25.03.1943
Efri deild: 81. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

8. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki þreyta umr., en aðeins segja nokkur orð. Það virðist svo vera, sem við hinir eldri þm. eigum erfitt með að gera hinum nýja hv. þm. Barð. til hæfis. Þegar brúal. lágu hér fyrir hv. d., þá deildi hann á mig fyrir það, að ég skyldi ekki koma með brtt. fyrr en við 3. umr. málsins, og nú deilir hann á mig fyrir það, að ég skuli nú að formi til taka upp brtt. við þetta frv., en sú brtt. hefur legið fyrir Alþingi jafnlengi og frv. eða síðan í haust, svo að þessi till. mín er ekkert ný af nálinni.

Hv. þm. Dal. sagði, ef brtt. yrði samþ., þá mundi hv. n. finnast komin óreiða á kerfið. Ég veit ekki almennilega, við hvaða kerfi hann hefur átt, en líklega hefur það verið þjóðvegakerfi landsins almennt. E.t.v. er þetta rétt, en hv. þm. veit vel, að oft áður hefur komið óreiða á vegakerfið.

Svo vil ég drepa á ummæli hv. þm. Barð. Hann sagði, að Eyjafjarðarsýsla hefði meiri þjóðvegi en nokkur önnur sýsla landsins. Ég veit ekki, hvort hann átti við, að svo hefði verið undanfarið, eða hvort hann meinti þetta frv. En hvað um það. Ef hann heldur því fram, að Eyjafjarðarsýsla hafi lengsta þjóðvegi af sýslum landsins, þá er bezt fyrir þennan hv. þm. að fara til vegamálastjóra og læra betur, því að ég fullyrði að svo sé ekki. Hann sagði enn fremur, að reipdrátturinn um þetta mál stafaði af mér. Mér þykir harla einkennilegt, ef svo er, enda þótt ég setji nú fram þessa till. mína, sem hefur legið fyrir Alþingi síðan í haust, en ef hægt er að tala um reipdrátt, þá er það frekar hv. þm. Barð. en ég, sem stendur fyrir honum. Þessi hv. þm. óskaði eftir því, að hæstv. forseti bæri till. mína upp fyrst, og ástæðan fyrir því sagði hann, að væri sú, að ef vegalögin yrðu opnuð á annað borð, þá mætti sjálfsagt samþykkja fleira. Ég hélt, að frv. sjálft væri opnun vegalaganna en ekki einstakar till., sem fram eru bornar. Í sambandi við þetta vil ég benda hæstv. forseta á, að till. mína á að bera upp síðasta, af því að hún er við atriði í frv., sem koma þar síðar fyrir heldur en hinar brtt. Þótt ég hafi formlega viljað gefa hv. d. kost á að fjalla um till. mína, þá játa ég, að ég er sæmilega ánægður með frv. eins og það er nú, fyrst verið er að gera breyt. á vegal. á annað borð. Ég get enn fremur lofað því, ef hinar brtt. verða felldar eða teknar aftur, þá mun ég taka aftur till. mína. Ekki vegna þess, að hún eigi ekki rétt á sér, úr því sem komið er, heldur vegna hins, að ég skoða það þá sem vilja hv. d., að hún kæri sig ekki um að breyta l. frekar en frv. fer fram á. Það væri fróðlegt að heyra, hvaða reglu hafi verið reynt að fylgja við afgr. þessa máls. — Ég ætla þó ekki að spyrja hv. n. um það, því að það liggur ljóst fyrir, að engum reglum hefur verið fylgt. Einn nm., hv. 1. þm. 5.-M., talaði um kerfi, sem fylgt hefði verið, en ég mótmæli því eindregið. Þetta kerfi, sem var í fyrstunni, hefur hvað eftir annað verið þverbrotið. Fjöldi vega hefur komizt inn á vegalögin, sem ekki hafa þýðingu nema fyrir einstaka sveitir, og handahóf hefur ráðið um þessi mál, og eins og ég sagði við 2. umr. um þessa brtt. mína, þá er hún í fyllsta samræmi við það, sem er í þessu frv. og hefur áður komizt inn á vegalögin.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, þá mun ég ekki þreyta umr., en vil endurtaka það, að menn þurfa ekki að óttast, að till. mín komi undir atkv., ef d. sýnir með atkvgr. eða flm. með því að taka aftur sínar till., að þeir óski ekki eftir frekari breyt. á l. en í frv. eru.