19.12.1942
Neðri deild: 22. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Það hefur verið, síðan farið var að reyna opinberar ráðstafanir til að hamla á móti dýrtíðinni, viðurkennd staðreynd, að sumpart yrði að vinna gegn dýrtíðinni með ráðstöfunum, sem innanlandsaðilar hafa á sínu valdi og gætu því hagað eftir vild, og sumpart ráðstöfunum, þar sem taka yrði tillit til þess, hvernig ástandið væri utanlands. M.ö.a., það yrði ekki hjá því komizt a.m.k. um langan tíma að taka tillit til þess, hvað vara sú kostaði, sem til landsins væri flutt, þegar útsöluverð hennar er ákveðið hér á landi. Öðru máli er að gegna með vörur, sem framleiddar eru í landinu sjálfu og vinnu, sem unnin er í landinu sjálfu. Að því er snertir margar útlendar vörur, þá hefur hv. verðlagsn. ákveðið sumpart hámarksverð og sumpart hámarksverðlagningu eftir því, hver varan hefur verið. Mér virðist nú við athugun á þessu frv., sem hv. flm. telur fyrsta spor í áttina til að vinna bug á dýrtíðinni, að eftir ákvörðun frv. að dæma, sé nokkuð víkið frá þeim grundvelli, sem hefur verið látin vera undir hámarks- og verðlagsákvæðum. Hér er farið fram á, að ríkisstj. megi í dag eða á morgun eða hinn daginn auglýsa, ja, við skulum segja, að fetið í borðviðnum skuli kosta (eftir orðalagi frv. um óákveðinn tíma, en eftir upplýsingum fjmrh. til síðasta febr.) það sama og í dag. Hún virðist álíta, að allir muni verða hjartanlega sammála um, að þeir aðilar, sem hafa það með höndum að afla þessarar nauðsynjavöru til landsins, ef þeir hafa verið svo óheppnir að fá vöruna með hærra kostnaðarverði en þann dag, sem auglýsingin var gefin út, þá lendi það á þeim, og þeir taki það sem sitt tjón. Því hefur verið lýst yfir, að ríkisstj. muni ekki taka á sig neinn kostnað í þeim efnum. Við þessu væri ekki svo mikið að segja, ef þess sama væri krafizt af öllum þegnum þjóðfélagsins, en því er ekki til að dreifa. Stjórnin hefur gefið loforð um, að verðlag á mjólk skuli ekki lækka fyrr en eftir 28. febr. Og það loforð verður maður að taka gilt. Hins vegar vitnaði hann til yfirlýsingar eða ummæla frá stj. Alþýðusambands Íslands, að hún teldi öruggt, að ekki kæmi til grunnkaupshækkunar á þeim tíma. Ég held, að ég minnist þess, að ég hafi heyrt af munni eins núverandi hv. þdm. og fyrrv. ráðh. ekki alls fyrir löngu hér um bil sams konar yfirlýsingu og þessa. Það mun hafa verið fyrir einu ári síðan, að þingheimur hallaðist mjög að hinni svokölluðu frjálsu leið í dýrtíðarmálunum, þ.e. að samkomulag væri milli þeirra aðila, sem standa að vinnu, verzlun og framleiðslu, reyndu að halda dýrtíðinni í skefjum. Þá man ég, að hæstv. fyrrv. félmrh. gaf hér um bil eins orðaða yfirlýsingu og þessa, en allir víta, að hún reyndist ekki haldgóð. Ég verð því að taka með fullri varúð á þeim yfirlýsingum, sem hæstv. ráðh. telur sig hafa fengið frá Alþýðusambandi Íslands. Ég vil enn fremur benda á, að nú til skamms tíma hefur verið talið yfirvofandi sjómannaverkfall á Ísafirði, og ég geri ráð fyrir, að á tímabilinu frá því í dag og þar til fram í miðjan febrúar geti orðið mikið vafamál, hvort samkomulag verður milli sjómanna og útgerðarmanna og hangi alveg á þræði, hvort það næst, án þess að nýjar svokallaðar kjarabætur eða kauphækkun komi til greina. verzlunarmálin er aftur á móti það að segja, að hæstv. fjmrh. er þeim vitanlega miklu kunnugri en ég. En svo kunnugur er ég þó þessum málum, að ég veit, að jafn harðhent ákvæði og l. gr. þessa frv. er, getur komið og hlýtur að koma mjög hart niður á einstökum þjóðfélagsþegnum, hvort þeir verða margir eða fáir, skal ég ekki segja. En svo mikið er víst, að oddinum er mjög stefnt gegn þeim, sem hafa flutt inn vörur eða lagt út fyrir vörum í Bandaríkjunum, sem eiga að flytjast til Íslands, og standa svo gagnvart því, að þegar þær koma, þá sé ekki nema tvennt fyrir hendi, leggja hana til hliðar eða selja hana með tapi. Hv. 2. þm. Reykv. virðist líka skilja vel, að þetta gæti komið fyrir, og fyrirspurnir hans til hæstv. forsrh. byggðust áreiðanlega á því, að hann sér, að slíkir árekstrar muni vera líklegir. Ég skal engum getum um það leiða, hvaða ráð þessi hv. þm. mundi finna í þessum kringumstæðum, en honum er jafnkunnug og mér 62. gr. stjórnarskrárinnar og undir hvaða skilyrðum krefjast megi þess, að þegnar þjóðfélagsins láti af hendi eign sína.

Þróunin í viðskiptum okkar við aðalviðskiptaþjóð okkar, Bandaríkin, hefur verið sú síðustu 9–12 mánuðina, að nú er ekki lengur um það að ræða, að Bandaríkin sendi nokkrar vörur hingað, án þess að fyrir hendi sé full trygging fyrir greiðslu þar á staðnum, m.ö.o., að varan sé greidd, áður en hún fer frá höfn. Til að byrja með létu seljendur þar sér nægja að krefjast borgunar gegn hleðsluskírteini þar á staðnum, en nú hefur myndazt erfiðara víðhorf þar fyrir innflytjendur, því að mörg Bandaríkjaverzlunarhús, ef ekki flest, setja þá kröfu, sem hefur verið látið undan af hundruðum, ef ekki þúsundum innflytjenda vegna örðugleika á að fá vöruna afskrifaða til Íslands, að þegar vörugeymsluhúsin í New-York staðfesta, að varan sé komin þangað, ætluð til afskipunar til Íslands, þá verði greiðsla að fara fram. Þetta er vegna þess, að þessi verzlunarhús eru að eðlilegum hætti nokkuð þreytt á að liggja með vöruna 4–6, jafnvel 9 mánuði, enda þótt baktrygging sé fyrir greiðslu, án þess að fá greiðslu, af því að ekkert skip er til að taka við þessum vörum og því ekkert farmskírteini til að undirskrifa, Nú mun hæstv. fjmrh. bezt kunnugt, að þessi verzlun er mjög komin í það horf, að Íslendingar verða að greiða vörurnar gegn vöruhússkírteini í New-York. Ég veit t.d. um eitt timburinnflutningsfirma, sem borgaði timbursendingu fyrir níu mánuðum og á eftir að fá hana enn. Þegar þetta er athugað, liggur í augum uppi, að hér getur vel komið fyrir, að verði þeir árekstrar, sem einhver hlýtur tjón af. Mér hefur heyrzt á ræðum hv. þdm., sem á það hafa minnzt, að þeir sætti sig vel við, að innflytjendur beri það tjón, og getur vel verið, að það fari svo. En þegar þetta liggur fyrir í frv., sem annars tekur ekki á aðalmeinum dýrtíðarinnar að nokkru verulegu leyti, þá finnst mér koma fram nokkuð áberandi hneigð að láta aðeins nokkurn hluta af þjóðfélagsþegnum bera hita og þunga dagsins af þessum ráðstöfunum, a.m.k. nokkurn tíma.

Ég hef í þessum athugunum viljað beina til hæstv. stj. og þeirrar n., sem fær þetta frv. til meðferðar, hvort þeir gætu ekki hugsað sér, að svo mikið tillit yrði tekið til rásar viðburðanna, að inn í frv. væri sett eitthvert ákvæði, þar sem dómnefnd væri heimilað undir gefnum tilfellum, þ.e.a.s., ef væri um alveg sannanlegt og sýnilegt tjón einstaklinga að ræða á vörum, sem einstaklingar þjóðfélagsins yrðu að fá, að þar yrði eitthvað látið koma á móti, svo að eitthvert tillit yrði tekið til slíkra hluta. Ég held, að heildaráhrif l. þyrftu ekki að spillast fyrir það.

Hæstv. fjmrh. hélt fram, að nauðsynjavörur mundu vera til í landinu til 4–6 mánaða. Svo er um hvert mál sem á það er litið. Ég tel, að byggingarvörur séu nauðsynjavörur og eins vörur til útgerðarinnar og viðgerða skipaflotans. Ég er dálítið efins um, að nú séu til allar vörur til bygginga til 6 mánaða, nema þá gert sé ráð fyrir, að byggingarstarfsemi svo að segja leggist niður. En við skulum setja dæmið þannig upp, að þær leggist ekki niður og þær komi á þessu tímabili, sem hér er um að ræða, þessum tveimur mánuðum, og kannske sé búið að bíða eftir þeim marga mánuði. Fari svo, að vörurnar verði miklu dýrari en kemur til með að standa í auglýsingu hæstv. stj., eða m.ö.o., að þær verði dýrar í en þær voru, þegar auglýsingin kemur út, þá er ekki nema um tvennt að ræða, að sá sem stendur fyrir að ná vörunni inn í landið, eða þá sá sem átti að fá vöruna, en undir öllum kringumstæðum, þar sem um nauðsynjavöru er að ræða, liggur mikið á að fá hana, verður að vera án hennar. Við þessu hvoru tveggja mætti gera, ef dómnefndinni væri gefið svigrúm til að taka undir vissum kringumstæðum hæfilegt tillit til þessara staðreynda.

Ég vil svo að lokum endurtaka tilmæli mín til n., að hún athugi þessa hlið málsins. Það hefur frá upphafi verið sannfæring mín persónulega, að baráttan gegn dýrtíðinni muni ekki bera árangur, nema allir taki á sig fórnir. En ég held, að tæplega sé tekið rétt á þessu máli, ef stefnan á að vera sú, að einhver ein stétt sé látin taka á sig óákveðið, hvað miklar fórnir, án þess að aðrar stéttir þurfi að gera slíkt hið sama, því að þeir, sem flytja inn, verða að gjalda kaup eftir hækkandi vísitölu, þó að frv. verði samþ.

Að lokum vil ég segja, að það ætti a.m.k. að vera orðið augljóst hinu háa Alþ., að þær samþ., sem gerðar hafa verið og ekki hafa tekið nóg tillit til lífsins sjálfs, hafa hingað til ekki reynzt haldgóðar, svo að reynsla ætti að vera fyrir því, að þýðingarlítið er að ganga lengra á þeirri braut, en í þessu máli tel ég, að megi stýra fram hjá því skeri með ofurlítilli tilsveigingu af hálfu ríkisstj. og þeirrar n., sem um málið á að fjalla.