09.03.1943
Neðri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

8. mál, vegalög

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. — Eins og ljóst er öllum hv. þingm. og kemur einnig fram í hinni prentuðu dagskrá, liggja hér fyrir mörg mál í rauninni, víðs vegar að af landinu, ef svo mætti segja, enda er svo ávallt, þegar vegalagabreyt. eru á ferð í hv. Alþ. Þar mætast hagsmunir allra á einum vettvangi, og kemur hver úr sínu horni með áhugamál sins byggðarlags, sem hann er skyldur til að bera fyrir brjósti.

Samgmn. tók það ráð, sem eðlilegast var, þegar svo viðamikið allsherjarmál var á ferð, að flýta fyrir þingstörfum með því að hafa samvinnu með samgmn. hv. Ed. bæði í vegalögum og brúarlögum. Vandaverk hefur það ávallt reynzt að samræma þar ekki aðeins vilja manna, heldur það, sem kleift mætti kalla og eftir atvikum hentugt að setja í l. Hins er ekki að dyljast, að eðlilega er áhugi ríkjandi alstaðar heima fyrir í héruðum að koma sem mestum vegasamgöngum á hið opinbera. Ber þar tvennt til, sem hvorttveggja má teljast sanngjarnt. Í fyrsta lagi, að ríkið hefur almennt betri tök á því að annast vegalagningar og vegaviðhald. Einnig ætti að vera nokkur trygging fyrir því, að vegirnir yrðu svo traustlega gerðir, sem verða mætti. En því er þó ekki að fagna allténd, og er það að vissu leyti eðlilegt, þar sem svo mikið er vegað á kostnað ríkisins, allar höfuðsamgöngur og meira til. Það er ekki eðlilegt, að víðhald vega geti orðið eins og þeir vildu óska. Samgmn. hafa nú unnið að þessu máli með það eitt fyrir augum, að sem bezt mætti notast að öllu, þannig að þm. þeir, sem fram hafa komið með till. frá ýmsum héruðum landsins, mættu sjá, þegar till. koma úr þessum hreinsunareldi hjá n., að þar sé öllu sæmilega borgið eftir því, sem efni standa til og n. þykja kleift um sinn.

Nú er svo mál með vexti, að allmikill hluti af þessum till. hefur komizt inn í þær höfuðtill., sem samgöngumálan. Nd. ber fram á þskj. 460. Er í því þskj. tekið upp ekki aðeins það, sem ég vil telja að gott samkomulag hafi verið um milli n. og með n. og þeim þm., sem brtt. hafa flutt, og loks vegamálastjóra. Þessir aðilar allir tel ég, að hafi unnið að þessum breyt. og lagt sitt lóð á vogarskálina, eftir því sem n. töldu vel við hæfi, og býst ég ekki við, að menn geti með sanngirni talað um, að mikið hallist á. Ég býst ekki við, að menn verði óánægðir að lokum, að alhuguðu máli. Það er heldur ekki öll nótt úti, þótt samþ. verði það, sem n. leggur nú fyrir, því að þing á að koma saman eftir þetta þing. Ef menn sjá, að aðrir vegir eru jafnsjálfsagðir til þess að komast í þjóðvegatölu, þá yrði það vitanlega að ráði á sínum tíma. En að svo vöxnu tel ég ekki, að lengra megi fara, og þykist ég mæla fyrir munn n. og reyndar beggja n. Hitt getur verið álitamál í einstökum fáum tilfellum, hvort einn vegur hefði mátt falla úr eða annar vegur væri ekki jafnbær að koma inn. Á það vil ég ekki leggja dóm, en tel, að það sé vel, sem er, og menn yfirleitt verði að sætta sig við það. Og til þess vil ég mælast við þm., sem komið hafa með brtt. bæði áður en samkomulags var leitað meðal n., þegar þeir tóku þær aftur, og eins hinna, sem komið hafa fram með örfáar brtt. síðan, að þeir reyni að sætta sig við það, sem nú er orðið að samkomulagi með n. og meðal alls þorra þingmanna, sem eiga mokkurn hlut að máli. Ég tel eðlilegast, að þeir geri ekki að kappsmáli að koma að þessum fáu brtt. nú. Þessi ummæli eru með þeim eina fyrirvara, að undantekningu megi gera, ef þessir þm. hafa fengið vegamálastjóra til að leggja með einhverjum vegarspotta. En vegamálastjóri hefur sem sagt unnið með n. að því að koma á þessu kerfi og fá það út, sem mest var hægt að gera fyrir héruðin að svo vöxnu máli. Þess vegna tel ég, að verði einhverju bætt við, verði það að vera með vilja vegamálastj., til þess að ekki raskist mikið það skipulag, sem á þskj. 460 greinir, þar sem ekki aðeins eru taldir þeir vegir, sem till. koma um á þessu þingi, heldur allir þjóðvegir í einni skrá. Því að fleiri l. voru um þetta en aðallögin frá 1933, bæði frá 1936 og 1940, auk smærri ákvæða. Augljóst virðist, að réttast sé að eiga aðgang að þessum l. á einum stað.

Að endingu: N. vonast eftir, að ekki verði deilur um þetta mál yfirleitt. Reipdráttur er oft eðlilegur, en hann er líka stundum skaðlegur. Og nefndirnar tóku það ráð að leita samvinnu við alla aðila, sem komu til mála, og vona, að það beri árangur í meðferð hv. d. á þessu máli. Legg ég til, að till. verði samþ. eins og þær koma frá n.