23.03.1943
Efri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

51. mál, virkjun Fljótaár

Bernharð Stefánsson:

Í gær, er þetta mál var hér á dagskrá, þá þurfti form. fjhn. og frsm. hennar í þessu máli að víkja af fundi og bað mig að hafa orð fyrir n., ef málið yrði tekið fyrir.

Ég lofaði þessu, en bjóst ekki við, að það gilti nema fyrir daginn í gær. En nú sé ég, að hann er hér ekki viðstaddur, og verð ég því að segja hér nokkur orð. Ég er þó ekki vel undir þetta búinn, því eins og nál. ber með sér, þá var ég ekki viðstaddur sökum lasleika, er n. afgreiddi þetta mál. Ég er því sennilega ókunnari því en nokkur hinna nm. En sú er bót í máli, að þótt framsaga mín verði ekki mikil, þá er málið orðið hv. þm. þegar svo kunnugt hér á þingi.

Á síðasta sumarþingi var borin fram þáltill., er gengur í sömu átt og þetta frv. Þessi þáltill. fór fram á sams konar ríkisábyrgð vegna virkjunar Fljótaár og þetta frv. Í grg. þessarar till. og fylgiskjölum eru allar ástæður þessa máls teknar greinilega fram, svo að óþarft er að endurtaka það.

Samkv. því, sem nú stendur í áliti fjhn., þá hefur n. athugað málið, og er hún sammála um að mæla með því, að það nái fram að ganga. Þó að ég hafi ekki undirskrifað nál. sökum fjarveru, þá vil ég taka fram, að ég er því algerlega sammála.

Það verður ekki fram hjá því gengið í sambandi við þetta mál, að nú er á döfinni skipulagning raforkumálanna í landinu, og hefur verið skipuð mþn. til að gera till. og hefja rannsókn um það, hvernig nægilegri raforku verði komið til sem flestra.

Mér er kunnugt um það, að í hv. Nd. mætti þetta frv. nokkurri mótstöðu. Ekki var það af því, að menn væru á móti því, að Siglufjörður fengi rafmagn, heldur af því, að ýmsir töldu heppilegra að bíða eftir heildarniðurstöðum þessarar mþn., og kæmi þá rafmagn fyrir Siglufjörð sem einn liður í þeirri heildarframkvæmd, sem ráðgerð væri í þessum málum.

En í sambandi við þetta vil ég benda á, að þegar árið 1935 voru sett l. um virkjun Fljótaár, svo að það eru nú orðin nokkur ár síðan hv. Alþ. samþykkti fyrir sitt leyti að virkja þetta vatnsfall fyrir Siglufjörð. Ég skal enn fremur benda á það, sem fylgiskjöl þál. frá í fyrra bera með sér, að síðan hefur farið fram ýtarleg rannsókn á virkjunarmöguleikum þarna, sem virðist leiða í ljós, að þetta fyrirtæki muni ekki óálitlegi að neinu leyti.

Ég skal í þriðja lagi benda á það, að Siglufjarðarkaupstaður hefur þegar varið allmiklu fé til undirbúningsframkvæmda þessarar virkjunar, og væri þá öllu þessu fé kastað á glæ, ef ekkert yrði úr frekari framkvæmdum. Enn fremur er á það að líta, að búið mun beinlínis að semja um efni og kaup á vélum til þessarar virkjunar.

Það er vonandi, að það komist sem fyrst í framkvæmd, að rafmagninu verði veitt sem víðast til sjávar og sveita, og ég vil ekki mótmæla því, að það kunni að vera rétt, að hafa orkuverin fá og stór. En þrátt fyrir það held ég, að þessi virkjun eigi fullan rétt á sér. Þótt till. þessarar mþn. komist í framkvæmd, þá er bæði á það að líta, að Siglufjörður er afskekktur og þangað yrðu alltaf langar leiðslur, t.d. frá Laxá, og auk þess hefur það sýnt sig við allar rafvirkjanir, að þrátt fyrir allar áætlanir um raforkuþörfina, þá hafa aflstöðvarnar reynzt of kraftlitlar innan fárra ára víðast hvar. Þörfin hefur bæði verið áætluð of lágt, og kaupstaðirnir auk þess í vexti.

Ég er því sannfærður um það, að þótt heildarkerfi kæmist á bráðlega. þá yrði full þörf á þessari aflstöð við Fljótaá, og ef hún yrði svo tengd aðalkerfinu, þá yrði hún til stuðnings fyrir það.

Sumum kann að virðast farið fram á nokkuð háa ábyrgðarheimild, 6 millj. kr. En ég hygg, að þeir, sem athuga efnahagsreikninga Siglufjarðarkaupstaðar undanfarin ár, komist að raun um, að ekki sé mikil áhætta fyrir ríkið að ganga í þessa ábyrgð, eins og nú horfir.

Að lokum skal ég minna á það, sem ég hef oft áður leitt athygli að, að stuðningur við Siglufjarðarkaupstað er ekki veittur honum einum, heldur njóta þar fjölda margir aðrir góðs af, því að fyrir utan höfuðborgina munu menn ekki sækja atvinnu meir í annan stað en þangað.

Við það má svo bæta, að ríkið hefur beinlinis sérstakra hagsmuna að gæta í þessu efni, þar sem eru síldarverksmiðjur þess þar, því að rekstur þeirra getur tæplega talizt öruggur, nema nægilegt rafmagn sé fyrir hendi á staðnum. Ég vænti þess því, að þetta mál fái góðar undirtektir hér í d., eins og segja má, að það hafi fengið í hv. Nd., og að það verði ekki notað til þess að tefja málið, þótt stærri aðgerðir í þessum efnum séu ráðgerðar fyrir landslýðinn í heild, því að ég álit, að þetta tvennt þurfi ekki að koma í bága hvað við annað.