur verið um þessa hluti, þá verða leiðslur og spennistöðvar um þessi svæði lítið eitt eða ekki dýrari heldur en verða mundu raforkuveitur fyrir Siglufjörð og Sauðárkrók eingöngu. Hér er, eins og menn sjá, um flókið mál og víðtækt að ræða. Þess vegna er fullkomin ástæða til að fara varlega, áður en ráðizt er í framkvæmdir, og þess vegna vill meiri hl. fjhn. ekki láta samþykkja þetta frv., án þess að það verði rannsakað til hlítar, hvort ekki er hægt að fullnægja raforkuþörfinni á ódýrari og heppilegri hátt heldur en með því að taka nú út úr Siglufjörð einan og láta hina staðina eiga sig. Eins og menn sjá, þá er það ekki ætlun okkar, meiri hl., að hamla því, að Siglufjörður fái rafmagn, því að það er auðvitað nauðsynlegt fyrir þennan bæ að njóta þeirra þæginda, sem af því stafar. En við viljum láta athuga betur en enn hefur verið gert, hvort ekki er rétt að fara inn á þessa leið, sem hér er á bent, áður en gengið er að því að virkja Skeiðsfoss fyrir Siglufjarðarbæ einan.

Ég sé ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að mæla um þetta miklu fleiri orðum. Í nál. okkar meirihlutamanna eru tekin fram þau atriði, sem þarna koma til greina frá okkar sjónarmiði. Og um það verða að sjálfsögðu atkvæði að skera úr, hvort menn vilja nú þegar samþykkja þessa ábyrgðarheimild og láta svo skeika að sköpuðu, hvernig fer um rafmagnsframkvæmdir að því er snertir hina staðina, sem bíða eftir því að fá rafmagnið. Það er að vísu vert að minnast á það, að það virðist vera svo, að það séu að myndast um það tvær stefnur, hvernig skuli fara að með það að fullnægja rafmagnsþörf landsmanna. Önnur stefnan er sú að virkja fyrir kaupstaðina og þéttbýlustu staðina aðra og láta svo skeika að sköpuðu um það, hvort hægt er að fullnægja rafmagnsþörf sveitanna eða ekki. Hin stefnan er sú að láta athuga rafvirkjunarmálið í einu lagi fyrir allt landið í heild og reyna að koma rafvirkjunarmálunum í kerfi þannig, að jafnhliða því, sem virkjað er fyrir þéttbýlið, þá séu sveitirnar teknar með og þeim veitt rafmagn jafnframt því, sem þéttbýlið fær það, að svo miklu leyti sem unnt er vegna strjálbýlis. Og hve langt er hægt að ganga í því, er mál, sem er meira rannsóknarefni en svo, að það liggi ljóst fyrir, eins og nú standa sakir.

Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri að sinni, en óska eftir því, að sú dagskrártill., sem meiri hl. fjhn. hefur lagt fram, verði samþ. og málið athugað betur, áður en ráðizt er í að framkvæma það á þann hátt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.