19.12.1942
Neðri deild: 22. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Sveinbjörn Högnason:

Í þeim umr., sem fram hafa farið um þetta frv. stj., hafa verið nokkrar deilur um, hvaða fjárhagslega áhættu ýmsir einstaklingar tækju á sig, og vil ég út af því segja nokkur orð.

Það er vitanlegt, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er aðeins byrjunartilraun til að stöðva dýrtíðina. Frá því fyrsta, er byrjað var að glíma við dýrtíðina, hefur öllum verið ljóst, að þar er ekki van um árangur, nema einhverjir vilji einhverju fórna.

Eftir því, sem liggur fyrir í frv. og komið hefur fram í yfirlýsingum hæstv. stj. um önnur atriði, sem hún telur tryggð til þess að stöðva dýrtíðina, þá skilst mér, að hvergi sé krafizt fórna við þessa byrjunartilraun nema af einum aðila. Það er ekki verzlunarstéttin nema kannske einstakir einstaklingar eins og hv. þm. Vestm. sagði. Það er ekki verkalýðurinn, því að hann hefur engin loforð gefið, heldur eru það framleiðendur landbúnaðarvaranna, því að þeir hafa einir gefið loforð um að hækka ekki vörur sínar. Það eru stöðvar framleiðenda kjöts og mjólkur, sem hafa lofað þessu, og það eru bein fjárframlög. Nú er vitað, að síðan þessar afurðir voru hækkaðar, hefur vísitalan hækkað um 12 stig, og um áramótin mun hún hækka a.m.k. um 10 stig. Þannig kemur yfir 20 stiga hækkun á vísitölunni, án þess að þessar vörur verði hækkaðar. Þegar gefin hafa verið loforð um að hreyfa ekki verðlagið þrátt fyrir þetta, þá eru það loforð um bein fjárframlög frá hendi þeirra til þessara ráðstafana. Þessir framleiðendur eru því eina stéttin, sem hefur viljað lofa beinum fjárframlögum til þessara ráðstafana. Það sér hver maður, að þegar vísitalan hækkar um 20 stig eins og hún gerir í nóv. og des., þá hækkar kaupið við stofnanir landbúnaðarins og líta hjá framleiðendum, án þess að framleiðendur geti á nokkurn hátt jafnað það upp aftur eins og annars hefði verið hægt með verðlagsákvæðum. Ég vil, að þetta komi skýrt fram, af því að hv. þm. Vestm. var að tala um, að þessi ákvæði kynnu að koma hart niður á ýmsum einstaklingum innan verzlunarstéttarinnar. Og ég tel, að þegar frv. fer nú til n., þá sé rétt að athuga, hvort ekki væru einhverjir fleiri fáanlegir til að gefa loforð um, að þeir skuli ekki fara fram á hækkun, til að standa undir þessari tilraun, sem ekki er vitað, hvort kemur að gagni og kemur ekki að gagni, nema fleiri fari svipað að og þeir, sem standa að landbúnaðarframleiðslu.