25.03.1943
Efri deild: 81. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

8. mál, vegalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Sem formaður samgmn. leyfi ég mér að upplýsa, að n. hafði málið til athugunar og komst að þeirri niðurstöðu að leggja til við þessa hv. d. að breyta ekki brtt. eins og hún kom frá hv. Nd. Þessi niðurstaða var byggð á því, að óttazt var, ef farið væri að breyta frv. meira en orðið er í Ed., þá gæti málið allt losnað úr viðjum og ekkert orðið samþykkt á þessu þingi. (ÞÞ: Hvar er þá réttlætið?) Ég vil minna hv. þm. Dal. á, að réttlætið er ekki mælt í km, heldur eftir þörfinni í hverri sýslu. Hann veit vel, að það var komið til hans eins og annarra. Þá var hann á þeirri skoðun, að réttlætið væri ekki mælt í km, því að þá var hann með því, að samþykkt væri að taka upp styttri veginn, en fékk þann lengri að till. vegamálastjóra. Ég vil ennfremur benda á, að það er hægt að aka um þvera Dalasýslu. Hins vegar er Barðastrandarsýsla þannig sett, að það er aðeins hægt að aka inn í hana, en ekki í gegnum hana.

N. væntir þess, að menn skilji, að það er málinu fyrir beztu, án þess að verið sé þar með að leggja dóm á, hvort till. eru nauðsynlegar, að málið verði afgreitt eins og það nú liggur fyrir, og það er vitað mál, að ekki verður búið að leggja helminginn af þessum vegum hvort sem er, þegar málið verður aftur tekið fyrir á næsta þingi.

Annars vildi ég mælast til þess við hv. forseta, að hann taki till. á þskj. 581 til atkvæða, og ef hún yrði ekki samþ., þá hygg ég, að flestir hinir hv. þdm. vildu taka till. til baka. Þær komu fram bara af því, að búið var að opna leið fyrir brtt. með þessari till. Ég vildi því mælast til að farin yrði þessi leið, ef hv. forseti telur það rétt samkv. þingsköpum.