17.03.1943
Neðri deild: 77. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

8. mál, vegalög

Frsm. (Gísli Sveinason):

Mig furðar ekki, þótt hv. 2. þm. N.-M. sé kampakátur, því að ýmsir munu mæla, að hann hafi borið nokkuð úr býtum. Má kalla ekki óeðlilegt, þótt stunir kveinki sér, þegar litið er á, hve honum hefur orðið ágengt. En hv. þm. vil ég benda á það, að það er óskaplega eðlilegt, að ekki sé litið eingöngu á skjöl þau, sem fyrir liggja, hve margar brtt. hafa verið fram bornar fyrr eða síðar, heldur hvernig aðstaðan er og þörfin, og ég vil segja atvinnuhættir á hverjum stað, hve langt er komið, hvað vantar og hvað mest er aðkallandi. Út frá þessu sjónarmiði getur verið eðlilegt það, sem hv. Snæf. taldi hart að gengið, að ekki skuli vera teknar upp á síðustu stundu einnig till. frá honum og öðrum þm., sem áður voru búnir að sætta sig við gang málsins. En ef hann heldur, að teknar hafi verið upp gamlar till., sem áður var búið að sættast upp á, þá er það misskilningur, sem annaðhvort stafar af því að hann vill ekki vita eða hefur ekki kynnt sér málið og telur yfirleitt í góðri trú, að n. hafi farið að endurskoða það, sem búið var að ná samkomulagi um, en það er aldeilis ekki tilfellið. Það var bara á síðustu stundu, áður en málið færi úr þessari hv. d., gerð tilraun til að taka það með, sem óhjákvæmilegt var og nýtilkomið, með það fyrir augum að gera að síðustu samkomulag það, sem nauðsynlegt var til þess að málið næði óhindrað að ganga fram. En að vekja óró hjá þm., sem voru búnir að sætta sig við það, sem áður var gert, var alls ekki tilgangur n.

Menn gera þetta til þess að koma þessum góðu málum að og fara svo eftir öðrum og hugsa sem svo, að þegar einn er farinn af stað, ja þá er bezt að ég komi líka. Þetta er því á miklum misskilningi byggt. Enda er það skilningur manna, að sætt er sætt, og þeir, sem fengið hafa fram eitthvað af till. sínum, og ekki sízt þeir, sem hafa fengið fram helming sinna óska, hafa fengið þó nokkuð. Það er ekkert drottinvald, sem hér sé verið að prédika, en það veitir ekki af, að haldið sé utanum þessi mál af n. Ég hef sjálfur séð það, að allt hefur farið úr reipunum hjá n., og n., sem ég hef verið í, einungis vegna þess, að ekki aðeins einstakir hv. þm. gátu ekki stutt að sáttum, heldur líka af því, að nm. gátu ekki orðið sammála um málin, en þá er voðinn vís. Og ár kemur eftir ár, og verður þá hægt að koma fram með till. Ég hygg, að þótt vegamálastjóri hafi ekki fallizt á allt, sem hv. þm. lögðu til, þá muni það vera svo, að það, sem nú gengur fram í þessum efnum, sé það, sem mest er aðkallandi. Hitt sigur svo áfram og siglir í kjölfarið. Þess vegna furðar mig á því, hvað hv. þm. Snæf. er hvass í orðum nú, þar sem hann deilir á n. fyrir óviðeigandi aðferðir. Ég býst við, að hann sé einn um það, því að n. hafa beitt fyllstu sanngirni. því að eftir óskum frá mér hefur verið farið á hnotskóg hjá hv. þm. sjálfum til þess að fá sætt og sanngirni fram. Og ef slík sætt næst nokkurn veginn, er ekki ástæða til að fara að gera uppsteit á síðustu stundu, þó að ekki fáist allt. Hv. þm. Snæf. hefur fengið fram tvær till. af fjórum. Vænti ég því, hvað sem líður þessari brtt. hv. þm., — hann má vitaskuld bera hana fram, ef honum er fróun í því —, að ekki verði samþykktar aðrar till. en þær, sem n. leggur til, að samþykktar verði, með því að ég álit, að við það geti allir hv. þm. vel unað um hríð.