19.02.1943
Neðri deild: 62. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

51. mál, virkjun Fljótaár

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Þau mótmæli, sem hér hafa komið fram frá hv. frsm. minni hl. og frá hv. 11. landsk. (STh) gegn þeirri dagskrá, sem meiri hl. fjhn. hefur flutt hér, eru í nokkuð mörgum liðum, og skal ég, eftir því sem tími vinnst til, víkja að örfáum þessum mótmælum.

Það, sem frsm. minni hl. lagði ríka áherzlu á, var það, að það væri eðlilegt að samþykkja þetta frv., vegna þess, hvernig á stæði og vegna þess, að byrjað væri á undirbúningi, og enn fremur vegna þess, að gefin hafi verið loforð varðandi þessa virkjun á síðasta þingi. Þessu er því til að svara, að frsm. minni hl. hefur að því leyti rétt fyrir sér, að byrjað mun vera á undirbúningi í þessu efni og að það munu hafa farið fram mjög mikil samtöl milli einstakra þm. og forráðamanna Siglufjarðarbæjar um það, hvort þessi ábyrgð fáist. En ég vil segja það, að við, sem skipum meiri hl. fjhn., erum engum loforðum bundnir og viljum ekki samþykkja ábyrgð, sem við teljum ekki eðlilega, byggða á loforðum annarra manna, nema við getum sannfærzt um, að með því verði ekki komið í veg fyrir aðra heppilegri lausn á því stórmáli, sem hér er um að ræða. Þetta er atriði, sem þeir bera ábyrgð á, sem loforðin hafa gefið, en ekki við, sem andmælum frv. á þessu stigi málsins.

Hitt er annað mál, sem þarf að taka til athugunar, hve langt er komið undirbúningi á framkvæmdum um þessa virkjun. Það er satt, að það er byrjað á undirbúningi í þá átt að panta efni til þess að virkja, en það er svo, bæði um þetta efni, vélar og annað, sem til rafvirkjunar þarf, að það er í óvissu, hvort og hvenær það fæst, og það því miður. Ég hygg því, að það sé ekki mjög mikið tjón, sem af því leiðir, að horfið verði inn á aðrar leiðir í þessu máli, ef menn sannfæra sig um, að þær séu hyggilegri.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. minni hl. tók fram um það, að það væri meiri nauðsyn á raforku til Siglufjarðar, vegna þess hve mikill iðnrekstur væri þar, þá er það rétt, enda dettur engum í hug annað en að þangað komi raforka svo fljótt sem kostur er, en við viljum taka annað með, ef það er hægt og ef ekki eru fyrir það þeir annmarkar á, að ekki sé þeirra vegna hægt að fullnægja raforkuþörf Siglufjarðar. Þá kemur að því ágreiningsefni, sem um er að ræða og kom fram í ræðu hv. 11. landsk. (STh) og er það, hvort gengið skuli inn á það að virkja einungis þar, sem virkjun geti borgað sig, og láta hitt eiga sig að mestu eða öllu leyti. Þetta eru hin tvö mismunandi sjónarmið, því að það er rétt, sem kom fram í ræðu frsm. minni hl. og var endurtekið í ræðu hv. 11. landsk. að það dettur engum í hug, hvorki meiri hl. fjhn. eða öðrum, að hægt sé að virkja allt strjálbýli landsins og leiða rafmagn inn á hvern bæ upp á það, að bændur, sem á þessum strjálu býlum búa, kosti það sjálfir. Ef það, eins og talað hefur verið um, mundi kosta 16–17 þús. kr. á heimili, er ekki hægt að hugsa sér, að þetta verði gert án aðstoðar ríkisvaldsins, og einmitt vegna þess, að aðstoðar ríkisvaldsins þarf til og það í stórum stíl, þá er nauðsynlegt að leysa þetta mál, ekki eingöngu hvað Siglufirði við kemur, heldur um allt landið, á þann hátt, að sem allra flestir geti notið hvers þess orkuvers, sem reist er.

