27.11.1942
Neðri deild: 6. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

8. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Út af því sem hv. þm. Borgf. sagði, að það væri ekki nein stoð í því að flokka vegina og láta kostnaðinn hvíla misjafnt á ríkissjóði, vil ég benda á það, að hvar sem menn fara um vegi hér á landi, munu þeir beta borið um það, hve sýsluvegum er illa haldið við. Ég held, að það sé rétt að láta ríkissjóð sjá um þessa vegi að einhverju leyti og þá eigi að láta endurgreiða kostnaðinn að einhverju leyti, og ég held, hvað sem sagt var um þessa stefnubreytingu 1940, þá kornist nefndin að því, að réttara sé að hafa þessa vegi flokkaða. heldur en eins og nú er að hafa tillög til sýsluvega og láta síðan sýslurnar um framkvæmdirnar. Þetta er af því, að þótt vegamálastjóri hafi eftirlit með vegunum, þá held ég, að menn sjái hve ólíkt viðhaldið er á þjóðvegum og sýsluvegum og þess vegna tel ég það rétt, að ríkið sjái um viðhaldið, en fái það endurgreitt að einhverju leyti. Ég vil því benda n. á, hvort ekki muni vera rétt að flokka vegina og láta kostnaðinn að nokkru lenda á viðkomandi byggðalögum, þar sem ekki er um vegi fyrir heildina að ræða.