18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

Rannsókn kjörbréfa

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég hef ekki margt að segja umfram það, sem ég sagði í gær. Mergurinn málsins er sá, að í vasa hv. þm. V.- Húnv. er vélritað blað, undirskrifað af manni, sem í dag er orðinn þjóðkunnur af hinni fögru lýsingu formanns Framsfl., og þar bornar fram gróusögur, sem nú þegar eru að mestu leyti skjallega hraktar. Út af þessu kemur annar stærsti fl. þingsins og segir: Þetta skal valda því, að Snæfellingar verði umboðsmannslausir. Það er ekki eyðandi orðum að þessu. Það er Alþ. til vansa, að Framsfl. skuli látast tala í alvöru, þegar hann á þessum grundvelli vill fresta að taka kosninguna gilda. Setjum nú svo, að heyrzt hefði, að Jón Hallvarðsson hefði verið í þessu kjördæmi með brennivín, Jón Jónsson í öðru kjördæmi og Pétur Pálsson í hinu þriðja, og Passíusálmunum dreift út um allt, og Sjálfstfl. hefði sagt: Það má ekki taka gilda kosningu fyrr en við vitum, hvort þetta er satt. Hvar er þá komið öryggi þingsins og öryggi lýðræðisins sjálfs, ef hægt væri að eyðileggja kosningar með slíkum brögðum?

Formaður Framsfl. lýsti Kristjáni þessum Jenssyni glæsilega. Annað veit ég ekki um manninn. Formaðurinn segir, að hann hafi verið í innsta hring Sjálfstfl. Gaf ekki lýsing hans til kynna, að maðurinn væri svikari?

Varðandi síldarmjölstal hv. þm. vil ég segja, að ég vildi óska, að umr. yrðu um síldarmjölsmálið. Búnaðarmálastjóri vildi, að ríkisstj. hlutaðist til um, að haldið yrði eftir 6000 smál. af síldarmjöli. En ríkisstj. tryggði nærri tvöfalt það magn. Að eftirspurn bænda varð svo enn meiri, er ekki hægt að leggja ríkisstj. til lasts, heldur þvert á móti. Ég endurtek það, að útgerðarfélag það, sem um er að ræða, hefur um mörg undanfarin ár sent bændum síldarmjöl, og er engin furða, þó að það ykist á þessu ári, þar sem eftirspurnin jókst svo mjög.

Það er nú komið fram staðfest vottorð frá konu, sem í þessu fræga bréfi er sögð mútuþegi, um, að enginn hafi boðið henni mútur nokkru sinni. En formaður Framsfl. segir þá: Konan er lygari, hann Kristján veit, að hún þáði mútur. Þarna er ekki verið með illmælgi í garð kjósenda. Rógberanum ber að trúa, og í tilbót á að ljúga því upp á konuna, að hún gefi falsvottorð.

Ég hefði gaman af því, að Gunnar Thoroddsen og formaður Framsfl. færu saman í kjördæmi, þar sem mjóu munaði, t.d. í Vestur-Skaftafellssýslu eða Dalasýslu. Þá væri hægt að sannprófa, hvor glæsimennskan sigraði.

Ég ætla að enda þessi fáu orð mín með því að segja gamansögu. Kaupmaðurinn Zimsen hafði verkstjóra, gamlan og reyndan sjálfstæðismann. Zimsen kom til hans og bað hann að draga fánann við hún, — það var danski fáninn. Þá sagði þessi góði og mæti sjálfstæðismaður: „Bara ekki þetta, Zimsen.“ Og ég segi nú við þennan ágæta formann Framsfl., þegar hann kemur til mín og biður míg endilega að gera þetta og þetta í krafti fortíðarinnar: „Nei, bara ekki þetta, Zimsen.“