Um það, sem hv. frsm. minni hl. sagði í þessu sambandi, skal ég ekki fara fleiri orðum, en víkja örlítið og lauslega að nokkrum atriðum, sem komu fram í síðustu ræðu hv. 11. landsk. Ég hef þó ekki ástæður til að fara út í þá útreikninga, sem hann var með. Hann vildi gera athugasemd við það, sem kom fram í nál. okkar meir í hl. manna um það, að þar, sem rafmagnið sé og þægindin, vilji fólkið vera; þar, sem það sé ekki, vilji það ekki vera, og hann hélt því fram, að það yrði það að hafa a.m.k. næstu áratugina. Í því sambandi minntist hann á það, að það væri svo dýrt að koma rafmagninu út um sveitirnar, að það væri ókleift þeim, sem búa þar, að kosta það að öllu leyti. Ég geng inn á þá röksemd og við, sem erum í meiri hl. fjhn. og mþn. í raforkumálum, að til þess að koma rafmagninu inn á heimilin verði að leggja fram fé í stórum stíl, og þess vegna er nauðsynlegt að taka sem mest af þeim heimilum, sem eru nærri kaupstöðunum, um leið og virkjað er fyrir kaupstaðina og láta hvað njóta annars, ekki með því að hækka rafmagnið mikið frá því, sem það er fyrir kaupstaðina, heldur með því að láta strjálbýlið sem mest njóta þeirrar aðstöðu, sem kaupstaðirnir hafa með að virkja í stórum stíl og leiða á milli.

Ég get ekki í þessu sambandi, ófróður maðurinn, sagt um það, hvort heppilegra muni verða að virkja í stórum stíl á fáum stöðum á landinu eða virkja á mörgum stöðum og hafa svæðin lítil, sem orkunni er veitt um. Ég geri ráð fyrir, að í flestum sýslum landsins séu fallvötn, sem hægt er að virkja og nota, og það er sjónarmið fyrir sig, sem kemur fram í því, ef virkja á Skeiðsfoss fyrir Siglufjörð og ekki hugsa um neinn annan. Hitt sjónarmiðið er það, að heppilegra sé að virkja á 5–6 stöðum á landinu, þar sem bezt er að leiða frá orkuverunum um landið allt, og þegar verið er að bera saman kostnaðinn við þetta tvennt, að leiða á milli og virkja, held ég, að það sé stórt atriði, með hverjum hætti reksturinn á þessu fyrirtæki verði ódýrastur og öruggastur. Það er atriði, sem við í meiri hl. fjhn. álítum, að verði að taka til greina, og við erum sannfærðir um, að reksturinn verður ódýrari með því, að hafa fáar virkjanir og öruggari á þann hátt, því að með stórvirkjunum er hægt að fela eftirlitið fagmönnum og hafa það betra heldur en ef miðað er við smávirkjanir. Þetta og öll önnur atriði. sem þarf að gera sér grein fyrir, teljum við ekki nægilega athuguð til þess, að hægt sé að slá föstu að fara inn á þessa braut.

Ég vil þá svara að nokkru þeim ásökunum, sem komu fram hjá síðasta ræðumanni í garð mþn. í rafmagnsmálum. Ég held, að hann ætti að athuga, hvað hann er að segja, þegar hann heldur því fram, að n. hafi falsað upplýsingar frá fagmönnum og sérfræðingum í bréfi til fjhn. Það er ekki fölsun í upplýsingum, þó að ekki sé tekið fram allt, sem kemur til greina í þessu sambandi. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að ekki er tekinn með í þessa áætlun sá kostnaður, sem leiðir af hluttöku í byggingu Laxárstöðvarinnar og hluttöku í háspennulínu til Akureyrar. Laxárstöðina þarf að reisa, og á Akureyri þarf að reisa spennistöð, og ef athugað er frá sjónarmiði allra landsmanna, hvað þarf að reisa og hvað ekki, býst ég við, að ekki verði deilur um það, að það er hagkvæmt fyrir Eyjafjörð að fá allt rafmagn sitt frá Laxárstöðinni, og hana þarf að auka bæði fyrir Eyjafjörð og Þingeyjarsýslu, þótt ekki verði leitt til Siglufjarðar og Skagafjarðar, og hvort sem virkjað er að stærra eða minna leyti, en það er þar alveg eins og með Siglufjörð, að eftir því sem orkuverið er stærra, eftir því verður kostnaðurinn minni á hvert hestafl.

