25.03.1943
Efri deild: 81. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

8. mál, vegalög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þegar þetta frv. var hér til 2. umr., var það ósk hv. samgmn., að við, nokkrir, sem komum með brtt., tækjum þær aftur til 3. umr., og gerði n. þá ráð fyrir að ræða þær till. á fundum sínum. Nú langaði mig til að vita, hver hefði verið dómur n. En það hefur enginn nm. kvatt sér ljóðs, svo að það verður að álykta, að þeir ætli ekki að leggja neinn dóm á þær. Ég held mér því við þá kröfu, að brtt. mín á þskj. 585 sé borin upp til atkvæða. Ég færði rök að því við aðra umræðu, að meiri nauðsyn væri á að fá þá vegi, sem brtt. gerir ráð fyrir, tekna upp í þjóðvegakerfið, en suma hina, sem samgmn. hafði tekið upp í sinni brtt. og mælt með, að teknir væru í þjóðvegatölu. Ég tek til dæmis á Austurlandi, Jökuldalsveg frá Austurlandsvegi að aðalbóli. Fyrst er 15 km. spotti af þjóðveginum fyrir 4 eða 5 bæi. Þaðan eru um 15 km að Brú, og á þeirri leið 3 bæir. Síðan eru 10 km að Aðalbóli í Hrafnkelsdal, og er þar aðeins um tvo bæi að ræða, og er mér tjáð, að annar þeirra sé að fara í auðn og því skammt að bíða þar til hinn fer það líka.

Þetta vil ég Lenda á aðeins sem dæmi, til samanburðar því, sem ég fer fram á, sem er um 12 –15 km leið til nytja 10–14 bæjum. Mér sýnist mikið ósamræmi í því að hafna þeim vegi, en taka upp þennan veg í Norður-Múlasýslu, sem ég hef getið um.

Ég heyri sagt, að hv. samgmn. Ed. óttist, ef farið er að taka upp nýjar brtt., þá komi óreiða á allt kerfið. En einn nm., hv. 1. þm. 5.-M., hefur tekizt að fá 68 km leið tekna upp í kerfið, en við hinir förum fram á 20–24 km. Annar nm., hv. þm. Barð., fékk 50–60 km vegi. Ég segi fyrir mig, að mér finnst hér órétt skipt. Ég hef sýnt fram á það, að hér er um meiri nauðsyn að ræða en um marga aðra vegi, sem hv. n. hefur lagt til, og ég vil fá þetta leiðrétt.

Hv. nm. hafa verið kosnir í góðu trausti okkar um, að þeir mundu bera fram við hv. samgmn. Nd. vilja okkar og kröfur, þegar þeir mættu á þeim vettvangi. En þannig ber undir, að þegar verið er að ganga frá brtt. í n. og nm. okkar eru kvaddir á fund samgmn. þeirrar d., er ekki ein einasta af beíðnum okkar Ed.-manna tekin til greina, nema ef vera skyldi litill spotti í Eyjafjarðarsýslu. Þetta eru eflaust stórheiðarlegir menn, en þeir hafa bara töluvert brugðizt því trausti, sem við bárum til þeirra í þessum efnum.