26.02.1943
Neðri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

51. mál, virkjun Fljótaár

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. — Eins og fram hefur komið af þeim umr., sem orðnar eru um þetta mál, greindi fjhn. á um afgreiðslu þess. Minni hl. n., hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. 2. þm. Reykv. (EOl), leggur til, að frv. verði samþ. En meiri hl. n. leggur til, að það verði afgr. með rökst. dagskrá. Það, sem hv. minni hl. n. færir til fyrir till. sínum um, að frv. verði samþ., er fyrst og fremst það, að Alþ. hafi áður samþ. l. um virkjun Fljótaár; með þeirri lagasetningu hafi Alþ. í raun og veru skuldbundið sig til fyrirgreiðslu um, að þessi virkjun geti átt sér stað, og hafi tekizt þessa kvöð á herðar, þannig að það geti ekki skorazt undan að veita Siglufirði þann stuðning, sem til þess þurfi að koma verkinu í framkvæmd. Svo djúpt er tekið í árinni hjá hv. minni hl. fjhn., að hann telur það, að ef Alþ. ekki veiti nú þessa ábyrgð, væri það að hindra kaupstaðinn í virkjuninni. Þetta er hálf-kyndug röksemdafærsla og mundi þurfa frekari skýringa við. Ég veit ekki betur en Siglufjarðarkaupstaður sé farinn að virkja Fljótaá og þannig að framkvæma virkjunina. Og ef Siglufjarðarkaupstaður þarf ekki að leita til Alþ. um ábyrgð eða fjárhagslegan styrk til þess að koma verkinu í framkvæmd, þá er Siglufjarðarkaupstaður frjáls að því að framkvæma þetta mannvirki. Á þetta bendi ég til þess að vekja athygli manna á því, hvað menn geta stundum seilzt langt til þess að knýja mál fram, hvað sem málavöxtum líður.

Þá er að því vikið í þessu nál., að af því að ríkið hafi gengið í ábyrgð fyrir lántökum vegna virkjunarkostnaðar annars staðar en á Siglufirði, geti það ekki neitað Siglufjarðarkaupstað um þessa ábyrgð til þessarar framkvæmdar, og það er ekki farið nánar út í það. Eftir þessu ætti í raun og veru að mega standa á sama, hvernig málavextir væru í sambandi við slíkar framkvæmdir, því að þar sem ríkið hefur sett l. um sama efni viðvíkjandi einhverjum öðrum stöðum á landinu, þá ætti það að vera skyldugt til að ganga í ábyrgð fyrir Siglufjarðarkaupstað til þess að koma upp rafvirkjun, hvað svo sem málsatriðum að öðru leyti líður. Ekkert af þessu vil ég viðurkenna. Og ég held, að svona rök séu alls ekki frambærileg öðruvísi en að þeim fylgi einhver nánari grg. um það, hvernig fyrirtækið er. En það er aðeins vikið að því í nál., að fyrirtæki þetta geti borið sig fjárhagslega, en frekar er ekki út í það atriði farið. Það mun vera í þessu sambandi meiningin að skírskota til þess, sem fyrir liggur af hálfu þeirra, sem hafa rannsakað málið, og mun ég koma að því síðar, hvernig því er nú farið.