Hv. 11. landsk. vildi halda því fram og kallaði sannað, að sérfræðingarnir vildu sverja af sér að hafa gert þær till., sem hann var hér með. Ég vil ekki trúa því á þá menn, sem n. talaði við, þá Ólaf Tryggvason og Steingrím Jónsson, að þeir sverji af sér að hafa gefið upp, hvað virkjun kostaði á hverjum stað. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á og ekki fyrr en kemur vottorð frá þessum mönnum um, að þeir sverji af sér að hafa gefið þessar upplýsingar. Þegar um er að ræða menn, sem ófróðir eru á þessu sviði eða öðru, verða þeir að vinna úr því, sem fagmenn leggja fram án þess þó að fullyrða að það, sem sérfræðingurinn segir, að sé rétt. Maður, sem ætlar að byggja hús, fær áætlun um það, hvað það kostar að byggja hús þetta og þetta stórt, úr timbri, úr steini eða öðru efni. Hann er ekki skyldugur til þess að fara eftir því, sem sérfræðingarnir segja, en hann verður að taka tillit til þeirrar áætlunar, sem fagmaðurinn gerir. Hér gerist það sama. Tekið er til greina það, sem fagmennirnir segja um kostnaðinn, en við erum ekki skyldugir til að taka til greina, þótt fagmaður segi: „Við eigum að virkja á þessum stað en láta þennan eiga sig.“ Og það er deiluatriðið, hvort það eigi að virkja fyrir marga staði eða koma upp raforkuverum hingað og þangað, og mér skilst, að það sé sú stefna, sem ríkjandi er hjá þeim, sem fyrst og fremst hugsa um hagsmuni kaupstaðanna. Hv. 11. landsk. hélt því fram, að það ætti að virkja fyrir þéttbýlið og sveitirnar yrðu að eiga sig, og var á honum að heyra, að hann væri á móti því, að lagt yrði í slíkt. Svigurmæli hans um fjhn., falsanir og annað, eru atriði, sem ekki er í svipinn hægt að afsanna, en mér þykir það undarlegt af honum að fara að grípa til þessa án þess að geta sannað, að það sé rétt. Því að það er ekki fölsun að taka ekki atriði, sem öllum eru ljós og hljóta að koma til greina, eins og að það þurfi að gera ráð fyrir hluttöku í Laxárstöðinni og hluttöku í þeirri línu, sem liggur til Akureyrar.

Að öðru leyti þarf ég ekkert sérstakt að taka fram að svo stöddu, enda fundartími liðinn. Ég held, að enginn okkar í meiri hl. fjhn. slái neinu föstu, að endilega sé víst, að fara eigi þessa leið og ekki aðrar. Okkur vantar frekari rannsóknir til þess, en teljum hana svo mikið athugunarefni, að við viljum láta Alþ. gera ráðstafanir til, að þeir menn athugi hana, sem bezt er til treystandi, áður en Alþ. afræður að ábyrgjast lán fyrir Siglufjörð einan, þar sem lítið virðist enn reka eftir (ÁkJ: Vélarnar koma núna í apríl. Símskeyti um það barst í gær). Það er alveg ný vitneskja, sem gæti breytt nokkru, því að eftir gögnum, sem fjhn. fékk, var ekki vitað, hvort þær yrðu komnar í apríl 1944. Ég mun svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni.