27.11.1942
Neðri deild: 6. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

8. mál, vegalög

Pétur Ottesen:

Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi láta falla hér. Það er náttúrlega ekkert nýtt fyrirbrigði í meðferð þessara mála hér á þinginu, þó að fram komi till. til breyt. á vegalögunum frá einstökum þm., sem svo eru ekki að öllu leyti teknar til greina, því að það er vitanlegt, að undanfarin þing — eins og gera má ráð fyrir, að verði á þessu þingi — hefur það verið hlutverk samgmn. í samráði við vegamálastjóra, að flokka úr þessum till. það, sem fellur inn í þann ramma, sem það hefur verið fellt inn í undanfarin þing. Það er því engan veginn réttlátt að halda því fram, að afgreiðsla þessara mála sé reglulaus og ekki hafi verið fylgt neinni stefnu á undanförnum þingum. Það eru afnot veganna, sem hafa verið lögð til grundvallar að undanförnu og þess vegna má gera ráð fyrir, að í þeim till., sem nú koma fram, verði ýmsir vegir, sem segja megi um, að þeir falli ekki inn í þetta kerfi, og er sjálfsagt, að þeir heltist úr lestinni, en hins vegar er vitað, að það er fullkomlega réttmætt nú að bæta mörgum vegum inn í þjóðvegatölu og fullt samræmi helzt fyrir því.

Hitt, sem hv. 2. þm. N.-M. (PZ) benti á og hann hreyfði till. um, þegar síðast voru gerðar breyt. á vegal., sé ég ekki, hvaða hagur væri að, vegna þess að ákvörðun um það, hvaða vegir skyldu takast upp í vegal. og hverjir ekki, hlýtur alltaf að hvíla á viðkomandi yfirvöldum. Ég veit ekki, hvað slíkt fyrirkomulag hefði til sins ágætis fram yfir það, sem nú er, að ríkið leggi fram til akfærra sýsluvega það, sem sýslusjóður greiðir ekki, og helming kostnaðar við byggingu sýsluvega, svo að það, hvað ríkið greiðir, fer eftir því, hvað lagt er af mörkum í viðkomandi héruðum. Þessu til viðbótar er það, að framlag ríkisins má þá eingöngu ganga til viðhalds veganna. Ég sé ekki að sú breyt., sem hv. þm. N.-M. (PZ) vill, að gerð verði, hafi neina yfirburði yfir þann grundvöll, sem lagður er í löggjöf nú, enda fengu þær till. hans engan byr, sem ekki er ástæða til. Nú er einmitt með fjárveitingum til vegalagninga í landinu gerður allríflegur munur á þeim leiðum, sem eru aðalsamgönguleiðir í landinu, og þeim leiðum, sem að vísu má telja, að séu samgönguleiðir, sem notaðar eru af öllum almenningi, en eru þó ekki aðalleiðir, því að nú er til viðbótar við það fé, sem veitt er til akfærra sýsluvega, lagður benzínskatturinn, sem er áætlaður árið 1943 um 700 þús. kr., hann gengur til akfærra þjóðvega umfram það, sem veitt er á fjárlögum. Sú stefna, að leggja sérstakan benzínskatt á, var tekin upp til þess að auka tillög til akfærra þjóðvega, og var sú stefna í sjálfu sér eðlileg og í samræmi við þetta.

Ég vildi láta það koma fram, að það er síður en svo, að þessar framkvæmdir séu ekki bundnar við neitt kerfi, þó að menn að sjálfsögðu líti á það misjöfnum augum, eftir því hver aðstaða þeirra er, og það er hver sjálfum sér næstur og vill ota sínum tota og þykir á rétt sinn gengið, þó að það sé ekki, miðað við þá stefnu, sem fylgt er í málinu. Fram hjá því verður ekki komizt, í hvaða farvegi sem málið liggur.