Hv. frsm. minni hl. n. veik að því, að þessi virkjun á Siglufirði væri hafin, Siglufjarðarbær hefði á s.l. sumri leitað til stjórnmálaflokkanna og fengið fyrirfram loforð um stuðning til þess að framkvæma virkjunina, hjá einhverjum mönnum úr stjórnmálaflokkunum, skildist mér. Svo hefðu þeir þarna nyrðra byrjað verkið í þeirri trú, að þessi stuðningur fengist. Hv. frsm. gat þess, að þetta fyrirtæki væri arðvænlegt og virkjunin mundi verða dýrari, ef virkjað væri annars staðar fyrir bæinn, en virkjun Fljótaár gæti fallið inn í það kerfi, sem æskilegt þykir, að myndað verði um raforkuframleiðslu í landinu. Svo endurtók hv. frsm. það, að þetta fyrirtæki gæti borið sig, og vísaði um það til fagmanns, sem hér ætti sæti í hv. d., sem mundi gefa upplýsingar um málið til stuðnings þessari ályktun, sem mun vera hv. 11. landsk. þm. (STh: Nei, það er annar maður, sem ekki er kominn fram í þessu máli enn). Ég bið þá afsökunar, ef það hefur hent mig, að ég hafi ætlazt til of mikils af hv. 11. landsk. þm. En af því að hann er verkfræðingur og hann tók til máls um þetta mál, hélt ég, að við hann hefði verið átt af hv. frsm. minni hl. n. En mér þykir mjög miður, að sá maður, sem átti að hafa sérþekkingu og kunnugleika á þessu máli, skuli ekki vera búinn að láta til sín heyra. Við því get ég ekki gert, en ég mun þó halda áfram máli mínu. En hvað sem þessu líður, mælti hv. 11. landsk. mjög með samþykkt þessa frv. og var mjög hneykslaður yfir því, að menn skyldu vera til, skildist mér, sem mæltu á móti því að samþykkja þetta frv. Beindi hann orðum sínum aðallega til mþn. í raforkumálum. Og hann sagði, að ef málið væri afgr. samkv. till. meiri hl. fjhn., mundi það verða til þess að tefja fyrir framkvæmdum í málinu um ófyrirsjáanlegan tíma. Hann fór svo ekki nánar út í það. Enn fremur hélt hann því fram, að það hentaði ekki að ætla sér að raflýsa sveitirnar þannig, að raflýstur yrði hver bær. Það væri óframkvæmanlegt og stefndi auk þess til þess að viðhalda dreifbýlinu, „þessu böli íslenzks landbúnaðar“ bætti hann svo víð. Hann sagði líka, að það væri óráðlegt í mesta lagi, af því að fólkið vildi heldur vera þar, sem raflýst væri. — Svo minntist hv. 11. landsk. líka á, hvað kosta mundi að raflýsa hvern bæ í Rangárvallasýslu og fannst það nú mjög mikið og að það mundi ekki bera sig. Og eins og nú er, er það dýrt, það er rétt. Og ef það er svona dýrt, ber það sig ekki fyrst. Hann sagði líka, að ályktun mþn. í raforkumálum byggðist á skökkum forsendum, að allt væri fengið með háspennuleiðslum um sveitirnar og spennuskiptistöðvum. Svo sagði hann í þriðja lagi, að starf mþn. í raforkumálum væri með endemum, n. hefði falsað niðurstöður sérfræðinga, sem hún hefði fengið um þetta mál, og sérfræðingar, hver af öðrum kepptust við að sverja af sér að hafa gefið þær upplýsingar, sem mþn. segði í bréfi sínu, að þeir hefðu gefið. Svo kom hann með skýringu á, í hverju þessi fölsun lægi, og lægi hún í því, að í því bréfi, sem fjhn. hefði birt, væri ekki talað um, hve mikla hlutdeild Siglufjarðarkaupstaður ætti að hafa í kostnaði við stöðvarbyggingu og leiðslu til Akureyrar, og tók fram, að í þessu lægi falsið. Taldi hann svo, að það væru allt staðleysur hjá mþn., sem hún hefði sagt um málið, og sagði, að það bæri að samþykkja frv.; þéttbýlið ætti að fá rafmagnið fyrst, dreifbýlið svo við hentugleika. Þetta munu vera aðalatriði ræðu hv. 11. landsk. þm., í sem fæstum orðum.

Ég vil víkja að fyrsta atriðinu. Hvað hefur þm. 11. landsk. þm. fyrir sér í því, að sú leið, sem bent hefur verið til, að takast mætti, ef annars nokkuð af þessu tekst, að leiða rafmagnið frá Laxárvirkjuninni til Siglufjarðar, muni ekki vera eins góð eins og að virkja við Skeiðsfoss og leiða rafmagnið þaðan til Siglufjarðar? Hvaðan kemur honum vitneskja um það? Ég held, að ekkert liggi fyrir um það, að búið sé að fá það, sem þarf til virkjunar við Skeiðsfoss, nema ef það væri ein vél. Og mér skilst, að svo framarlega sem tæki fást til þessara hluta, þá geti orðið eins fljótt hægt að framkvæma það að leiða rafmagn frá Laxá til Siglufjarðar eins og þó að virkjaður væri Skeiðsfoss. Þar er að vísu mismunur á vegalengdum, en þar er líka mismunur á framkvæmdum. Og það skiptir ekki öllu máli, hver vegalengdin er.

