17.03.1943
Neðri deild: 77. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

8. mál, vegalög

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Það er aðeins af þessum endurtekna misskilningi, sem ég kvaddi mér hljóðs. Ég fer að halda, að þessi hv. þm. beri það fram visvítandi, sem hann a.m.k. ætti að skilja, að er ekki rétt. Það er ekki gengið á neinar sættir, nema ef á að kalla það sættir, sem ég vil ekki meina, að hv. þm. ætli sér í alvöru að halda fram að sé. Því að þessar till., sem nú hafa síðar komið fram, eru hinar nýju till., sem bætzt hafa við, síðan sætzt var á hinar, sem fyrr voru fram komnar og með samkomulagi ákveðið, hverjar af þeim skyldu ná fram að banga. Það var búið að sættast upp á vissa meðferð hinna fyrri till. En þetta, sem hér er á ferð, að taka nýjar till. til greina að einhverju leyti, er beint áframhald af þeirri fyrri sætt. Vegamálastjóri var fenginn til að sætta sig við fyrra samkomulagið, og nú hefur hann verið fenginn til að sætta sig við þetta, sem er beint áframhald af hinu fyrra.

Ég hef ekki á móti því, að hv. þm. komi með brtt. sínar, og það eru þá hv. þm., sem skera úr um þær.