01.03.1943
Neðri deild: 68. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

51. mál, virkjun Fljótaár

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. — Það mál, sem hér er um að ræða, virkjun Fljótaár, virðist ætla að valda nokkrum ágreiningi hér í hv. d. Um málið liggja mjög langar grg. fyrir frá hv. fjhn., sem er klofin í málinu. Þar hefur skapazt meiri hl. og minni hl. Meiri hl. n. vill afgreiða málið með rökst. dagskrá. En minni hl. fjhn. leggur til, að frv. sé samþ.

Hv. þm., sem hafa verið hér á Alþ. undanfarin ár, hafa nú orðið varir við, að rignt hefur niður í þinginu áskorunum um ábyrgðarheimildir ríkisstj. til handa fyrir ýmis kjördæmi til þess að leggja í stórvirkjanir. Þessum málum hefur á síðustu árum annaðhvort verið vísað til hv. fjhn. eða á annan hátt bægt frá afgreiðslu. Þegar búið er að hrúga inn í þingið svo mörgum slíkum beiðnum, sem numið hafa alls tugum millj. kr., jafnvel hátt á þriðja tug millj., þá hefur mörgum hrosið hugur við, og menn hafa látið það darka að vísa þeim málum frá, þótt oft hafi það verið með nokkru fyrirheiti, því að slík mál hafa haft við sterk rök að styðjast.

Ég mun hafa verið fyrstur manna, sem komið hafa með beiðni um þetta hér, og ég hygg, að flestir, sem um það hafa sagt, hafi álitið, að ég hefði mest til míns máls. Og ábyrgð fyrir Akureyrarkaupstað mun vera fyrsta slíkt mál, sem til meðferðar var í þinginu. Nú er búið að draga það svo lengi fyrir mér með þessari keðju, að málið er dagað uppi. Akureyri hefur orðið að bjarga sér sjálf án þessarar ábyrgðar. Þess vegna vil ég láta menn vita, að þeir þurfa ekki að láta hroll fara um sig vegna Akureyrarkaupstaðar. En mér finnst eins og hrollur vera í mönnum, þegar Siglufjarðarbær fer fram á 6 millj. kr. ríkisábyrgð til þess að geta virkjað Fljótaá.

Meiri hl. fjhn. segir í nál. sínu, að enginn ágreiningur sé um það milli meiri hl. n. og minni hl., að Siglufjarðarkaupstaður þurfi og eigi að fá rafmagn svo fljótt sem verða má, og ágreiningur sé um hitt, hvort þessi leið sé heppileg, sem í frv. er gert ráð fyrir, eða hvort ekki muni vera heppilegra kannske að leiða rafmagn til Siglufjarðar frá Laxá. Prinsip meiri hl. n. er að leiða rafmagn um allt landið. Þetta er fallegur framtíðardraumur, sem við viljum vera með. En hvenær rætist þessi draumur? Það er ekki nóg að segjast óska, að þetta verði gert sem allra allra fyrst. Ég þykist vita, að það muni líða mörg ár, kannske áratugir, þangað til þetta getur komið til framkvæmda. Og við hjálpum Siglufirði alls ekki með þessum loforðum, því að þeir þurfa þar sannarlega að fá rafmagnsaukningu til kaupstaðarins löngu fyrr en stórvirkjun kemst á laggirnar. Það ætti öllum að vera ljóst.

Það skín í gegn hjá hv. meiri hl. fjhn., að það sé hægt til að fullnægja rafmagnsþörf Siglufjarðar að grípa til þeirrar aukningar á Laxárvirkjuninni, sem Akureyri er að brjótast í að láta framkvæma. En ég vil gefa hv. þm. til kynna, að það mun fallvölt von, því að þó að orkan aukist verulega við þessa aðra vélasamstæðu, sem má segja, að sé næstum því komin til framkvæmdar, — þ.e. ef vélarnar sökkva ekki á leiðinni til landsins —, og við vonumst til, að aukningin geti komizt til framkvæmda á næsta sumri, þá hefur rafmagnsþörf Akureyrar verið svo mikil, að bærinn hefur neyðzt til þessarar aukringar vegna nauðsynlegra þarfa sinna á rafmagni. Nú gerir maður ráð fyrir, að ekki þyrfti öll þau hestöfl, sem þarna fást í viðbót, handa Akureyrarkaupstað. En nú hefur komið á daginn, að Húsavík. Svalbarðseyri og fleiri staðir eru búnir að gera samning um að fá að vera með í þessari aukningu. Ég sneri mér til bæjarstjórans á Akureyri, sem er formaður rafveitu Akureyrar, og sagði honum, hvernig málið lá fyrir. Ég spurði hann, hvort nóg rafmagn yrði með þessari aukningu fengið fyrir Akureyri og allan Eyjafjörð eða hvort lítið yrði afgangs af því, þegar Akureyri hefði fengið rafmagnsþörf sinni fullnægt. Svar hans var, að menn ættu alls ekki að byggja á, að svo mikið rafmagn yrði afgangs frá þessari aukningu, sem Akureyrarbær þyrfti ekki að nota, að neitt verulegt mætti upp úr því leggja, og hann sagði, að það yrði ekki nein leið að hjálpa mönnum á Siglufirði og Sauðárkróki um rafmagn frá þessari virkjunaraukningu. Þar með er nokkurn veginn víst, að þó að rafmagnsaukning þessi komi á næsta sumri fyrir Akureyri, þá er það ekki til þess að bjarga þessu máli, að sjá Siglufirði fyrir rafmagni. En ef hæstv. Alþingi getur gefið tryggingu fyrir því, að ríkissjóður hafi bolmagn til þess að ráðast í stórvirkjun á Norðurlandi, t.d. með því að virkja enn á ný Laxárfossana til þess að geta uppfyllt rafmagnsþörf Norðlendingafjórðungs, þá er öðru máli að gegna.

Með þessu er aðeins verið að tefja málið. Það er ekki hægt að komast hjá þessari ábyrgðarheimild. Ég hef athugað þetta mál sérstaklega og styrkist alltaf í þessari trú. Ég mun því fylgja minni hl n. um afgreiðslu þessa máls.