Út í það, sem þessi hv. þm. sagði um sveitirnar, ætla ég ekki mikið að fara. En ekki öfunda ég ungan þm. af að byrja göngu sína og starf, ef hann ætlar að láta slíkt sjónarmið vera ríkjandi í framkomu sinni og till. til opinberra mála. Ég ætla þó að skjóta því að, að þessi hv. þm. lítur öðruvísi á þessi mál hjá okkur heldur en Bretar gera nú í landi sínu, þar sem stórvirkjun var undirbúin í Skotlandi, sem fyrst og fremst var hugsuð fyrir sveitahéruðin, og í hvaða skyni? Til þess að nota strjálbýlið og koma í veg fyrir, að fólkið fær í burt frá starfsemi sinni þar, og til þess að þar gæti aukizt iðnaður, svo að fólkið héldist þar við. Hér á hins vegar að vera böl, eftir því sem þessi hv. þm. og fleiri skoðanabræður hans segja, að strjálbýlinu í landinu, böl fyrir íslenzkan landbúnað og þá sjálfsagt þjóðarböl um leið. Ég þarf ekki að gera því skóna, hvað þessir menn, sem svona tala, þekkja til íslenzkrar sögu og þá sérstaklega að því, er landbúnaðinn snertir, og hvaða augum þeir líta á víðlendi okkar, hvers virði það sé í raun og veru fyrir þjóðfélagið að eiga þær víðu lendur, sem þetta land á. Ég tala nú ekki um þá vizku, sem fram kemur í þessum ummælum, þegar litið er til þess, hversu víða um landið menn hafa bjargazt áður fyrr í hallæri. Hvernig hefði þá farið, ef byggðin hefði verið í hvirfingu á stöku stað? (ÞG: Betur). Á ég nú að fara að kenna hv. 2. landsk. þm. sögu? Þeir, sem ekki vita meira en hann í þessu efni, hefðu gott af að lesa íslenzka sögu, og sérstaklega landbúnaðarsögu.

Hv. 11. landsk. þm. sagði, að við álitum, að allt væri fengið með því að setja upp leiðslur, háspennustöðvar og skiptistöðvar. Hvar er þetta að finna? Ekki í þessu bréfi. Ég veit ekki til þess, að þessi hv. þm. hafi opinberan aðgang að gögnum okkar í n. En þótt svo væri, sem væri honum frjálst, mun hann ekki geta fundið neitt máli sínu sínu til stuðnings um þetta atriði. Þar við bætist, að ýmislegt í þessu máli er á rannsóknarstigi, og okkur dettur ekki í hug að flíka neinu um það, fyrr en það er svo vel undirbúið, að maður geti sagt frá niðurstöðum. Ég veit ekki, hvaðan hv. þm. kemur þetta. Meiri hl. fjhn. birtir bréf frá raforkumálan., þar sem tekin eru tvö dæmi um það, hvað kosta leiðslur frá Laxá um Eyjafjörð og til Skagafjarðar og Siglufjarðar. Ég hef að vísu ekki haft hirðu á því að ná í það bréf, sem þær tölur eru teknar úr. En ég treysti fullkomlega, að sá maður, sem tók þær tölur upp, hefði tekið þær rétt. En hvernig fer svo þessi hv. þm. sjálfur með tölur? Þegar hann fer að tala um kostnaðinn við virkjun Laxár og leiðslunnar til Siglufjarðar, var ekki hægt að skilja annað á ummælum hans en að hann vildi færa Siglufirði einum til kostnaðar leiðslurnar út með Eyjafirði og yfir í Skagafjörð, auk hluta Siglufjarðar í virkjuninni við Laxá og hluta í leiðslukostnaði til Akureyrar. Þó á fjöldi fólks í Eyjafirði og á ýmsum stöðum í Skagafirði fyrir utan Siglufjörð að verða rafmagnsins aðnjótandi. Svona notar nú þm. tölur. Við gengum með vilja fram hjá virkjunarkostnaði á Laxá og leiðslu til Akureyrar, vegna þess að fyrst og fremst er þetta þáttur í landsáætlun, og má vera, að síðar verði miklu fleiri rafmagns aðnjótandi frá þessari línu. Að öðru leyti var þetta aðeins bending um nokkra þætti í þessu máli, og hver maður gat strax séð, hvernig málinu var varið, hvað tekið var með og ekki talið.

