23.03.1943
Efri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

8. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Ég ætlaði ekki að þreyta hv. d. lengur. En nú neyðist ég til að standa hér upp og lýsa hv. þm. Barð. opinberan ósannindamann um það, að ég hafi rofið nokkra samninga eða samkomulag. (GJ: Forseti, ætlið þér ekki að hringja á hann? Er leyfilegt að tala svona?) Og hvað því viðvíkur, að flokkur minn hafi svikið samkomulag við forsetakjörið í haust, en við það mun fyrst og fremst vera átt, þá hafa þau ummæli verið dæmd dauð og ómerk nýlega. (BBen: Það vita allir, að það var satt).

Það vita allir, að það var ósatt, og hv. 6. þm. Reykv. ekki sízt, af því að hann var í samningan. um forsetakjörið og víssi vel, að Framsfl. gekk þá ekki að samningum, þó að hann fari hér með ósannindi gegn betri vitund.

Sannleikurinn er sá í því máli, sem hér um ræðir, að tveir nm. úr samgmn. komu til mín og sögðu mér frá því'., að vegamálastjóri vildi taka eina till. mína til gr., en ekki hinar tvær. Ég sagði þeim þá, á hvaða till. ég legði mesta áherzlu. En ekki varð það sú till., sem tekin var upp í frv. og samþ. við 2. umr. í Nd.

Ég sagði ekki annað um þetta við þá en að ég mundi sætta mig við þetta. En hv. þm. Barð. veit, að hann fer með ósannindi, er hann ber á mig samningsrof í þessu máli, því að ég lofaði aldrei að taka mínar till. aftur, enda ekki fram á það farið. Við sátum hérna inni í deildinni, er við töluðumst við, og ég man vel, hvað ég sagði. En síðar tók hv. Nd. til greina þá till. mína, er ég lagði mestu áherzluna á, og er hún nú komin inn í frv. Hef ég þó engan tillögurétt í hv. Nd. Það er eins og það sé einhver goðgá, þótt ég óskaði eftir, að atkvgr. færi fram um till. er ég sýndi hv. d. þegar í nóvember í haust.

Ég veit ekki, hvað það á að þýða, þegar hv. þm. Barð. veður uppi með svívirðingar um mig, þótt ég leyfi mér að bera fram till. hér í þinginu. Það er auðséð, að hann ætlar sér að verða frægur í þingsögunni, en ég segi rétt eins og er, að ég öfunda hann ekki af þeirri frægð, sem hann mun hljóta.