Þessi útreikningur hv. þm., eins og hann fer með þessar tölur, er þá undir eins orðinn rangur hjá honum sjálfum, og ég held, að hann ætti að athuga betur íslenzka tungu, áður en hann staðhæfir, að þetta, sem bann var að tileinka okkur í raforkumálan., sé fals. Hann er búinn að viðurkenna, að þetta sé rétt, en að falsið liggi í því, að ekki var tekið miklu meira úr áliti rafmagnseftirlitsins. En hann verður að gæta þess, að það kemur þessu atriði, sem hér um ræðir, ekkert við. Ekki er hann að tala um, hve mikið kæmi til einstakra kauptúna og hve mikið til Siglufjarðar. Það var eins og hann teldi, að þessi lína frá Akureyri kæmi Siglufirði einum við. — Hann sagði, að við minntumst ekki á tapið. Það er ekki von; það er ekkert til um það. Á þessum forsendum skoraði hann á d. að samþykkja bæði frv. Ég verð út af þessu að víkja nánar að málinu.

Vitaskuld verður með virkjun Laxár og þeirri viðbót, sem á að gera, framleidd minni orka en æskilegt væri. Samt kemur í hlut meiri orka til neytenda en Rvík hefur nú, enda þótt það sé yfir 300 kw á mann. Á þeim stöðum eru rúml. 11000 íbúar, og að frádregnu tapi við leiðslur og slíkt koma 300 kw á mann. Slík orka er ekki næg til frambúðar, og því þarf að byggja meira út Laxá. En ef litið er á upplýsingar, sem fyrir liggja um Fljótaá og það afl, sem þar fæst, fær Siglufjörður fyrir sig einan miklu meira afl frá þeirri stöð. En það kostar svo mikið að virkja hana, að sú upphæð er um 6 millj. kr., og þeir miklu peningar mundu nægja til að koma línunni mjög mikið áleiðis um Eyjafjörð og til Skagafjarðar. Vatnsföllin í Skagafirði eru svo óhentug til virkjunar, að hyggilegra er að hverfa að því ráði strax að byggja svo stóra stöð við Laxá, að orka þaðan verði leidd til Skagafjarðar, og láta Siglufjörð verða orkunnar aðnjótandi. Ég hef þá trú, sem styðst við líkur, að ef ríkisstj. beitti sér fyrir þessu, mundi ekki siður heppnast að fá það, sem til þarf, heldur en ef eitt bæjarfélag fer að reisa sína stöð yfir í Fljótum. En það er vorkunnarmál fyrir þm. Siglf., þó að hann vilji ekki yfirgefa þessa hugsun sína, nema hann sjái, að málið sé með öðru móti tryggt. En mér finnst furðulegt, ef bæjarstjórn Siglufjarðar veit um þann vilja, sem fyrir er á Alþ. til að leysa málið, að hún setji sig á móti þeirri lausn. Ég hélt, að það væri aðalatriðið, að Siglufjörður fengi rafmagn. Það er kjarni málsins. Siglufjörður verður að fá rafmagn, en auðvitað þarfnast aðrir þess líka, og er leiðinlegt, ef nokkur þm. væri svo, að hann kysi heldur að fara þá leið, sem hindrar, að aðrir geti haft gott af um leið.

Það firma, sem hefur tekið þetta mannvirki að sér, hefur gert kostnaðaráætlun. Það væri ekki um að sakast, ef sú nauðsynlegasta athugun hefði farið fram, sem Alþ. verður að telja óhjákvæmilega. En ég hef ekki orðið var við, að slíkur rökstuðningur liggi fyrir, heldur þvert á móti. Ég efa ekki, að firmað framkvæmi þetta, og það má í þessu sambandi segja: „Drottinn gaf og hann drottinn tók.“ Firmað mundi veita Siglufirði rafmagn, en það mun taka það, sem því ber, fyrir.

Rafmagnseftirlitið hefur fengið þessar áætlanir firmans, og þar segir svo orðrétt: „Rafmagnseftirlitið hefur ekki átt þess kost að rannsaka svo stofnkostnaðaráætlanir, að það treystist til að leggja neinn dóm á þær.“ Mér skilst, að svona atriði hefði þurft að vera betur upplýst. Hér er um að ræða grundvallaratriði fyrir verkinu. Og svona er ástatt um það.

Á öðrum stað segir um annað atriði, stífluna: „Hér skal þó ekki lagður dómur á tilhögun sjálfra vatnsvirkjananna sérstaklega, svo sem t.d. á val stíflusvæðisins.“ Ekki er það þó smávægilegt atriði, sérstaklega þegar þess er gætt, hvernig jarðvegur er á þessum slóðum. Um vatnsaflið, sem skiptir höfuðmáli, er það að segja, að sum ár hefur vatnsaflið verið svo lítið, að rannsóknir, sem fram fóru 1930–1937, leiddu í ljós, að eitt árið var það rúmlega helmingur af því vatnsafli, sem hefði fengizt fyrir utan uppistöðuna í ánni. 1935–1936 var vatnið svo lítið, að vantaði 4 millj. kwstundir, en uppistaðan þá með þessari háu stíflu bætir úr um 2.7 millj. kwstundir. Þetta hefur þau áhrif á rekstrarafkomu fyrirtækisins, að tekjurnar yrðu 40 þús. kr. minni af þessum sökum.

Þegar það kemur í ljós, að vatnið er of lítið, þurfa menn að hafa önnur tæki til að hita upp híbýli sín, og gæti þá svo farið, að yrðu einhver vanhöld á notkuninni, og ég skal líka geta þess. að hér er miðað við það verðlag, sem nú gildir. Breytist verðlag, eins og rafmagnseftirlitið tekur réttilega fram, gerbreytist allt. Kostnaðurinn heldur áfram, en tekjurnar minnka. Þegar litið er til þess, hve þetta er mikill kostnaður fyrir ekki stærra bæjarfélag, gegnir furðu, ef þm. hafa það áræði að ætla að knýja málið fram. Fyrir hvern mann á Siglufirði nemur þessi kostnaður á þriðja þúsund kr. Fyrir 5 manna heimili á tólfta þús. kr.

Ég vil að lokum aðeins víkja að því, hvernig ástatt er um annað fyrirtæki til samanburðar. Þegar Rvík lagði út í Sogsvirkjunina, ábyrgðist ríkið 7 millj. kr. Ef sú ábyrgðarheimild hefði verið í réttu hlutfalli við það, sem hér er farið fram á miðað við fólksfjölda, hefði ríkið átt að ábyrgjast 60–70 millj. kr. Ég held, að þm. hefðu synjað um það. Það er hárrétt hjá hv. þm. a. Húnv., að ef miðað er við fólksfjölda í Rvík nú, mundi þetta svara til 80 millj. kr. Þegar Sogsvirkjunin var hafin, voru 30 þús. íbúar hér, en nú miklu fleiri.

Ef litið er til Akureyrar 1941–1942, er seld orka þar á 7.85 aura hver kwstund, á Blönduósi miklu minna, liðlega 3 aurar, en á Siglufirði yrði þetta, þó að allt væri notað og gengi Iystavel, á 12 aura hver kwstund, 43% hærri en á Akureyri.

Öll þessi atriði eru svo íhugunarverð, að þm. þurfa að hugsa sig tvisvar um, áður en þeir samþykkja þetta. Hitt þarf ekki að taka fram, að mþn. í raforkumálum hefur mjög mikinn áhuga á því, að þessi mál verði leyst svo, að þeir, sem fá þennan undrakraft í þjónustu sína, fái hann sem fyrst. Frá okkar hálfu mun koma brtt. um að veita raforku úr Laxá yfir Akureyri og Eyjafjörð til Skagafjarðar. Þá fengi Siglufjörður sitt rafmagn með betra móti, og um leið yrði fjöldi manns á öðrum stöðum aðnjótandi raforku. Það er sannfæring mín, að þannig beri að halda á þessu máli.

Ég vil beina því til hv. þm. Siglf. í fullri vinsemd., að hann ljái lið sitt til, að sú leið verði farin. Hann kann að segja, að það sé gott og blessað, en leiðslurnar séu ótryggar. En hvernig ætlar hann þá að leysa þessi mál, úr því að svo er ástatt, að leiða þarf raforku til þessara byggðarlaga, eða er hann svo staðbundinn, að hann hugsi bara um Siglufjörð einan? Ég hef ekkert fyrir mér í því, að hann vilji velja sér það hlutskipti.

Það þarf ekki að fjölyrða um þýðingu rafmagnsins. Það er viðurkennt, að þar sem við höfum getað tekið það afl í þjónustu okkar. batna afkomumöguleikar og líðan fólksins. Ég ætla, að það sé vegna öskurs hv. 11. landsk. þm., að hann lætur sér detta í hug að vilja eyða byggð í landinu. Ég tel ekki vafa á því, að bezt er hægt að tryggja fólkið í sveitunum með því, að allt sé gert, sem hægt er, til þess að hafa þar vistlegt og aðbúð fólksins eins góða og fólk í þéttbýlinu á við að búa, en það er einmitt raforkan, sem er undirstaða þess, að svo geti orðið. Og þess vegna er það eitt höfuðskilyrði að koma rafmagninu á sem flesta staði í byggðum þessa lands. Ég lít svo á, að hæstv. Alþ. eigi að hafa þetta sjónarmið heildarinnar, þegar það fjallar um þessi mál.

Framtíðarafkoma þjóðarinnar er í stórhættu, ef ekki er séð um að tryggja og gera örugga þá tvo atvinnuvegi, sem lífsafkoma þjóðarinnar byggist fyrst og fremst á, landbúnaðinn og sjávarútveginn. Er ekki réttara að taka höndum saman og vinna að því í sameiningu. að þessir tveir atvinnuvegir vaxi og blómgist, öllum almenningi í landinu — heildinni — til blessunar? Er það sjónarmið ekki réttara en að leggja kapp á að bolast hver gegn öðrum, ef með því móti mætti fremur krækja í einhver hlunnindi, án þess að verið sé að bera aðra fyrir brjósti, sem eins þurfa slíkra hlunninda með? En slíkt á ekki hv. alþm. að vera samboðið. Þeir eiga að hætta þeim leik.

Það hafa orð fallið um það, að landbúnaðurinn ætti erfitt uppdráttar og þörf væri þar á þeirri breytingu að færa byggðina saman og leggja afskekkt kot í eyði. Það er að vísu rétt, að þörf er á breytingu landbúnaðinum í hag, en það á ekki að stefna að því að leggja í eyði eða færa saman eldri byggð á góðum stöðum, heldur á að keppa að því að skapa nýja byggð, því að enn eru mörg og mikil landflæmi til í þessu landi, sem eru ónotuð og bíða eftir ræktun. Því er sjálfsagt að taka skynsamlega á þessum málum og auka byggðina í sveitum landsins, annað er fávíslegt.

Ég ætla svo ekki frekar að fjölyrða um þetta, en vil enn aðeins benda hv. þm. á, að við verðum fyrst og fremst að hafa sjónarmið heildarinnar fyrir augum. Að rafmagnið komi sem fyrst á hvert heimili í landinu til þess að tryggja fólkinu sömu og betri lífsskilyrði, hvar sem er á landinu, að það fái unað hag sínum og dvalizt á sínum stað, það sjónarmið verður að ráða, og það er sjónarmiðið, sem þjóðinni allri er fyrir beztu.